Eyddi peningunum sem áttu að fara í íbúð

Aðstandendur spilafíkla geta orðið mjög veikir í ástandi þar sem …
Aðstandendur spilafíkla geta orðið mjög veikir í ástandi þar sem spilafíkill sekkur vanalega dýpra og dýpra í fíkn sinni.

Alma Haf­steins­dótt­ir er fíkni- og fjöl­skyldu­markþjálfi með sér­hæf­ingu í spilafíkn. Hér send­ir kona inn fyr­ir­spurn varðandi son sinn sem virðist eyða öllum peningunum sínum í póker.

Sæl Alma 

Mig langar að fá upplýsingar hjá þér, þannig er að sonur okkur hjóna er að valda okkur miklum áhyggjum og við erum alveg ráðþrota með hvað sé að. Ég veit ekki hvað málið er með hann en hann virðist ekki hafa áhuga á neinu. Liggur í símanum allan daginn og er stöðugt að tilkynna sig veikan í vinnu, hættur að hitta vini og virðist ekki hafa áhuga á neinu. Hann hefur aldrei verið þunglyndur en við höfum leitað til lækna og ekkert virðist vera að. Hann er búinn með alla peninga sem hann hafði safnað sér til íbúðakaupa og við erum búin að lána honum töluverða fjármuni. Nú er staðan þannig að við getum ekki lánað honum meir nema setja okkar fjárhag í vanda. Höfum tekið lán fyrir hann, sem við notuðum til að greiða upp allar skuldir hans, sem við erum að greiða af þar sem hann eyðir öllu sem hann vinnur sér inn. Hann er að spila póker við eitthvert fólk úti í heimi, eða það segir hann okkur. Hann er farinn að skulda verulega í smálán og yfirdrátt aftur og er kominn í vanskil. Við getum ekki staðið undir þessu og þetta virðist vera orðið munstur, þar sem hann kemur sér í skuldir og við lánum honum til að greiða allt upp. Ég er farin að finna fyrir að þetta hefur áhrif á mig þar sem ég er með stöðugar áhyggjur af honum og ástandinu, sef illa og borða lítið fyrir utan að ég er orðin kvíðin og ég hugsa stöðugt um þetta.

Í hvert sinn sem hann kemur og talar við okkur fæ ég hnút í magann og hugsa hvað nú? Ég hef reynt að fá hann til að hætta og koma og gera hluti með okkur en ekkert virðist virka. Hann virðist vera orðinn áhugalaus með öllu. Hann býr hjá okkur og ég get ekki hugsað mér að henda honum út fyrir utan að hann gæti aldrei staðið undir sjálfum sér fjárhagslega. Systkini hans taka eftir öllum þessum breytingum og þetta hefur áhrif á alla á heimilinu. Það er stöðug spenna og við hjónin rífumst orðið yfir nánast öllu. Hvað get ég gert? Er möguleiki að hann sé orðinn stjórnlaus í pókerspilum? Hef aðeins lesið mér til um spilafíkn og hann er ekki spilakössum eða neinu svoleiðis. Getur hann verið spilafíkill ef hann er bara í póker? Ertu með einhver ráð handa okkur og jafnvel ráð til að ná til hans?

Bestur kveðjur

Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á …
Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á spilafíkn.

Sæl K 

Takk fyrir fyrirspurnina. Staðan virðist miðað við það sem þú skrifar vera orðin verulega slæm. Varðandi spurningu þína hvort hann geti verið spilafíkill þá er enginn munur á hvort fólk spili póker eða í spilakössum. Það er enginn munur þar á þegar kemur að spilafíkn. Spilafíklar spila í mismunandi fjárhættuspilum allt frá bingó yfir í póker og allt þar á milli. Allir spilafíklar eiga sér sitt uppáhaldsfjárhættuspil og hvaða fjárhættuspil verður þar fyrir valinu skilgreinir ekki hvort viðkomandi eigi við spilafíkn að etja eða ekki. Þegar einstaklingur er farinn að spila sér til tjóns og valda jafnvel öðrum skaða er sennilega um spilafíkn að ræða. Spilafíkn eins og aðrir fíknisjúkdómar hafa áhrif á alla í kringum spilafíkilinn. Streitan og álagið sem fylgir að búa með spilafíkli eða einstakling sem á við spilavanda að etja getur haft mjög slæm áhrif á heilsu fólks. Algengir kvillar eins og kvíði, þunglyndi og álagstengd vandamál eins og svefnleysi, minni matarlyst, einbeitingarskortur og skapsveiflur eru mjög eðlilegir við aðstæður sem þessar. Varðandi úrræði og ráð myndi ég ráðleggja þér að leita þér aðstoðar og upplýsinga um meðvirkni, spilafíkn og hvaða afleiðingar það hefur fyrir þig og fjölskyldu þína að búa með eða við spilafíkn. Fjölskyldunámskeið fyrir aðstandendur spilafíkla eru reglulega haldin og getur þú skráð þig og séð upplýsingar hér: 

https://www.spilavandi.is/adstandendur 

Einnig getur þú lesið þér til um spilafíkn og afleiðingar spilafíknar á einstaklinga sem búa við slíkar aðstæður inni á spilavandi.is

Varðandi fjárhag sonar ykkar ráðlegg ég ykkur að hætta að lána honum pening í bili. Leitið ykkur aðstoðar og jafnvel aðstoðið hann við að leita sér hjálpar. Hægt er að svara 20 spurningum um spilafíkn og þar getur hann séð hvort hann sé spilafíkill eða spilavandi sé vandamál hjá honum. Oft eru einstaklingar ekki viljugir til að leita sér aðstoðar eða vilja ekki viðurkenna að um vanda sé að ræða og mikilvægt fyrir þig að gera þér grein fyrir að þú getur ekki lagað þetta fyrir hann, hann verður að vilja það sjálfur. En um leið og þú leitar þér aðstoðar og lærir að setja mörk hjálpar þú sjálfri þér og hann nýtur góðs af því. Margir foreldrar í þinni stöðu kannast við og þekkja mjög vel að borga börnin sín úr slíkum vandræðum og oftar en ekki er fólk búið að margborga og reynslan mín er að það eina sem gerist er að næsta skipti þá verða upphæðirnar hærri og vandinn orðinn stærri, því miður. Því er mikilvægt að taka á orsök vandans sem í flestum tilfellum er spilafíkn, en skuldirnar eru afleiðingar spilafíknar. Á meðan ekki er tekið á orsökinni þá lagast ástandið ekki nema tímabundið og spilafíkillinn heldur bara áfram. Spilafíkn eins og aðrir fíknisjúkdómar versnar bara með tímanum  og verður verri og verri meðan ekkert er að gert. Því fyrr sem þið leitið ykkar aðstoðar því betra. Það er mjög mikilvægt að þið gerið ykkur grein fyrir að spilafíkn er ekki fjárhagslegur sjúkdómur, þótt afleiðingar hans séu vissulega fjárhagslegar. 

Gangi þér vel og mundu að þú getur ekki tekið á ábyrgð á eða fyrir son þinn. 

Kær kveðja, 

Alma Hafsteinsdóttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál