„Þori ekki öðru en að láta undan henni“

Maki sem virðir ekki mörk í kynlífinu getur meitt aðra, …
Maki sem virðir ekki mörk í kynlífinu getur meitt aðra, hvort sem viðkomandi er kona eða karlmaður. Ljósmynd/Colourbox

Karlmaður sendir Elínrós Líndal ráðgjafa bréf þar sem konan hans til tuttugu ára er að meiða hann í kynlífinu. Hann er vanmáttugur að setja mörk en biður um ráð til að skila skömminni. 

Ágæta Elínrós.

Þar sem ég sé að karlmenn eru að skrifa þér langar mig að trúa þér fyrir mínum raunum. Við hjónin höfum verið gift í bráðum 20 ár og það má segja að hún hafi alltaf verið húsbóndinn á heimilinu og átt síðasta orðið um margt. Mér fannst það fínt því ég hef lítið vit á innréttingum og þess háttar.

Hún hefur alltaf haft mikla kynlífsþörf. Undanfarna mánuði hefur hún orðið stjórnsamari þar og harðhent við mig, svo mikið að mér líkar það ekki. Ég hef reynt að fá hana til að hætta því en hún heldur alltaf áfram og ég verð stundum hræddur við hana og þori ekki öðru en að láta undan henni. Mér finnst þetta hafa versnað eftir að hún varð framkvæmdastjóri í fyrirtækinu og síðan þetta #metoo byrjaði, þorir maður ekki að lyfta litla fingri á móti konum.

Ég skammast mín hálfpartinn fyrir þetta en sé líka að það er hægt að skila skömminni. Hvernig fer ég að því?

Ég þigg góð ráð.

Kveðja, S

Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæll.

Takk fyrir traustið.

Ég hef lítið tjáð mig um byltinguna sem þú nefnir hér að ofan en hef ágæta þekkingu á hvað fólk er að kljást við á þessu sviði í gegnum rannsóknir, fagið sem ég vinn við en ekki síst eftir að hafa aðstoðað fólk í stöðu eins og þú ert í. 

Það sem ég hef komist að er að konur meiða, líkt og karlmenn, þegar þær fara yfir mörk. Það sem ég les út úr bréfinu þínu er vanmáttur við að setja mörk. Skortur á raunverulegri nánd, samkennd og skilningi. Síðan sé ég að það eru óskýr mörk á milli heimilis og vinnu. 

Atvinnumarkaðurinn verðlaunar stundum fyrir hegðun sem meiðir. Af þessum sökum sjáum við hvernig fólk brennur út í tíma og ótíma, þar finnst mér yfirmenn ekki vera að huga að langtíma markmiðum þegar kemur að velferð starfsmanna sinna. En þá eru einnig þeir er brenna út vanmáttugir fyrir að setja sjálfan sig í fyrsta sæti, setja mörk og tala um vinnuálag og þar fram eftir götunum. 

Hluti af því sem er að gerast hér í þessu bréfi, er að þú ert að beina sjónum að hlut karla í byltingunni. Sem mér finnst frábært, því það sem mér finnst meiða konur í samfélaginu er þegar við setjum þær á stall og sveipum þær rómantískum ljóma hinnar fullkomnu konu sem er móðir, dóttir og eiginkona - saklaus ævintýraprinsessa. Ég sé ekki þennan mun á konum og körlum - og finnst þetta meiða konur því þær fá þá seinna tækifæri til að komast í bata ef þær eru að gera eitthvað óeðlilegt í stjórnleysi. 

Mig langar að gefa þér nokkra punkta sem þú getur unnið með núna. 

  • Getur þú skilgreint topp- og botn hegðun þína og skrifað niður á blað?
  • Getur þú byrjað að ástunda þessa hegðun daglega?
  • Getur þú sest niður með henni og útskýrt fyrir henni hvað þú ert að gera, sett mörk og staðið við þau?
  • Getur þú skoðað með ráðgjafa hvað liggur að baki vanmáttar við að setja mörk?

Topp- og botn hegðun

Mér finnst best að aðstoða fólk að skilgreina þessa hegðun, ef þeir skrifa fyrst niður á blað hvernig einstakling þeim dreymir um að vera. Hvað gerir þessi persóna daglega? Hvað gerir hún ekki?

Þú ættir að stjórna þessum lista sjálfur, en ég myndi hvetja þig til að setja á botnhegðun að stunda kynlíf sem meiðir. 

Í topphegðun gæti verið allt sem þér finnst gott og gaman að gera. Fara í sund, vera með börnum, stunda vinnu, fara í líkamsrækt og fleira. 

Þessir listar eru svolítið eins og vogaskálar, ef maður á erfitt með að forðast botn-hegðun er best að fara aðeins meira í topphegðunina og þá byggist upp sjálfsvirðing til að halda sér þeim megin betur. 

Að setja mörk

Þetta er það sem ég myndi leggja mestu áhersluna á og taka nokkrar vikur í að finna út úr með einstakling sem er með áskorun á þínu sviði. 

Það eru engin takmörk fyrir því hvað fólk getur farið langt í að meiða aðra sem dæmi í kynlífi, þannig ef þú finnur til óöryggis þar geturðu alltaf sest niður með maka þínum og sagt honum að á meðan þetta er ekki í öruggu skjóli þá sé best að stoppa kynlíf í einhvern tíma. 

Það sem lesendur kannski átta sig ekki á hér er að stundum getur harkan verið þannig að hún ógnar lífi fólks. Stundum er það vegna þess að um líkamlegt ofbeldi er að ræða. Stundum vegna þess að ofbeldið er andlegt. Ef þú situr eftir með skömm og niðurlægingu þá er það alltaf að ógna geðheilsu þinni. Þú skilar skömminni með því að hætta að leyfa fólki að meiða þig. 

Þú ættir því ekki að hika við að stoppa allt sem vekur upp ótta eða er að meiða þig. 

Ekki óttast viðbrögð maka þíns, því viðbrögðin eru það sem þú átt einmitt að vera að skoða. 

Ef maki þinn sest niður með þér og langar að heyra meira hvernig þér líður, hvernig þetta er að hafa áhrif á þig og fleira þá er hann ekki í stjórnleysi og þá getur verið viss um að út af skort af mörkum og samtali, þá hefur þetta þróast illa í sambandinu.

Ef maki þinn hins vegar verður æstur og missir stjórn, þá er það vísbending um að hann sé í fíkn og að hann sé að missa stjórn (e acting out) í kynlífinu. Þá er hann ekki við stjórn, er með tómleika, litla sjálfsvirðingu og er að nota leiðir sem hafa virkað til að róa sig í gegnum tíðina (e fixing). 

Þú getur ekki tekið ábyrgð á því ef sem dæmi maki þinn er með fíkn í kynlíf. Eða sé að meiða til að draga úr stressi, eigin ótta og fleira á þennan hátt. Þó hluti af úrvinnslu við langtíma bata sé alltaf að skoða: Af hverju talaði þessi einstaklingur til mín í byrjun?

Úrvinnsla

Þegar kemur að lífinu þá eru hlutir vanalega að verða betri eða verri með tímanum. Þetta sýna rannsóknir, sér í lagi ef um fíkn og meðvirkni er um að ræða.

Ég mæli ekki með úrvinnslu fyrr en þú nærð tökum á að setja mörk. Því þú verður opinn og auðsæranlegur þegar þú ferð í að skoða hvað liggur að baki.

Finndu þér góðan ráðgjafa að vinna með sem hefur trú á langtíma bata og samvinnu við þig í einhvern tíma.

Það sem ég myndi skoða með þér er sem dæmi: Hvernig var samband þitt við móður þína í æsku? En föður? Er fíkn í fjölskyldunni? Var þér hrósað fyrir hvað þú gerðir eða hver þú varst? Var einhver stjórnsamur, sem meiddi þig í æsku? Var það mamma? Hvernig lifðir þú af í æsku?

Eins myndi ég vilja vita - Þegar þú ert meiddur í kynlífinu - hvernig færðu útrás fyrir það eftir á (hér væri þú þá að fá útrás sjálfur (e acting in / acting out)) og fleira í því samhengi. Út frá þessu gætir þú teiknað upp hringi sem eru eins konar fíkn hringir í sambandinu ykkar. 

Svona hlutir eru alltaf flókin mynstur og ef maður stígur ekki út úr því með skýrum mörkum, þá heldur maður áfram að lifa inn í mynstrinu með leiðum sem fara með tímanum vanalega á botnhegðunarlistann hjá fólki. 

Eins þætti mér áhugavert að sjá hvort þið hefðuð áhuga á að skoða að skipta um orku inn á heimilinu. Ef hún er að tala um að hana vanti aðdáun inn í sambandið - gæti hana verið að langa meira inn í kvenorkuna en ekki kunnað það. Hún er þá eflaust alin upp af konu í karlorkunni líka. Eins ef þig langar meira í virðingu, þá gæti karlorkan hentað þér betur heima. Báðar orkur eru góðar og með skýrum mörkum, vinsemd og raunverulegri ást þá má leika sér aðeins með þetta og skoða í rólegheitum.

Gangi þér hjartanlega vel og farðu vel með þig. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrósu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál