Kærastinn glápir á aðrar konur á kvöldin

Kærastinn er fjarlægur og daufur og glápir á aðrar konur ...
Kærastinn er fjarlægur og daufur og glápir á aðrar konur á Instagram á kvöldin. mbl.is/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda. Hér fær hún bréf frá konu sem vil koma sér út úr sambandi strax. Kærastinn er að glápa á aðrar konur á kvöldin.

Sæl Elínrós.

Ég sá símann hjá kærastanum mínum um daginn og brá heldur betur í brún þegar ég sá að hann er að fylgjast náið með öðrum konum á Instagram. Ég hef ekki rætt þetta við hann en hef verið að skoða yfir öxlina á honum og skoðaði svo um daginn í „history“ og fann út að þetta eru allskonar konur, engin af þeim er ég.

Eftir að ég tók eftir þessu fór ég að velta fyrir mér hvað hann er að spá. Hann situr löngum stundum fyrir framan sjónvarpið þegar ég er komin upp í rúm og dundar sér við að fylgjast með öðrum konum. Hann er mjög fjarlægur og dofinn.

Um daginn fór ég í sund og sá eina af þessum konum. Hún er týpan sem er rosa mjó og flott á Instagram, en mér brá frekar mikið að sjá hana í sundi, þar sem hún var frekar venjuleg og alls ekki eins og myndirnar sem hún er að setja út í loftið af sér.

Er eðlilegt að kærastinn sé með þráhyggju fyrir öðrum konum og hvað á ég að gera. Hef engan áhuga á að tala um þetta við hann, en eins hef ég engan áhuga á að vera með honum lengur. Ég hef skoðað símann einu sinni og langar ekki að eyða tímanum mínum í svoleiðis tékk.

Við eigum ekki börn. Mig langar að hætta með honum strax. Er óheiðarlegt að segja sem minnst um af hverju og bara koma sér út úr þessu? Vil frekar vera ein en með einhverjum þráhyggjupésa.

Kærar BB

Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert

Sæl BB.

Nei mér finnst ekki óeðlilegt að þig langi út úr þessu sambandi. Þetta sem þú ert að upplifa er að fara yfir mörkin þín og er hluti af þessari samfélagsmiðlaveröld sem er ótrúlega mikil fantasía að mínu mati.

Hins vegar myndi ég ráðleggja þér að setjast niður með honum og útskýra af hverju þú vilt hætta þessu sambandi.

Ef þú setur stíf mörk með svona hluti, þá segir þú veröldinni hvað þig langar og hvað þig langar ekki. Það mættu margir taka sér þig til fyrirmyndar, hlusta á innsæið betur og taka af skarið með að setja kærleiksrík mörk og halda áfram í lífinu.

Það sem mér finnst hins vegar skrítið er þessi sambandsfíkn sem er víða í samfélaginu. Ekki byrja í nýju sambandi strax aftur með samskonar félaga. Taktu þér tíma í að vera ein og verða besta útgáfan af þér.

Þegar fólk er með þráhyggju út fyrir sambandið sem það er í er það vanalega á mjög óþægilegum stað. Það er ekki að horfast í augu við sjálfan sig og aðra og fixar sig með því að „fantasera“ svona.

Ef þú sest niður með kærastanum og gerir þetta á kærleiksríkan hátt þá muntu gefa honum ákveðna gjöf líka. Kannski vaknar hann til lífsins og ákveður að skoða hvað veldur þessu hjá honum.

Ef þetta er góður maður sem þú hefur trú á getur þú einnig sest niður með honum sagt honum hvernig þér líður og heyrt hans hlið. Þið gætuð farið í sambandsráðgjöf og fundið út úr málunum saman.

Ekki setja mörk nema að geta staðið við þau og alls ekki hóta einhverju sem þú getur ekki staðið við. Þetta er maðurinn sem þú valdir þér, þú verður að taka ábyrgð sjálf og standa og falla með þessu vali þínu.

Það ættu fleiri að mínu mati að fylgja innsæinu sínu þegar kemur að ástinni og standa með sér í málefnum sem fara yfir mörk þeirra.

Mundu samt að við erum öll fædd inn í þessa veröld til að vera manneskjur fyrir hvort annað. Þú munt hins vegar að mínu mati verða mjög veik í sambandi með manni sem hefur ekki áhuga á þér og væri betur settur einn í dagdraumum en að taka frá konu bara til að vera í sambandi.

Gangi þér vel.

Kærar Elínrós.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is