„Hjónabandið er orðið eins og fyrirtæki“

Það krefst vinnu og hugrekkis að fá meira út úr …
Það krefst vinnu og hugrekkis að fá meira út úr hjónabandinu. Að geta opnað sig inn í sambandinu er alltaf grunnurinn að meiri nánd við maka. mbl.is

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda. Hér fær hún bréf frá konu sem langar í eitthvað meira út úr hjónabandinu. Heimilið er rekið eins og fyrirtæki og lítið er um rómantík, kynlíf eða nánd. Heimilið er á hennar höndum og hún er með lítinn tíma aflögu til að sinna sér. Hún biður um svör. 

Sælar.

Ég er búin að vera að hugsa aðeins málið eftir að hafa lesið pistlana þína. Ég er gift sjálf og á þrjú börn og upplifi hluti í hjónabandinu sem ég held að fleiri en ég sé að upplifa. Það gengur allt vel en heimilið og hjónabandið er orðið eins og fyrirtæki. Þegar ég les um áskoranir fólks velti ég því stundum fyrir mér hvort þessi verkefni séu góð eða slæm. Því hjónabandið mitt gengur ágætlega, en það er ekkert að gerast í því. 

Við erum eins og systkin og það er lítið um kynlíf, ástríðu eða annað sem ég gæti ímyndað mér að kynsystur mínar séu að upplifa.

Ég dett stundum í að stjórna, en ég held að maðurinn minn stjórni líka á sinn hátt. Hvernig get ég upplifað meiri hamingju í hjónabandinu? Ég hef þyngst aðeins með aldrinum, og er ekki að sinna mér eins vel og ég vildi. Eins á ég mér ekki mörg áhugamál þar sem heimilið er mikið á mínum snærum.

Mig langar í eitthvað meira með karlinum mínum en er algjörlega lens með hvernig ég tek fyrsta skrefið. 

Gætir þú ekki verið með námskeið fyrir mig og fleiri konur á mínum stað líka? Málið er nefnilega að ég er orðin verulega pirruð og leiðinleg í þessu ástandi.

Kveðja, XOX

Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæl XOX og takk fyrir þitt innlegg.

Mikið er ég sammála þér með að þessi staða sem þú ert í gæti verið algeng. Þegar fólk lendir á vegg í samskiptum við aðra getur slíkt verið tækifæri til að gera eitthvað verulega uppbyggilegt og gott í málunum. Þegar hins vegar hlutirnir malla áfram vantar oft gott tækifæri til að breyta. 

Ég gæti bara vel hugsað mér að halda svona námskeið eins og þú talar um. Á námskeiðinu myndi ég þá fjalla um hvernig er best að taka ábyrgð á eigin hamingju. Hvernig skýr og falleg mörk eru grunnurinn að góðu sambandi að mínu mati og hvernig það að elska án skilyrða er alltaf vegurinn heim. 

Ef þig langar að koma á svona námskeið, skaltu senda á mig póst HÉR. Námskeiðin mín eru vanalega í þrjár klukkustundir. 

En þangað til að þú kemur á námskeiðið skaltu ekki hika við að skrifa niður allt sem þú ert þakklát fyrir í þessu lífi. Skrifaðu niður hvernig kona þig langar að vera og hvað hún gerir daglega. Skrifaðu niður allt sem þú elskar við manninn þinn og láttu hann vita hvaða hlutir það eru. 

Prófaðu að opna á að þig langi í meiri nánd við hann í hjónabandinu. Raunveruleg nánd í hjónaböndum að mínu mati er að geta opnað sig tilfinningalega og fengið þetta fallega svigrúm til að vera elskaður og að elska fyrir hver maður raunverulega er. Líkamleg nánd er síðan alltaf falleg afleiðing andlegrar nándar að mínu mati. 

Það eru hins vegar ótal mörg verkefni sem við höfum staðið andspænis í lífinu sem gerir það að verkum að við lokum stundum hjartanu okkar og festumst í viðjum vanans.

Ég vona að dagurinn verði góður og þakka þér fyrir að senda inn bréf fyrir hönd þeirra kvenna sem langar í meira frá þeim sem þær elska mest. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is