„Við megum ekki beita hana ofbeldi“

Jóna Hrönn ætlar að leggja sig fram við að kynnast …
Jóna Hrönn ætlar að leggja sig fram við að kynnast ungu kynslóðinni betur á næstu misserum. Samsett mynd

Margir landsmenn eru hugsi eftir Kastljósþátt gærdagsins þar sem Alda Karen fékk opinberlega áminningu frá Hafrúnu Kristjánsdóttur sálfræðingi sem gagnrýnir málflutning hennar og spyrill þáttarins vænir hana um að vera að stofna sértrúarsöfnuð. Alda Karen heldur sjálfshjálparnámskeið í Laugardalshöll á föstudaginn, þar sem hún kennir fólki lífslykla, m.a. það að segja „ég er nóg“. Alda Karen er að margra mati jafningjafræðari þar sem hún gefur áfram þann bata sem hún hefur öðlast að undanförnu. Sérfræðingar eru á því að hún einfaldi hlutina um of, að slíkt sé hættulegt þeim sem eru alvarlega veikir. 

Jóna Hrönn Bolladóttir prestur birti færslu á Facebook í kjölfarið og segist hafa verið gráti næst þegar þættinum lauk. Hún segir rangt að taka hana niður, þagga og sýna henni vandlætingu einungis af því að hún þekki ekki sálfræðilegar rannsóknir. 

„Ég vona að einhver sem elskar hana (Öldu Karen) skilyrðislaust hafi tekið hana í faðminn og sagt henni að hún væri svo sannarlega nóg. Ég hef í mörg ár mætt fólki í sálgæslu sem vill ekki lifa lengur og ég hef líka átt mörg samtölin við ástvini sem hafa misst í sjálfsvígum. Þessi veruleiki er svo flókin[n] og sár og úrvinnslan þyrnum stráð. Við vitum það öll að þetta verður ekki leyst með einni setningu.

En horfum aftur á þessa ungu konu, hún er fulltrúi kynslóðar sem fær endalaust þau skilaboð að þau séu ekki nóg, kynslóð[ar] sem lifir í samkeppnissamfélagi þar sem menn sækjast eftir árangri og gróða. Hún lifir líka á tímum þar sem fjöldinn allur af ungu fólki reiknar ekki með því að þeirra sé vænst eða neinn bíði eftir því að þau láti um sig muna. Fjöldinn allur af ungu fólki gefst upp í námi af því að það er eitthvað í skólakerfinu sem hentar ekki þessari kynslóð og þau flosna úr námi með þá tilfinningu að þau pass[i] ekki inn og [séu] ekki nóg. Hún lifir á tímum samfélagsmiðla sem er bara alls ekki hluti af mínum veruleika og ég eignaðist ekki iphone fyrr en á þessum jólum og mér er hreinlega ekki að takast að læra á Instagram og ég veit ekki einu sinni hvað Twitter er.

En ég veit af samtölum mínum við ungt fólk að þar er að finna óheilbrigða samanburðamenningu sem skilur ungt fólk oft eftir í vanlíðan. Jafnvel vanlíðan sem getur leitt til þeirrar hugsunar að fólki [sic] langar ekki að lifa, en finnur þörf til að deyfa sig í það minnsta.“

Jóna Hörnn bendir á að Alda Karen sé manneskja sem gæti einmitt verið mikilvæg í forvarnarstarfi fyrir þá sem finna ekki tilgang lífsins.

„Við megum ekki þagga hana, beita hana ofbeldi, taka hana niður eða horfa á hana með vanþóknun/vandlætingu af því að hún þekkir engar sálfræðilegar rannsóknir. Við skulum umvefja hana og leiðbeina henni af því að hún nær til kynslóðar sem í mínum huga er hrjáð á margan hátt og í ákveðinni hættu. Ég ætla að fylgjast með þessar stúlku því henni er mikið gefið og ég veit að ef hún verður ekki þögguð þá á hún eftir að læra margt og verða ennþá öflugri. Ég ætla líka að setja mér það markmið á nýju ári að hlusta betur á þessa kynslóð og reyna að skilja betur.“

 

mbl.is