Sorgin við atvinnumissi

Það getur verið mikið áfall að missa vinnuna. Margir fara …
Það getur verið mikið áfall að missa vinnuna. Margir fara í gegnum fimm stig sorgar í kjölfar atvinumissis. mbl.is/Thinkstockphotos

Frá áramótum hafa fjölmargir aðilar misst vinnuna vegna niðurskurðar og breytinga á vinnumarkaði hér á landi. Það að missa vinnuna hefur mikil áhrif á líf fólks. 

Rannsóknir sýna að atvinnumissir hefur einnig áhrif á hjónaband þess sem missir vinnuna. Einstætt foreldri sem missir vinnuna getur upplifið mikið efnahagslegt óöryggi. 

Geðlæknirinn Elisabeth Kübler-Ross segir að fólk gangi í gegnum fimm stig þegar það verður fyrir áfalli en hún kom fram með kenningar sínar á síðustu öld. Hún segir að fólk þurfi að styðja við þá sem lenda í áföllum og sýna þeim kærleika og hlýju. 

Þeir sem hafa misst vinnuna og aðstandendur þeirra gætu verið að upplifa eftirfarandi: 

Doði og afneitun

Í kjölfar áfalls er eðlilegt að fólk fari í gegnum tímabil þar sem það er dofið. Að afneita ástandi er leið líkamans til að lifa af á erfiðum tímum. Á þessu stigi líður okkur eins og atburðurinn hafi í raun og veru ekki gerst. Eins og við stöndum utan við okkur sjálf og horfum á lífið gerast. Við tengjum á þessum stað ekki við neina sérstaka tilfinningu nema eitthvað sem virkar eins og doði eða afneitun. 

Hér er gott að muna:

 • Doðinn ætti ekki að vara að eilífu.
 • Það er í lagi að draga sig til hlés, en reyndu að tengja við einhvern sem þú treystir.
 • Aðstandendur eru hvattir til að sýna doða ástvina sinna skilning.
 • Ekki dæma þig eða aðra.
 • Reyndu að forðast að taka stórar ákvarðanir um lífið á þessum stað.

Reiði

Við mannfólkið erum eins misjöfn og við erum mörg. Sumir fara strax á þann stað að upplifa mikla reiðitilfinningu strax í kjölfar áfalls. Á þessum stað getum við orðið reið út í okkur sjálf, aðra, lífið og tilveruna. Finnurðu orkuna sem reiðin gefur þér? Þú gætir notað hana til að gera hluti sem skipta þig máli. Ef þú vilt skrifa reiðina frá þér - er áhugavert að kaupa dagbók. Ef þig langar að fara út að hlaupa, þá er þetta tíminn. Hefur þig langað daglega í ræktina? Nú gætir þú verið með orkuna til þess.

 • Það er hægt að finna reiðinni farveg.
 • Orkuna má nota í jákvæða hluti. 
 • Gott er að forðast að nota mikið áfengi eða hugbreytandi efni á þessum tíma.
 • Fyrir aðstandendur er gott að muna að sleppa og treysta.
 • Þú leysir ekki hluti sem þú ekki ollir.

Samningstíminn

Á þessum stað eftir áfall fara margir í sjálfsskoðun. Þetta er staðurinn sem fólk gerir samning við sjálft sig og aðra. Á þessum stað gerum við plön um að vaxa og dafna. Við gætum dottið inn á skemmtilegt námskeið, farið í sjálfshjálparhópa, farið til ráðgjafa eða sálfræðings. Hér er mælt með að skrifa niður hvernig maður sér framtíðina. Hver langar mig að vera? Hvað langar mig að gera?  Hvaða hegðun ástundar þessi manneskja daglega? Hvað myndi hún ekki gera? 

 • Skrifaðu niður allt sem þú ert þakklátur/þakklát fyrir.
 • Skrifaðu niður hver þú vilt vera í framtíðinni.
 • Skrifaðu niður allt það sem þessi manneskja myndi gera daglega (topphegðun).
 • Skrifaðu niður allt sem þessi manneskja myndi ekki gera daglega (botnhegðun).
 • Getur þú byrjað að ástunda topphegðun daglega?
 • Taktu upp skjöl, meðmæli, ferilskrá og menntun þína. Þau minna þig á virði þitt og allt sem þú hefur áorkað í lífinu. 
 • Mundu að dæma þig ekki á þessum stað, þú ert fullkomin sköpun, fæddur/fædd til að láta gott af þér leiða.

Niðursveifla

Það er ekki óeðlilegt að fara á það stig að detta aðeins niður andlega eftir áfall. Reiðin og samningstíminn veitir styrk sem getur komið mörgum verkefnum af stað, en þegar fólk upplifir vægt, miðlungs eða alvarlegt þunglyndi eftir áfall er gott að muna að það tímabil á ekki að vara að eilífu.

 • Reyndu eftir fremsta megni að framkvæma það sem stendur á topphegðunarlistanum hér að ofan.
 • Að klæða sig fallega, búa til gott kaffi og fara út að ganga er flott topphegðun fyrir suma daga. 
 • Talaðu við heimilislækni, sérfræðing, sálfræðing eða ráðgjafa ef þú þarft á að halda.
 • Aðstandendur eru hvattir til að vera vakandi fyrir einkennum þunglyndis og benda ástvinum á það með kærleiksríkum hætti.
 • Talaðu um það hvernig þér líður.
 • Taktu einn dag í einu og mundu að tímabilið varir ekki að eilífu.

Sáttin

Um leið og sáttin kemur myndast friður í líkama okkar og sálu. Þegar sáttin er komin til okkar getum við litið til baka á það sem gerðist og talað hlutlaust um ástandið. Við getum séð kosti þess og galla og verið frjáls frá því sem kom fyrir okkur á þessum tíma.

Eftir áfall fer fólk í gegnum nokkur tilfinningstig áður en …
Eftir áfall fer fólk í gegnum nokkur tilfinningstig áður en sáttin kemur til þess. Í kjölfar sáttar má sjá þann þroska sem verkefni lífsins geta fært okkur. mbl.is/Thinkstockhotos
 • Njóttu þess að finna fyrir æðruleysi og þroska.
 • Skráðu niður hjá þér alla hluti sem gefa þér raunverulega hamingju.
 • Vertu til staðar fyrir aðra sem þurfa á þroska þínum að halda.
 • Þakkaðu veröldinni fyrir að gefa þér verkefni til að vaxa.

Vert er að geta þess að ef einhver hefur farið í gegnum áfall áður, og kannast við að vera fastur á einhverjum af þeim stöðum sem nefndir eru hér að ofan og hafa því ekki náð á stað sáttarinnar, er hann hvattur til að leita sér aðstoðar.

Það að viðurkenna vanmátt sinn og kunna að biðja um aðstoð er alltaf fyrsta skrefið í átt að betri lífskjörum. Við eigum svo sannarlega öll skilið að vera hamingjusöm.                            

mbl.is