„Laug til um hópnauðgun og fleira“

Erfiðir skilnaðir reyna verulega á fólk í mörg ár á …
Erfiðir skilnaðir reyna verulega á fólk í mörg ár á eftir. Ef börn eru til staðar er mikilvægt að finna leiðir til að ná saman sem foreldrar. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Karl­maður send­ir El­ín­rós Lín­dal ráðgjafa bréf þar sem fyrrverandi eiginkona hans til margra ára virðist hafa logið til um fortíðina. Nú er hann fastur í lygavef hennar, hann spyr hvernig fólk vinni úr svona.

Hæ. 

Fyrir þó nokkrum árum þá kynntist ég konu sem ég varð yfir mig ástfanginn af. Þessi kona átti rúmlega tveggja ára son sem ég tók í föðurstað og ég elskaði sem minn eigin son. Fljótlega eftir að við kynntumst að þá sagði hún mér sorgarsögu sína. Hún sagði mér frá einelti í grunnskóla, gagnfræðaskóla og framhaldsskóla. Hún sagði mér frá fjölda kynferðisbrota sem hún lenti í, þar á meðal hópnauðgun. Hún var mikið fórnarlamb og ég vorkenndi henni og hafði sterka réttlætiskennd. Ég og þessi kona eignuðumst börn og vorum saman í þó nokkuð mörg ár.

Ekki fyrir svo löngu síðan lentum við í rifrildi og þá notaði hún á mig hvað hún hefði átt bágt í lífinu. Ég sagði þá við hana að við skildum finna einhverja af þessum mönnum sem hefðu brotið á henni og fá þá til að játa og biðjast í það minnsta afsökunar á hegðun sinni.

Ég fann einn þeirra. Hann sagði við mig að hann hefði sofið hjá henni með hennar samþykki en hvað hefði gerst eftir það þetta kvöld í þessum mannfögnuði gat hann ekki sagt til um.

Þarna fór mín heitt elskaða að breyta sögum sínum og sagði að kannski hefði þetta verið með samþykki. Nákvæmlega þarna fór mig að gruna að barnsmóðir mín væri veikari en ég hefði gert mér grein fyrir og fór að sjá ákveðið munstur í hegðun hennar.

Ein nauðgunarsaga hennar innihélt annað fórnarlamb, vinkonu hennar í æsku. Ég hafði samband við þessa æsku vinkonu hennar og hún sagði mér að hún hefði aldrei lent í nauðgun og hvað þá með konunni minni og að saga hennar væri skáldskapur. Fljótlega fór fólk að segja mér sem þekkti til að ekkert af þessu hefði gerst. Að maki minn væri þekkt fyrir að búa til sögur og fara með ósannindi.

Þegar ég og þessi yndislega kona kynntumst átti hún son úr fyrra sambandi eins og ég kom inn á hér í upphafi. En faðir þessa barns, hennar fyrrverandi átti að hafa haldið framhjá henni, nauðgað henni og barið hana. Ég komst af því að það hefði verið hún sem hefði haldið framhjá honum og hún viðurkenndi að hafa logið að mér í öll þessi ár um hennar fyrrverandi maka. Ég tek það fram að ég hataði þennan mann í mörg ár því ég trúði konunni minni að sjálfsögðu.

Það er að verða komið ár síðan ég og þessi yndislega kona, móðir barna minna skildum. Ég gat bara ekki meira. En núna er ég orðin ofbeldismaður, allavega af sögunni til. Núna er hún að segja ljóta hluti um mig , að ég hafi verið vondur við stjúpson minn og hana. Beitt þau ofbeldi. Þetta er allt saman lygi alveg eins og allar sögurnar sem ég fékk að heyra um aðra menn og fólk sem átti að hafa beitt hana ofbeldi. Hún beitti mig andlegu ofbeldi í mörg ár og ég fattaði það ekki einu sinni.

Hvernig vinn ég úr svona pakka?

Kveðja, A

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæll og takk fyrir að senda inn bréfið. 

Ég get ímyndað mér að þú hafir upplifað áfall í kjölfar skilnaðarins og nú ári seinna sértu kominn á stað þar sem þú ert tilbúinn til að vinna þig út úr málunum.

Rannsóknir dr Patrick Carnes sýna m.a. að þegar sambönd enda sem hafa verið meðvirk, stjórnlaus eða með fíkn í - þá upplifir fólk hörð fráhvörf sem vara stundum í allt að fimm vikur. Það er óttinn við þessi líkamlegu og andlegu einkenni sem heldur fólki saman lengur en það vildi vera að hans mati. 

Ég veit ekki hvort þetta tali til þín. 

En það besta sem þú getur gert í stöðunni í dag að mínu mati er að setja inn í aðstæður þínar sjálfsmildi, kærleika og þolinmæði. Veröldin á eftir að gefa þér svör, sem gefa myndinni sem þú hefur af aðstæðunum sem þú varst í, meiri lit. 

Þegar samböndin eða hjónabönd enda, er alltaf mælt með því að gera þau upp með sérfræðingingi áður en maður heldur af stað í næsta kafla lífsins. 

Einfaldasta leiðin er alltaf að skella skuldinni á hinn aðilann, halda áfram að vera gramur og reiður og vona að næsti maki muni verða betri. 

Aðeins flóknari leið er að fara þá leið að skoða eigin ábyrgð, markaleysi og sambandið ofan í kjölinn. Hvað hægt er að læra af þessu sambandi og hvað skyldi varast. Eftir þessa leið fara sumir á góðan stað í lífinu en margir hætta sér ekki aftur í samband. 

Að upplifa hamingjuna innra með okkur sjálfum, að halda lyklunum að eigin lífshamingju er alltaf grunnurinn að andlegu heilbrigði að mínu mati. 

Að hætta sér aftur í samband þegar réttur tími er kominn. Að læra að vera manneskja með manneskjum, að þora að vera heiðarlegur og þora að finna til - jafnvel í hjónabandi - er eins og að vera í ævilangri sálfræðimeðferð að mínu mati. 

Ég hef stundum séð hjón með þannig tengingu að þegar þau eru nálægt hvort öðru, þá eru þau eins og eitt. Þau taka ábyrgð á sér, eru með bollan sinn fullan af ást og skilning og ná að fara í gegnum allskonar áskoranir, saman eða sundur, en velja í enda dagsins að elska hvort annað og þá án skilyrða.

Lifið er að mínu mati ekki leikur. Það er vinna, ef maður ætlar að taka þátt í því að fullu marki.

Ég ráðlegg þér að setja markið hátt, fara í djúpa vinnu með sálfræðing og ráðgjafa, þar sem þú lærir að setja heilbrigð mörk, að taka ekki ábyrgð á öðrum og lærir að elska sjálfan þig og aðra með öllum kostum og göllum. Þetta felur vanalega í sér að skoða geðtengsl við foreldra, að skoða fjölskyldumynstur, að skoða hvar urðu áföll hjá þér sem barn og þar fram eftir götunum. Logo-theraphy er leið sem notuð er til að finna tilgang með erfiðum tíma sem og margar 12 spora leiðir, þar sem fólk er hvatt til að finna leið til að taka ábyrgð og sjá sinn hlut, vaxa og þroskast. 

Það er hægt að komast í gegnum svona skilnaði, sterkari en áður. En það gerist ekki að sjálfum sér og að mínu mati ekki nema með aðstoð frá virkilega færum einastakling sem er sérfræðingur á þessu sviði og hefur komist sjálfur í bata frá þessum stað. 

Það er erfitt að átta sig á út frá einu bréfi hvort þú sért aðstandandi aðila í stjórnleysi eða með andleg veikindi, hvort þú sjálfur ert að glíma við fíkn, sem dæmi í ástum. Prófaðu þig áfram og taktu mið af líkamlegri og andlegri líðan. Ef eitthvað er að virka fyrir þig, þá hefurðu sjálfur dómgreind og visku til að vita hvað það er. Svefninn verður betri og samskipti við börnin þín að sama skapi. Þið verðið án efa alltaf fjölskylda þó þið foreldrarnir hafa skilið. 

Mig langar að mæla með Gunnari Hrafni Birgissyni sálfræðingi fyrir þig. Ástæðan fyrir því að ég mæli með honum er sú að hann er karlmaður, með áratuga reynslu í erfiðum skilnaðarmálum, hann er góður að greina andlega líðan foreldra, tengslavanda eða tengslarof og síðan er hann mikill sérfræðingur í að halda með börnum í svona málum. 

Hann hefur lengi vel verið dómskvaddur matsmaður í erfiðum skilnaðarmálum þar sem áhersla er að sjálfsögðu vanalega á að lágmarka áfall skilnaðar á börn. 

Gangi þér vel.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rósu spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál