Kærastinn spilar rassinn úr buxunum

Það getur verið flókið að finna leið fyrir aðstandendur til …
Það getur verið flókið að finna leið fyrir aðstandendur til að ræða um spilavanda. Gott er að fá stuðning með slíkt. mbl.is/Thinkstockphotos

Alma Haf­steins­dótt­ir fíkni- og fjöl­skyldu­markþjálfi sérhæfir sig í spilafíkn. Hér send­ir kona fyrirspurn tengda kærasta sínum sem eyðir öllum peingunum í veðmál á netinu.

Sæl Alma 

Þannig er að kærastinn minn er að eyða nánast öllum peningunum sínum í alls konar veðmál á netinu. Hann segir að þetta séu alls konar íþróttaleikir en vill ekki sýna mér nákvæmlega hvað þetta er og kannski skiptir það ekki máli. Aðaláhyggjurnar mínar eru að síðustu mánuði hef ég verið að borga alla reikninga þar sem hann er búinn að eyða sínum og hann afsakar þetta með hinu og þessu. Segir að þetta sé alveg að koma og er með alls konar loforð. Ég get ekki haldið okkur uppi mikið lengur og við erum að reyna að safna fyrir útborgun í íbúð en það gengur ekkert þar sem hann eyðir öllum sínum peningum í þetta. Fyrir utan það að síðustu mánuði næ ég engu sambandi við hann og hann verður bara brjálaður þegar ég reyni að tala við hann. 

Ég er búin að hóta honum að tala við fjölskylduna hans en það virkar ekkert, honum er alveg sama. Samt segist hann ætla að hætta þessu og byrja að taka þátt. Á ég að tala við fjölskylduna hans og hvað get ég gert til að fá að hann til að hætta þessu eða alla vega borga það sem þarf að borga?

Kveðja,

V

Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á …
Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á spilafíkn.

Sæl V.

Sennilega er kærastinn þinn búinn að missa tökin á fjárhættuspilum sínum. Þegar einstaklingur hefur misst tökin á fjárhættuspilum sínum verður það óhjákvæmilega vandamál fyrir hans nánustu. Einmitt eins og þú lýsir þá lenda fjárhagslegar skuldbindingar á þér og allar tilraunir til að leggja fyrir eða gera framtíðarplön verða óraunhæfar. Spilafíklar eru allir af vilja gerðir og þegar fólk missir tökin þá reynir það að ná stjórn t.d. með því að skammta sér pening eða tíma. Því miður mistekst það iðulega. Fólk reynir að vinna upp tapið en í raun er það bara að tapa meiri pening og fjarhagserfiðleikarnir bara stækka þ.e. annaðhvort tapar fólk meiri pening nú eða skuldin verður enn hærri. Margir aðstandendur upplifa einmitt fyrstu einkenni í gegnum að fólk stendur ekki við fjárhagsskuldbindingar sínar. Einnig upplifa aðstandendur oft að viðkomandi sé alveg sama en svo er ekki, fólk er í raun búið að missa hæfnina og getuna til að taka þátt í eðlilegum samskiptum og lifa eðlilegu lífi.

Mér heyrist að hann sé kominn á mjög alvarlegan stað hvað varðar spilavanda sinn og því til lítils að fá hann að borðinu til að gera áætlanir, mér heyrist þú hafa reynt það nú þegar. Varðandi fjölskyldu hans þá myndi ég ráðleggja þér að tala við þau og upplýsa þau um stöðuna og reyna að fá þau með þér og tala við hann um vandann sem blasir við þér. Spilafíkn er alls ekkert til að skammast sín fyrir og mjög mikilvægt að hann viti hvernig þú og þið upplifið ástandið hans. Mjög gott væri að fá hann til að fara yfir stöðuna þ.e. hversu miklu hann er að eyða í veðmálin bæði fjármunum og tíma. Oft þegar spilafíklar taka þetta saman þá bregður þeim og verða meira tilbúnir að leita sér aðstoðar og taka á þessum vanda. Hvað þig varðar verða aðstandendur oft mjög veikir af ástandi sem þessu og því mikilvægt fyrir þig að leita þér aðstoðar einnig. Læra að setja mörk og standa með sjálfri þér og mæli ég með að þú kynnir þér meðvirkni og hvernig hún lýsir sér og hvað felst í að vera meðvirk. Því oft eru meðvirkir aðstandendur komnir í þrot með sjálfa sig og eiga því erfitt með að taka á ástandinu og brenna út. Spilafíkn er ekki fjárhagslegur sjúkdómur - eitt af einkennum hans er vissulega fjárhagserfiðleikar - en ef ekki er tekið á spilavandanum öðruvísi en að laga fjárhagshlutann er hætt við að spilafíkillinn komi sér aftur í veruleg fjárhagsvandræði. 

Ég ráðlegg þér að fylgjast með á spilavandi.is þar sem reglulega eru haldin fjölskyldunámskeið fyrir aðstandendur spilafíkla 

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Alma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál