Sonurinn búinn að steypa sér í skuldir

Spilavandi getur verið hættulegur þeim sem hafa hann. Ungir menn …
Spilavandi getur verið hættulegur þeim sem hafa hann. Ungir menn geta misst áhugann á lífinu og misst sjónar á tilganginum. Það er til lausn og það er til leið. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Alma Hafsteinsdóttir er fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með sérhæfingu í spilafíkn. Hér sendir móðir ungs manns til hennar bréf með áhyggjur af honum. Hann hefur einangrað sig mikið og spilar póker. 

Sæl Alma  

Mig langar að fá upplýsingar varðandi son okkar hjóna. Málið er að hann er 25 ára og í svona um það bil 3-4 ár hefur hann verið að einangra sig, flosnað upp úr námi, helst illa í vinnu og er nánast orðinn vinalaus, sökum þess að hann einangrar sig. Hann er aðallega í tölvunni og inni í herbergi hjá sér. Á lítil sem engin samskipti við okkur foreldra sína né systkini. Vill ekki og kemur sér undan að koma með okkur í afmæli eða viðburði og satt best að segja upplifum við að hann hafi engan áhuga á nokkrum sköpuðum hlut. Þegar hann talar við okkur vill hann ekki ræða þessa hluti, verður uppstökkur, reiður og argur við okkur. Við höfum velt því fyrir okkur hvort að hann sé þunglyndur, kvíðinn eða félagsfælinn. Drengurinn minn var alltaf glaður, félagslegur og tók virkan þátt í daglegu líf. Svo um 17-18 ára aldur fórum við að taka eftir breytingum á honum. Um þetta sama leyti byrjar hann að spila póker á netinu og fyrst til að byrja með sagði hann okkur frá þessu. Hann væri að spila á svokölluðum pókermótum og gengi vel. Síðan þá hefur staðan að okkar mati bara verið niður á við. Við höfum verulegar áhyggjur af honum þar sem hann dvelur bara í herberginu sínu, talar ekki við neinn og borið hefur á innheimtubréfum þar sem hann virðist vera kominn í veruleg vanskil og miklar skuldir. 

Er mögulegt að þetta ástand hans sé tilkomið vegna spilavanda hjá honum og ef svo er hvað er til ráða fyrir hann og okkur? 

Kveðja, Kristín. 

Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á …
Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á spilafíkn.

Sæl Kristín 

Takk fyrir fyrirspurnina. Því miður erum við að sjá allt of mikið af ungum drengjum sem verða háðir fjárhættuspili og þá póker á netinu. Vandinn við pókerspilara er að margir þeirra telja sig „góða spilara“ og pókerspil séu öðruvísi að því leytinu að menn spila yfirleitt við annan spilara og því er útkomann ekki háð líkindum eins og t.d. í spilakössum. Vandinn er að það verður alltaf hluti af þessum spilurum háður pókerspilum og þá skiptir engu máli hvort fólk er góðir pókerspilarar eða ekki. Því vandi fjárhættuspilara er að þeir missa stjórn og hafa þvi ekki stjórn hvorki á þeim tíma sem þeir eyða í pókerspil né hve háum uppæðum þeir eyða. Í ráðgjöfinni hjá mér bera menn yfirleitt alltaf það sama fyrir sig „ef ég bara myndi hætta þegar vel gengur“ en það er einmitt vandinn að fólk hefur ekki stjórn og jafnvel ekki val um hvenær skuli hætta þar sem fjárhættuspilarar sem eiga við vanda að etja hætta ekki fyrr en allt er búið. 

Miðað við lýsingarnar þínar bendir allt til að sonur þinn eigi við spilavanda að etja og hefur hann aukist með árunum og orðinn verulegur miðað við stöðuna í dag. 

Ég ráðlegg ykkur að byrja á að reyna að fá hann til að taka sjálfspróf sem ég set hlekk að hér að neðan og sjá hvað kemur í ljós þar. Síðan ráðlegg ég ykkur að setjast niður með honum og reyna að fá hann til að tala við ykkur. Spilafíkn er mjög alvarlegur sjúkdómur og hefur ekkert með sjálfsaga eða metnað að gera og mjög mikilvægt að hann átti sig á að hann er ekki einn og hans vandi er alls ekki einstakur. Einnig ráðlegg ég ykkur að kynna ykkur GA-samtökin og fjölskyldunámskeið fyrir aðstandendur spilafíkla. Varðandi fjármálin þá ráðlegg ég ykkur að byrja að finna út hvort hann sé spilafíkill eða ekki og finna svo út úr fjármálunum. Ef þið byrjið að leysa úr fjármálunum en látið vera að hjálpa honum og ykkur með spilafíknina (ef hann er spilafíkill) þá mun hann fara fljótlega í sama farið aftur og í raun valda meiri skaða en hitt. Einnig er mjög mikilvægt að ná til hans hvort sem hann er að kljást við spilafíkn eða ekki þar sem rannsóknir sýna að þessi hópur, drengir á aldrinum 18-25, eru í áhættuhóp hvað varðar verulega vanlíðan og jafnvel sjálfsvíg. Ef ykkur grunar að hann geti eða sé að hugsa um að skaða sig ráðlegg ég ykkur að hafa samband við lækni strax. 

Kær kveðja, Alma Hafsteinsdóttir

www.spilavandi.is

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Ölmu spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál