Langar að vera í innilegu ástarsambandi

Það getur verið einmanalegt að sitja með ómættar þarfir einn, …
Það getur verið einmanalegt að sitja með ómættar þarfir einn, án þess að hafa getuna til að tjá hvernig manni líður. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr ís­lensk kona hvað henni finnist um samband sem hún er í. Hún saknar þess að vera í innilegu ástarsambandi þar sem þörfum hennar er ekki sinnt í núverandi sambandi.

Sæl Elínrós.

Ég er sjálfstæð kona í sambandi en við búum ekki saman og ég sé ekki að það muni breytast á næstu árum.

Kærastinn minn er rólegur og þögull, spjallar mjög lítið við mig og gefur afar lítið af sér líkamlega og andlega og er oftast daufur eða að drífa sig að sinna einhverjum verkum. 

Ég hef þörf fyrir mikla líkamlega nánd, kærleika og gæðastundir þar sem við tölum saman eða skemmtum okkur saman við tvö á einlægan hátt.  Ég finn að þessum þörfum mínum er á engan hátt fullnægt í sambandinu, og hefur aldrei verið.

Hann er duglegur að hjálpa mér með að dytta að og finnst það vera sitt einlæga framlag til sambandsins. Ég er þakklát fyrir það og mér finnst gott að finna hve traustur hann er og að hann sé alltaf til staðar ef eitthvað bjátar á.

Mér þætti vænt um að heyra frá þér hvað þér finnst um þessa stöðu því að ég sakna þess mikið að vera í innilegu ástarsambandi.

Með fyrirframþökk

El­ín­rós er NLP-ráðgjafi með sér­hæf­ingu sem fíkni­ráðgjafi. Hún er með …
El­ín­rós er NLP-ráðgjafi með sér­hæf­ingu sem fíkni­ráðgjafi. Hún er með grunnpróf í sálfræði og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Ljósmynd/Eggert

Sæl og takk fyrir að senda inn bréfið.

Ég heyrði því einu sinni fleygt fram að maður skyldi varast sambandsforrit eins og Tinder, þar séu konur að leita sér að viðgerðarmönnum og karlar að leita sér að íbúð.

Þetta kom til mín þegar ég las spurninguna þína. Ertu skotin í kærastanum? Er hann meira en 50% í lagi?

Ástarsambönd eru að mínu mati svo heillandi en sér í lagi þar sem þau eru oft misskilin. Maður þarf vanalega einhverja handleiðslu þegar sambandið er orðið öðruvísi en mann langar til. Fólk er líka að leita að ólíkum hlutum í sambandi. Ef þeir sem eru í sambandi ræða svo ekki saman um hvað þeir vilja þá verður til þögult samkomulagt um eitthvað sem kannski er ekki að virka.  

Það að þú sért tilbúin í ást og nánd er frábært. Innilegt ástarsamband er gulls ígildi. Þó að ég sé persónulega meira hrifin af fjarsamböndum en klessuhjónaböndum ef þú skilur hvað ég meina. 

Það er samt ýmislegt sem bendir til þess að þú þurfir að vinna í þér þegar kemur að tilfinningum, nánd og ást. Einnig getur margt breyst þegar maður vinnur í sjálfsvirðingunni. 

Eins og til dæmis:

Ef fólk er fast í sambandi sem er öðruvísi en það langar að vera í þá er líklegast eitthvað sem var að virka í upphafi sambandsins. Verið getur að annar aðilinn hafi þroskast meira en hinn eða að sambandið hafið fallið í ákveðinn farveg. En ég þori að halda því fram af spurningunni þinni einni saman að þú átt föður sem var fjarlægur sjálfur. Hann annaðhvort vann mikið eða var ekki tilfinningalega til staðar fyrir þig. Getur það verið? Einhvers staðar áttu erfitt með að biðja um það sem þú vilt, setja mörk og standa með þér. 

Ég myndi telja að það væri kominn tími á samning ykkar á milli. Að því gefnu að þú sért enn þá skotin í honum og langi til að þroskast inni í þessu sambandi. 

Það er gott að eiga rólegan og hjálplegan kærasta. En eitthvað segir mér að hann hafi lært í æsku að ást sé það að aðstoða, og þegar maður nálgast ástarsambönd á þann hátt kemur alltaf sá tími að maður verður fjarlægur og fær þennan tómleika inn í sig aftur.

Það að vera sjálfstæð er gott og gilt, en það er ekki ávísun á það að vera hamingjusamur. Þú þarft að sjá fyrir þér draumastöðuna þína í framtíðinni og ástunda hegðun á hverjum degi sem kemur þér þangað. Það er verkefni sem eflir sjálfsvirðingu þína. 

Síðan þarft þú að stíga inn í að gera þennan samning um ástina. Fyrst við þig og síðan við kærastann. Ef þú vilt skila kærastanum og finna nýjan geturðu bókað að þú færð sama verkefnið til þín eftir visst langan tíma. Þetta verkefni að stíga inn í sambandið, vera heiðarleg með það sem þig langar og langar ekki. Setja mörk og vera fylgin þér.

Gangi þér hjartanlega vel og mundu, þú ert ekki ein um þessar tilfinningar. Við virðumst sitja ansi mörg, hugsi í okkar horni, um hvernig hlutirnir eiga að vera. 

Kær kveðja, Elínrós.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál