„Ég get ekki meira af þessu sama“

Kona sendir bréf á Polly og segir að hún vilji …
Kona sendir bréf á Polly og segir að hún vilji ekki gera meira af því sama. Hana langar í tilfinningalegt samband við mann, en ekki einvörðungu kynlíf án skuldbindingar. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Polly er ráðgjafi sem svarar lesendum New York Post á vefsvæði The Cut. Lesendur sem eru á öllum aldri senda Polly fyrirspurnir tengt foreldrum sínum, börnum, starfi, menntun og samböndum svo dæmi séu tekin.  Nýverið fékk hún bréf frá lesenda sem segist ekki geta meira af kynlífi án skuldbindingar. Lesandinn er orðinn öskureiður og er að spá í að loka á ástina. 

„Elsku Polly, ef einn maður í viðbót biður mig um að vera með sér kynferðislega án skuldbindingar mun ég kasta einhverju í vegg. Ég er orðin svo reið út af ástandinu.

Ég hef farið á sirka 40 stefnumót á undanförnum árum. Í fyrstu voru innihaldslaus stefnumót einmitt það sem ég þurfti á að halda. Ég reyndi að halda mig við slíkt en fann svo hversu mikið það meiddi mig. 

Mér finnst sárt að finna að eina ástæðan fyrir að menn vilja hitta mig er til að sofa hjá mér. Ég hef reynt að ýta tilfinningunum niður, en það virkar ekki. 

Á tímabili hafnaði ég öllum mönnum sem vildu einvörðungu kynlíf sem gekk illa líka. Það varð enginn eftir. Mér finnst eins og ef menn heyra að manni sé alvara að þeir haldi að það þýði gifting. 

Ég hitti mann nýlega og við fórum á nokkur stefnumót. Ég fann strax tengingu við hann og hann tikkaði í öll boxin mín, þar sem hann er góður, sætur og býr ekki í kjallaranum hjá mömmu sinni. Það er komið ár frá því að ég hef farið á stefnumót með einhverjum sem mér líkar svona vel við. En að sjálfsögðu var hann ekki tilbúinn í einhverja alvöru. Ég sagði honum hvað mér fyndist um að leika mér og hann sagði að samband kæmi alveg til greina en ekki strax.

Mér líður eins og ég sé á villigötum í lífinu. Ég veit að þessi aðili á eftir að særa mig en hef ekki sett honum mörk því mér finnst eins og ég eigi ekki betra skilið. Ég er hins vegar orðin gröm út í þessar aðstæður og hann líka. 

Mér líður eins og eini valmöguleikinn fyrir mig sé að vera ein. Eða að halda áfram að sofa hjá mönnum og bíða og vona að einhver þeirra leggi í tilfinningalega tengingu við mig seinna. Þá fá þeir allt sem þeir vilja og ég ekki það sem ég vil. Ég hata að gefa þeim vald yfir mér. Ég get ekki meira af því saman en langar ekki að gefast upp á ástinni. Á ég einhvern valmöguleika að þínu mati? Hvernig get ég stjórnað gremju minni gagnvart mönnum sem vilja ekki neitt annað en kynlíf frá mér?

Ein reið.“

Ráðgjafinn Polly er ekki lengi að greiða úr þessari fyrirspurn og segir lesendanum í vanda að lausnin við áskoruninni sé að hún byrji að trúa að hún eigi raunverulega eitthvað betra skilið. 

„Þú færð ekki það sem þú vilt fyrr en þú verður nógu hugrökk til að biðja um það. Þú færð ekki hugrekki til að biðja um hluti fyrr en þér finnst þú eiga þá skilið. 

Þú verður að byrja á því að gefa sjálfri þér það sem þér finnst þú eiga skilið. 

Hættu bara að gera það sem er að meiða þig. Ef þú vilt ekki sofa hjá þessum mönnum áttu ekki að gera það. 

Ástin er ólík öllu öðru og þú verður að vera tilbúin að vera opin fyrir ástinni. Hún krefst þess að þú opnir þig og segir hvernig þér líður. 

Ást er ákvörðun um að vera á staðnum. Þegar menn segja að þeir vilji bara kynlíf, þá getur þú virt þann heiðarleika sem þeir eru að gefa þér. En þetta er líka ákveðið öryggi fyrir þá - svo þeir verði ekki fyrir hjartasári, þú mátt bera minni virðingu fyrir því. 

Leyfðu þessum mönnum að lifa og haltu áfram að lifa sjálf.

Mér finnst tímaeyðsla að greina manninn sem þú ert að hitta. Hann hefur sínar ástæður. En þú hins vegar átt skilið að mynda tilfinningalega nánd við einhvern sem getur mætt þér. 

Svo framarlega sem þú heldur áfram að hitta menn sem vilja enga alvöru þá ertu að meiða þig. 

Í staðinn fyrir að segja: ÉG VEIT AÐ ÉG GET EKKI FENGIÐ NEITT BETRA. Segir þú: ÉG Á ALLT ÞAÐ BESTA SKILIÐ, ÉG ER BETRI EN ÞETTA.

Kveðja, Polly.“

mbl.is