Er eðlilegt að fyrrverandi gangi inn og út?

Þegar skilnaðir verða er mikilvægt að koma á heilbrigðum samskiptum …
Þegar skilnaðir verða er mikilvægt að koma á heilbrigðum samskiptum fólks á milli, sér í lagi ef það á börn saman. Það er flókið fyrir stjúpforeldra að fara að setja reglur í byrjun sambúðar. mbl.is/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda. Hér fær hún bréf frá konu sem er að hefja búskap með manni sem á fyrrverandi konu sem leggur í vana sinn að hitta börn þeirra þegar hann er ekki heima. 

Sæl

Ég kynntist manni fyrir ári síðan og við stefnum á að fara að búa saman á hans heimili. Er eðlilegt að fyrrverandi konan hans gangi inn og út af heimilinu þeirra gamla þegar við erum ekki heima til að hitta krakkana sem vilja alls ekki fara til hennar?

Þegar hann biður hana um að virða okkar heimili þá kemur hún með það að hún eigi nú í hlutum þarna inni. Það eru komin 4 ár síðan skilnaður þeirra fór í gegn.

Kveðja, KK

Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert

Sæl og takk fyrir að senda inn fyrirspurnina.

Það er vandasamt verkefni að stofna til sambúðar þegar stjúpbörn eru á heimilinu. Hvað þá fyrrverandi maki þar sem ekki virðist skýrar reglur eða umgjörð um umgengni. Ég held þú ættir að hlusta á innsæið þitt í þessu máli og taka þér tíma áður en þú flytur inn til herramannsins. 

Málefni er varðar stjúpbörn eru mjög flókin og tekur nokkur ár að mynda góð tengsl við stjúpbörn. Ég myndi ráðleggja þér að verða vinur barnanna í byrjun og reyna að skilja málefnin er varða móður þeirra betur. Með því að vera góður vinur þeirra þá getur myndast traust ykkar á milli sem verður svo góður grunnur að fallegu sambandi þar sem þú verður auka aðili inn á heimilinu að elska þau. 

Ef þú flytur inn á heimilið og flytur inn nýjar reglur getur það búið til erfiðleika í samskiptum fjölskyldunnar sem hefur vanalega ekki góð langtíma áhrif á ástarsambönd. 

Ég ráðlegg þér að fara hægt í sakirnar og skoða allar hliðar málsins vel. Að mínu mati er ást án skilyrða það eina sem virkar til að sambönd vaxi og blómstri inn í framtíðina. Að velja maka sinn vel og vandlega er því skilyrðið fyrir góðu sambandi. 

Sambúð og sambönd eru mjög mikið spari að mínu mati. Ráðgjöf á þessu stigi í sambandinu væri eitthvað sem ég myndi mæla með fyrir þig. 

Gangi þér vel með þetta verkefni. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál