Fæla sterkar konur karlmennina frá sér?

Linda Baldvinsdóttir, samskiptaráðgjafi og markþjálfi hjá Manngildi.
Linda Baldvinsdóttir, samskiptaráðgjafi og markþjálfi hjá Manngildi. mbl.is/Árni Sæberg

„Nú nýverið las ég grein þar sem fram kom að karlar vilji ekki sterkar vel gefnar konur sem maka þrátt fyrir að þeir beri mikla virðingu fyrir þeim alla jafna,“ segir Linda Baldvinsdóttir, markþjálfi og samskiptaráðgjafi hjá Manngildi, í sínum nýjasta pistli: 

Það sannast sem sagt það sem við vinkonurnar höfum stundum verið að gaspra um eða það að karlmenn séu almennt með svo brotið ego að þeir þurfi að vera aðeins yfir konuna í lífi sínu hafnir í stað þess að vera þar á jöfnum grunni (auðvitað ekki algilt frekar en annað).

Stephani Reeds hefur skrifað margar greinar um hinar mannlegu og sálarlegu hliðar mannsins og í grein þeirri sem ég las heldur hún því fram að karlmenn vilji heldur brothættar, mjúkar, kvenlegar konur í stað sterkrar alpha-konu hvenær sem er.

En hvers vegna er þetta svona ef við gefum okkur að staðreyndir séu á bak við þessa fullyrðingu?

Í grein Stephanie segir hún að í könnunum sem gerðar hafa verið komi í ljós að möguleikarnir á því að menn muni fara á rómantískt stefnumót með gáfaðri valdamikilli konu séu jafnvel minni en við vinkonurnar héldum.

Ein af mörgum könnunum sem var gerð við Háskólann í Buffalo ásamt Háskólanum í Texas og Lútherska háskólanum í Kaliforniu var framkvæmd þannig að karlar voru valdir og spurðir hvort þeim þætti þægilegt að fara á stefnumót með konum sem væru gáfaðri en þeir sjálfir. 90% sögðu að þeim þætti það í fínu lagi, en þegar öll stigin úr könnuninni voru talin saman kom í ljós að þeir höfðu í raun ekki áhuga á þeirri konu sem rómantísku viðhengi.

Niðurstaðan var sem sagt sú að konur sem voru gáfaðri en þeir og voru hæfari til að framkvæma ákveðin verk vöktu áhuga eða virðingu mannanna en aðeins ef þær voru í ákveðinni fjarlægð frá þeim. Þegar að stefnumótum kom hins vegar og nálægð við manneskjuna komin í spilið þá kom í ljós að þeir kjósa frekar konur sem eru þeim síðri að gáfum og getu í það hlutverk.

Önnur könnun af sama toga gaf svipaðar niðurstöður en útskýrði betur hvers vegna þetta er svona.

Í prófunum þessara aðila voru þátttakendur beðnir um að skilgreina og lýsa karlmennsku sinni í aðstæðum þar sem kona hafði haft yfirhöndina í samræðum fyrir framan konu sem þeir höfðu haft rómantískan áhuga á og það kom ekki vel út fyrir egoið þeirra.

Rannsakendur komust að svipaðri  niðurstöðu og þeir sem fyrri könnunina gerðu og vitnað er í eða að í fjarlægð höfðu menn meiri áhuga á konum sem voru þeim fremri að gáfum, en á hinn bóginn þegar þessar konur voru komnar í raunveruleg samskipti við þá voru þær ekki eins spennandi ef þær báru höfuð og herðar yfir þá gáfnafarslega séð.

Það virðist því þannig vera þegar allt er tekið með að karlmönnum sé verulega ógnað af valdamiklum, vel gefnum og sjálfstæðum konum.

Og kona með snjallan húmor virðist einnig vera hættuleg þessu brothætta egói karlmannanna og þeir kjósa einnig að halda sig í góðri fjarlægð frá þeim konum.

En þrátt fyrir að karlmönnum í þessari könnun finnist gáfaðar konur ógnvekjandi þýðir það ekki að það sé eitthvað að þessum gáfuðu og flottu konum segir Stephanie og gæti ég ekki verið meira sammála henni hvað það varðar, og ég hef nú þá trú að það séu til menn hér á okkar ylhýra sem eru það sterkir karakterar að þeir hefðu orðið undantekningin í þessum bandarísku könnunum og þoli það vel að konur skáki þeim að vitsmunum og ýmsu öðru leyti.

Ég hef einnig þá trú að við séum komin mun lengra í jafningjasamskiptum en það sem lesa má út úr þessum könnunum sem hún Stephanie tínir til.

Og ef sú trú mín bregst þá ætla ég enn að að trúa á að kraftaverkin gerist enn þann dag í dag og að þessir sterku, fallegu og fjallmyndarlegu gáfuðu víkingar okkar muni ekki uppfylla orð okkar vinkvennanna um heigulshátt og brotna sjálfsmynd heldur sé þetta bara í nösum okkar kvenna jafnt hér á landi sem annars staðar.

Kæru systur – verum bara jafn klárar, fyndnar, flottar, valdamiklar og okkur sýnist að vera, það er alltaf smartast að vera maður sjálfur eins og maður er án þess að reyna með nokkrum hætti að leitast við að breyta sér til að uppfylla þarfir eða væntingar annarra, að ég tali nú ekki um að fara að stíga meðvirknidansinn sem engum gerir gott.

Nú og ef enginn fallegur víkingur kann að meta okkur eins og við erum (ekki að það sé forsendan fyrir góðu lífi), þá skulum við bara skína skært á okkar eigin sjálfstæðu gáfnafarslegu húmorísku forsendum og njóta lífsins með þeim sem kunna að meta návist okkar og klárheit!

Eins og alltaf er ég svo bara einni tímapöntun í burtu! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál