Ekkert grín að örmagnast eða fá kulnun

Sirrý Arnardóttir.
Sirrý Arnardóttir. Morgunblaðið/Kristinn

Athafnakonan Sirrý Arnardóttir starfaði sem fjölmiðlakona í þrjátíu ár en skipti um vettvang og er núna stjórnendaþjálfari með vinnuaðstöðu í Sjávarklasanum út á Granda. Hún er einnig kennari við Háskólann á Bifröst þar sem hún þjálfar nemendur skólans í öruggri tjáningu og samskiptum við fjölmiðla. Sirrý hefur skrifað nokkrar bækur og er eftirsóttur fyrirlesari og námskeiðshaldari.

Hún segir að í gegnum allan sinn starfsferil hafi áhugi hennar á fólki verið mikill. Að kynnast sögu fólks sé það sem hún hafi fengist við alla sína starfsævi. Útgáfa bókarinnar, Þegar kona brotnar – og leiðin út í lífið á ný, kemur því kannski ekki svo á óvart. Í bókinni segir Sirrý sögu 12 kvenna sem hafa örmagnast í lífinu, upplifað kulnun eða klesst á vegg. Bókin er unnin í samvinnu við VIRK starfsendurhæfingarsjóð.

„Það sem sameinar þessar konur er að þær hafa allar fundið leið til að breyta lífi sínu í kjölfar þess að brotna eða örmagnast og hafa komist út í atvinnulífið aftur. Þær hafa náð lífsgleðinni og starfsorku sinni upp og eru reynslunni ríkari.“

Öðruvísi sterkar eftir reynsluna

Myndir þú þá segja að þegar kona brotnar, verði hún sterkari fyrir vikið?

„Ja, sumt missa þær við þessa erfiðu reynslu og fá sumt aldrei til baka en þetta færir þeim líka þroska og sjálfsskoðun og á ákveðinn hátt koma þær sterkari út úr þessu. Það er hins vegar ekkert grín að örmagnast eða að fá kulnun eins og fram kemur í bókinni.“

Hvað einkennir þessar konur?

„Þetta er fjölbreyttur hópur kvenna á öllum aldri, með ólíka menntun og í ólíkum störfum. En kannski eru þær dæmigerðar íslenskar konur. Vanar að vera alltaf duglegar. Margar þeirra hafa glímt við langvarandi álag allt frá barnæsku. Slíkt álag tekur toll af heilsu fólks.“

Sirrý segir að henni hafi þótt mikilvægt að lesendur bókarinnar gætu fundið sig í einhverri sögunni. „Þar sem þetta er saga kvenna sem hafa náð sér á strik aftur, þá koma fram leiðirnar þeirra að bata. Sumar þurftu að læra að segja nei. Aðrar þurftu að læra að forgangsraða og þannig fór þeim að líða betur.

Sem dæmi má nefna að ein kvennanna segir frá því að hún hefði alltaf þurft að hafa 110% fínt heima hjá sér, þannig að áður en hún fór út af heimilinu þá tók hún allt til hjá sér. Í dag skiptir þetta atriði hana minna máli, hún hefur náð að sleppa tökunum á kröfu um fullkomnun og henni líður betur. Önnur tók glansmynd samfélagsmiðlana nærri sér en fór í bataferlinu að sjá í gegnum yfirborðið og lét það ekki lengur trufla sig hvað aðrir væru að gera. Hún losnaði þannig við samanburðinn við aðrar konur og fór að líða betur í kjölfarið.“

Krafa um styttingu vinnuvikunnar

Sirrý segir að ritun bókarinnar hafi kennt henni ýmislegt og hún vonast til að lesendur bókarinnar muni geta dregið sama lærdóm af verkinu. „Ég hef verið minna á samfélagsmiðlum og tók mér sem dæmi tveggja mánaðar frí frá Facebook. Sjálf hef ég aldrei lent í kulnun eða því sem konurnar lýsa en ég tengi við ýmislegt sem þær segja og hef lagt betri rækt við mig eftir að hafa kynnst sögum þeirra. Ég missi ekki úr jógatíma í dag, fer í sund og rækta bæði líkama og sál.“

Hún segir að nær allar konurnar í bókinni hafi minnst á að stytting vinnuvikunnar væri ákjósanlegt. Þær segja sumar að kröfur vinnumarkaðarins séu miklar og þessi þörf fyrir að vera stöðugt á vaktinni sé yfirþyrmandi.

„Ég held að það sé öllum hollt að læra að setja mörk, en stundum er það einnig á ábyrgð vinnumarkaðarins að gera heiðarlegar kröfur til fólks og minnka vaktina og sífelldar mælingar á afköstum og árangri. Sumt er ekki hægt að mæla.“

Sirrý segir að þessi hugsun að vera stöðugt að hámarka árangur og vera fullkomin sé þrúgandi til lengri tíma. Í bókinni er líka rætt við Margréti Guðmundsdóttur sagnfræðing en hún hefur skrifað mikið um atvinnusögu íslenskra kvenna. Margrét kemur meðal annars inn á það að margt sé hægt að læra af formæðrum okkar. Þær bjuggu margar við gríðarlegt álag og strit og höfðu ekki rétt á veikindafríi og lífsbaráttan var hörð. Samstaða og samhjálp kvenna varð þeim oft til bjargar.

„Samskipti á samfélagsmiðlum koma ekki í staðin fyrir raunverulega samveru. Við virðumst sitja minna saman, auglitis til auglits, þar sem við tölum um raunveruleikann og sýnum samhjálp í verki.

Eftir að hafa talað við Margréti er ég sammála því að við konur verðum að halda áfram að koma saman. Ég held í þennan þátt m.a. með því að halda námskeið og fyrirlestra inn í kvenfélögum. Eins leita ég í stuðning kvenna í kringum mig sjálf.“

Dugnaður er ofmetinn

Sirrý vonar að bókin muni gefa þeim von sem hafa ekki fundið leiðina aftur upp eftir áfall eða kulnun. „Þegar ég var að taka viðtal við eina konuna í bókinni sagði hún frá svo miklilli sorg og sárum missi og ég skildi ekki hvernig hún gat haldið áfram. Þá spurði hún mig hvað hún hefði átt að gera. Hætta að anda? Það var góð áminning um að stundum er nóg að setja annan fótinn fram fyrir hinn og grípa í öll haldreipin og hjálpina sem í boði er hverju sinni.“

Sirrý er algjörlega sammála konunum í bókinni með eitt. „Dugnaður er ofmetinn og krafan um að vera stöðugt stritandi er úrelt. Þetta eru hugsanavillur og ranghugmyndir sem fá okkur til að villast af leið.“

Að lokum segir Sirrý mikilvægt að muna að margar konur í landinu þurfa að vinna langan vinnudag og séu á lágum launum. Hún beri virðingu fyrir þannig konum og telji að samfélagið þurfi að gera betur, stytta vinnutíma og hlúa að fjölskyldum. „Hins vegar er ég á því að við konur þurfum ekki að mastera allt í lífinu. Við þurfum ekki að ná markiðum okkar á morgun. Tíminn vinnur með okkur og bókin um konurnar sem brotnuðu er góð áminning til kvenna um að við getum ekki gert allt í einu.“

Veröld gefur út bókina Þegar kona brotnar – og leiðin út í lífið á ný. Í bókinni er líka rætt við Lindu Báru Lýðsdóttur sálfræðing hjá VIRK um kulnun, ástæður og úrræði. Bókin er með gullkornum frá konunum, verkefnum og ljóðum.

Sirrý Arnardóttir starfar m.a. sem kennari við Háskólann á Bifröst …
Sirrý Arnardóttir starfar m.a. sem kennari við Háskólann á Bifröst þar sem hún aðstoðar nemendur í öruggri tjáningu. mbl.is/Aðsend
mbl.is