Fyrrverandi maður orðinn besta vinkonan

Þessi ljósmynd er af Sunnevu og Völu, ásamt dóttur þeirra …
Þessi ljósmynd er af Sunnevu og Völu, ásamt dóttur þeirra sem er hin glaðasta með foreldraknúsið. Ljósmynd/Aðsend

Á vef Austurfréttar má finna viðtal við Völu Friðriksdóttur frá Eskifirði sem hefur gengið í gegnum reynslu sem fæstir hafa upplifað. Barnsfaðir hennar og fyrrverandi maki er nú í kynleiðréttingaferli. Vala kaus að segja lesendum Austurgluggans sögu sína þar sem hún vildi opna á umræðuna tengt transfólki í íslensku samfélagi.

Vala Friðriksdóttir hafði verið með barnsföður sínum í sex ár þegar hann tilkynnti henni að hann teldi sig vera fæddan í röngum líkama. Hann hét þá Valur Sigurbjörn Pálmarsson en heitir í dag Sunneva Ósk Pálmarsdóttir. Á þessum tíma var dóttir þeirra tveggja ára gömul og litla fjölskyldan nýlega flutt heim frá Svíþjóð þar sem þau höfðu dvalið í ár. 

Í viðtalinu segir meðal annars:

„Fyrrverandi maðurinn minn er ein besta vinkona mín í dag. Þetta er auðvitað stundum mjög ruglingslegt en samt mjög gott. Ég finn að ég sakna þess vissulega að eiga hana ekki lengur sem maka en ég hef hins vegar aldrei efast um að ákvörðunin var rétt. Skilnaðurinn var erfiður og sár, en þó á fallegan hátt. Okkur hefur allan tíman borið gæfa til að halda vinskap og styðja hvor aðra í þessu. Við getum einnig sagt hvor annarri þegar okkur líður ömurlega illa með þetta allt saman. Maður má alveg leyfa sér að eiga slæma daga, en ef maður bælir tilfinningarnar niður springur maður einn daginn og það er ekki eitthvað sem ég vil.

Ég held að það hafi hjálpað mér mjög mikið hversu jákvæð og víðsýn ég er að eðlisfari. Öll erum við manneskjur og enginn græðir á því að vera með illindi við saklausan einstakling. Hún gerði mér ekki neitt, fylgdi aðeins sínu hjarta og eins ótrúlega sárt og það er verð ég bara að vinna með það.

Vala Friðriksdóttir vill opna umræðuna um kynleiðréttingu og hvað slíkt …
Vala Friðriksdóttir vill opna umræðuna um kynleiðréttingu og hvað slíkt hefur í för með sér. Ljósmynd/Aðsend

Ég er ekki endilega sammála því að tíminn lækni öll sár, en hann hefur mikið að segja. Ég á góða að og fer alltaf mánaðarlega til ráðgjafa í Lausninni. Ég vildi óska að það væri orðið almennara að fólk leitaði sér aðstoðar, við þurfum öll að rækta hugann eins og líkamann.“

Seinna í viðtalinu talar Vala um hversu sárt og erfitt kynleiðréttingaferlið er. Sterkar skoðanir fólks á þessu ferli spili þar inn í.

„Fólk hafði skoðanir á öllu. Eins og til dæmis að það væri undarlegt að hún hefði bara fyrst áttað sig á þessu þegar við vorum úti í Svíþjóð. Að hún hlyti að hafa gert það fyrr, örugglega strax í æsku, bara rétt eins og það vissi miklu betur um hennar líðan en hún sjálf. Að hún hefði örugglega verið í afneitun og bælt þetta niður. Auðvitað veit enginn neitt um þetta nema hún sjálf.“

Hægt er að skoða viðtalið í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál