Sjálfsfróun er eðlilegur hluti af lífinu

Íris Stefanía með bókina sína í útgáfusýningu sinni í Gallery …
Íris Stefanía með bókina sína í útgáfusýningu sinni í Gallery Port. ljósmynd/Búi Bjarmar Aðalsteinsson

Íris Stefanía Skúladóttir hefur einbeitt sér að því að skoða sjálfsfróun kvenna undir yfirskriftinni „When I Masturbate“ eða „Þegar ég fróa mér“ í alþjóðlegu meistaranámi sínu í sviðslistum við Listaháskóla Íslands. Sjálfsfróun kvenna og sú skömm sem fylgir henni oft hefur verið Írisi Stefaníu hugleikin síðan hún var unglingur.

Íris Stefanía hófst strax handa við að safna sögum kvenna í haust og er enn að safna sögum um sjálfsfróun kvenna.

„Ég byrjaði að safna sögunum og vissi ekki hvað ég ætlaði að gera með þær fyrst nema bara að prenta þær út. Hugmyndin var að gera eitthvað hefti en verkefnið vatt upp á sig og varð að mjög eigulegri bók. Ég skellti í 150 eintök og þau seldust strax upp,“ segir Íris Stefanía um hvernig verkefnið byrjaði.

„Ég var alveg handviss um að ég myndi ekki gera annað upplag. Þetta var mikil vinna allt handgert en á ákveðnum tímapunkti gat ég ekki gert annað en að gera annað upplag. Á sama tíma var ég að gera sýningu þar sem ég bauð fólki í söguhring og sagði mínar persónulegar sögur. Ég sagði frá minni upplifun og verkefninu og nú er ég að vinna að því hnýta þetta allt saman í útskriftasýningu í ágúst þar sem ég mun vera með stóran söguhring og mun bjóða fólki að upplifa ýmislegt.“

Eftir útskrift stefnir Íris Stefanía á að ferðast með verkið bæði innanlands og erlendis og safna sögum frá konum sem búa á því svæði sem hún er á hverju sinni og blanda sögum þeirra inn í sýninguna. Mun sýningin því heita When I Masturbate in Berlín ef Íris Stefanía er í Berlín eða hreinlega Þegar ég fróa mér í Borgarnesi ef Íris Stefanía er stödd í Borgarnesi með sýninguna.

Upplifði að sjálfsfróun væri tabú í grunnskóla

„Ég held ég hafi verið svona 13 eða 14 ára þegar ég fór að finna fyrir því að þetta var eitthvað sem ég átti ekki að tala um. Á sama tíma gátu strákarnir talað á mjög eðlilegan hátt um þetta. Maður frétti af strákum sem fóru saman heim í frímínútum að fróa sér yfir klámmynd. Þetta á alls ekki við um alla stráka en málið er að þú máttir gera þetta ef þú varst strákur en þegar stelpurnar fóru að opna á þetta var það svo vandræðalegt,“ segir Íris Stefanía um sína reynslu af opinni umræðu um sjálfsfróun kvenna. Íris fagnar því að umræðan hjá drengjunum sé svona opin og vonar að stelpurnar verði einn daginn á sama stað.

Þegar Íris Stefanía er spurð hvort sjálfsfróun sé jafnalgeng meðal kvenna og karla segir hún að hún fái misjafnar niðurstöður. Sjálf reyndi hún að gera könnun þegar hún var í grunnskóla eftir að hún las niðurstöður úr könnun sem gerð var á unglingum. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að 80 prósent stráka stunduðu sjálfsfróun en bara 20 prósent stúlkna.

„Við vinkonurnar gátum sem betur fer átt opna umræðu um þetta og vorum sammála um það að við værum ekki alveg að kaupa þessa tölfræði. Þannig við byrjuðum aðeins að tala við stelpurnar í bekknum okkar og margar þorðu ekki að svara okkur, margar svöruðu okkur á endanum eftir smá spjall þar sem við töluðum um okkar eigin reynslu. Af þeim stelpum sem við töluðum við viðurkenndu allar að hafa fróað sér, prófað það eða gert það reglulega. Þannig okkar tölfræði var 100 prósent á móti 20 í þessari grein. Þetta var ekki vísindalega gert en það sem tengist kannski könnuninni er að í fyrstu voru kannski bara 20 prósent sem þorðu að viðurkenna það að hafa stundað sjálfsfróun,“ segir Íris Stefanía og bendir á að unglingar þora ekki endilega að segja rétt frá á einhverju könnunarblaði.

Íris Stefanía segir að eftir þetta hafi hún reynt að gera eigin sjálfsfróunarkönnun með vinkonu sinni. Bekkjarfélagar hennar voru til en kennarinn sem var þá kona á svipuðum aldri og Íris Stefanía er í dag, milli 30 og 35 ára, var ekki hrifinn. Viðbrögðin frá kennaranum voru vægast sagt neikvæð og ekkert varð úr könnuninni. Fékk hún þar með á tilfinninguna að það átti ekki að vera ræða sjálfsfróun.

„Þarna gerist eitthvað innra með mér. Allir fróa sér, allir stunda kynlíf þannig verða börnin til. Geti þið ekki talað um þetta? Hvað er að? Þetta er eins eðlilegt að anda og kúka og pissa,“ segist Íris Stefanía hafa hugsað mjög reið í níunda bekk.

Eðlilegt að stunda sjálfsfróun

Sjálfsfróun kvenna hefur því verið lengi Írisi Stefaníu hugleikin. Hún segist í raun hafa verið með verkefnið í maganum síðan hún var unglingur og segist hafa talað mjög opinskátt um sjálfsfróun sem unglingur og í menntaskóla.

Íris Stefanía segist alltaf hafa reynt að tala um sjálfsfróun á eins venjulegan hátt og hægt er en hún segir karlmenn oft reyna að kyngera hana vegna þess hún talar opinskátt um sjálfsfróun.  Það er kannski sett samasemmerki á milli þess að hún frói sér og hvernig hún standi sig í kynlífi með öðrum.

Einu neikvæðu athugasemdirnar sem Íris Stefanía hefur fengið á verkefnið er frá hvítum fullorðnum karlmönnum sem vilja meina að sjálfsfróun sé ekki tabú og hvort þetta sé ekki þreytt umræðuefni. Íris Stefanía hefur tekið niður athugasemdirnar sér til gamans þar sem menn halda því meðal annars fram að kellingar séu alltaf að tala um þetta í einhverjum kellingablöðum. Segir hún að þessar athugasemdir rammi inn ástæðuna fyrir þörfina fyrir þessu verkefni.

„Fókusinn á verkefninu er líka að þetta er bara venjulegt. Ég er ekki að reyna að gera þetta ótrúlega sexí. Þetta er bara hluti af lífinu alveg eins og við stundum kynlíf til þess að búa til börn. Þetta þarf ekki að vera eitthvað skrítið eða vandræðalegt. Þetta er bara gangur lífsins,“ segir Íris Stefanía um sjálfsfróun kvenna og verkefni sitt tengt málefninu.

Íris Stefanía tekur enn við sögum og langar að hitta konur sem vilja koma saman og tala saman um sjálfsfróun í undirbúningi sínum fyrir lokaverkefni sitt í ágúst. Hægt er að hafa samband við Írisi Stefaníu með því að senda póst á irisstefania@gmail.com eða í gegnum Instagram-síðuna When I Masturbate.

View this post on Instagram

#whenimasturbate #lovers #fantasies

A post shared by When I Masturbate (@whenimasturbate) on Apr 29, 2019 at 8:55am PDT

View this post on Instagram

#whenimasturbate #licking #finger #vagina #vulvajuice

A post shared by When I Masturbate (@whenimasturbate) on Apr 28, 2019 at 4:42am PDT



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál