Er þetta ástarfíkn?

Dr. Patrick Carnes hefur rannsakað ástar- og kynlífsfíkn. Hann er sammála því að fíkn sé sjúkdómur og beinir sjónum sínum mest á fíkn í kynlíf og fólk. Hann telur að fíkn í fólk sé sú fíkn sem heimurinn eigi hvað erfiðast með að samþykkja. Hann bjó til meðferðarleið sem tekur 45 daga að fara í gegnum hjá meðferðarmiðstöðinni Meadows. Talið er að fólk á borð við Harvey Weinstein hafi sótt í meðferðina. 

Þrátt fyrir að dr. Patrick Carnes tali um faraldur í ástar- og kynlífsfíkn eru ekki allir sem upplifa stjórnleysi á þessu sviði að gera það sama. Í bókinni Don't Call It Love fjallar Carnes um reynslusögur þúsund einstaklinga sem hafa upplifað vanmátt eða stjórnleysi í ástar- og kynlífsmálum. Á meðal þátttakenda voru sérfræðingar á ýmsum sviðum; læknar, sálfræðingar, prestar, forstjórar, leikarar, verkafólk, verslunarfólk og mannauðsstjórar svo dæmi séu tekin. Þessir einstaklingar voru ekki að gefa af sérfræðiþekkingu sinni sem fagfólk heldur gefa innsýn í hugarheim manneskju í stjórnleysi.

Þótt reynsluheimur þeirra sem upplifa stjórnleysi á þessu sviði sé margs konar virðast ákveðnir þættir í lífi fólks sameiginlegir. Fíkn í ástar- og kynlífsmálum virðist eiga upptök sín í vanda sem er skortur á samþykki og sjálfsvirðingu segir fagfólk sem er á sömu línu og Carnes.

Carnes hefur vakið athygli víða fyrir óhefðbundna framsetningu á efni sínu. Hann er sem dæmi á því að þegar fræga fólkið ratar á síður slúðurblaða sé vanalega verið að fjalla um andlega sjúkdóma þeirra, ástarfíkn, spilafíkn, áfengisfíkn og fleira. Hver man ekki sem dæmi eftir sögusögnunum um að Brad Pitt hefði skilið við Angelinu Jolie vegna Margot Robbie?

Hvernig getur kynlíf verið hugbreytandi?

Hvernig getur fólk upplifað stjórnleysi og farið í fíknarástand þegar ekki er um neitt efni að ræða? Þessi spurning hefur staðið í mörgum þótt Carnes telji ástæðuna augljósa.

„Sambönd geta haft hugbreytandi áhrif. Sér í lagi í upphafi, þegar fólk er að kynnast. Eins getur kynlíf og sjálfsfróun haft hugbreytandi áhrif. Í raun sýna rannsóknir að kynlíf hefur meiri áhrif á heilastarfsemi fólks en kynfæri þess.“

Carnes segir að margir af þeim sem hafa farið í gegnum áfengismeðferð hafi svo uppgötvað á seinni stigum bata að þeir eru ennþá í stjórnleysi þegar ástamál eru annars vegar. Þetta fólk segir að töluvert erfiðara sé að komast í bata frá ástarfíkn en hörðum efnum.

Fráhvörfin í ástar- og kynífsfíkn eru talin vara allt frá þremur til fjórum vikum og fráhald frá botnhegðun er ævilöng æfing þótt botnhegðun eigi það til að breytast og þróast með árunum.

Carnes hefur gefið dæmi um sérfræðing sem sótti námskeið hjá honum. Sá hinn sami hafði þrátt fyrir mikla greind og þekkingu á sínu sviði aldrei gefist upp á stjórnleysi sínu á sviði ástar- og kynlífsmála. Persónan fór af miðju námskeiði Carnes til að ná sér í munnmök við ókunnugan einstakling á bílastæði skammt frá húsnæðinu. Hann var þá kominn á flakk með kynhneigð sína og virtist eftir atvikið upplifa svo mikla skömm að hann missti stjórn á bílnum sínum og lenti í alvarlegu umferðarslysi.

Þrátt fyrir góða dómgreind og þekkingu virtist skortur á uppgjöf og fúsleika verða til þess að allt var sett til hliðar, til að fá útrás í kynlífínu.

Að finna tilgang með sársaukanum

Carnes telur mikla von fyrir þá sem vilja ná bata á sviði ástar- og kynlífsfíknar og þá sér í lagi fyrir fólk sem finnur sér góðan ráðgjafa að vinna með, hann mælir með að fólk fari í 12 spora samtök sem taka á ástar- og kynlífsfíkn, finni sér leiðbeinanda og taki sporin 12 svo dæmi séu tekin.

Það geti tekið allt að þremur árum að ná bata á þessu sviði samkvæmt rannsóknum og að viðhalda batanum segir hann að sé jafn mikil vinna og að viðhalda bata í öðrum fíknum.

„Að finna tilgang með tómleikanum og sársaukanum er alltaf leiðin í bata.“

Carnes segir mikilvægt að fólk viti að bati er breytt hegðun en ekki síður breytt hugarfar. „Tortímandi hegðun í ást og kynlífi getur verið sem dæmi að nota ekki verjur við samfarir, að ástunda hegðun sem er hættuleg í kynlífi, eins og að meiða eða kyrkja, sem og að stunda samfarir með fólki með kynsjúkdóma eða alvarlega smitsjúkdóma.“

Carnes segir að bati á þessu sviði sé aldrei að fara úr öllum tilfinningalegum tengslum eða nánd, síður en svo. Slíkt nefnist anorexía og er í raun hin hliðin á sama peningnum, staðurinn þar sem fólk missir tök á fíkninni og fellur í djúpar sprungur með reglulegu millibili.

Ástarfíkn er fjölskyldusjúkdómur

Samkvæmt rannsóknum Carnes koma margir af þeim sem upplifa stjórnleysi í ástum úr fjölskyldum þar sem mikill agi ríkir og lítið svigrúm fyrir að vera barn og fá að læra.

„Ástarfíklar eru oft einstaklingar sem fengu ekki að vera ófullkomin börn heldur þurftu stöðugt að vera að sanna sig fyrir foreldrum sínum og umhverfinu. Þau upplifðu tómleika og fundu þannig leiðir til að lifa af í sársaukanum. Botninn hjá fólki í þessari fíkn er misjafn. Stundum biður fólk um aðstoð með höfuðið fullt af þráhyggju og er þá ekki að ástunda neina botnhegðun í sjálfu sér, en stundum er fólk byrjað að „fixa sig“ á öðru fólki nær daglega og oft á dag,“ skrifar hann í bókinni Don't Call It Love.

Dæmi um botnhegðun sem fjallað er um í bókinni eru:

Kona sem missir stjórn á notkuninni á víbratornum sínum þannig að hún er farin að brenna sig á honum og þarf að leita á sjúkrahús vegna sára sem hún fær við sjálfsfróun.

38 ára tannlæknir, sem er orðinn reiður út í konuna sína sem hefur ekki áhuga á kynlífi með honum, byrlar henni lyf án hennar vitundar og sefur hjá henni til að ná sínu fram.

33 ára kona skilur ungbarn sitt eftir heima til að hitta elskhuga sinn.

Það sem einkennir ástand þeirra sem leita eftir aðstoð á þessu sviði er stjórnleysi í lífinu.

Sem dæmi um þetta samkvæmt rannsóknum Carnes:

40% ástar- og kynlífsfíkla hafa misst maka sinn vegna fíknarinnar.

70% ástar- og kynlífsfíkla hafa upplifað vandamál í hjónabandi.

58% ástar- og kynlífsfíkla hafa upplifað að fíknin hafi veruleg áhrif á fjárhagsstöðu þeirra.

Ástar- og kynlífsfíkn er fíkn sem ekki sést utan á fólki og finnst fólk með þessa fíkn í alls konar stöðum.

79% ástar- og kynlífsfíkla segja að fíknin hafi veruleg áhrif á frammistöðu þeirra í vinnunni.

11% ástar- og kynlífsfíkla segjast hafa misst stöðu sína vegna virkrar fíknar.

Það sem virðist einkenna þessa fíkn líkt og alkóhólisma er að fólk virðist lifa tvöföldu lífi. Lögfræðingur sem á tvö börn og eiginkonu getur verið einn maður á daginn en síðan nokkrum sinnum í viku farið í annan gír þar sem hann fer á hótel og kaupir vændi. Hann er þá tveir menn; annar í anda Jekylls og hinn í anda Hydes.

Samkvæmt Carnes hafa:

17% ástarfíkla reynt að svipta sig lífi.

72% ástarfíkla hafa hugleitt að svipta sig lífi.

„Til að viðhalda virðingu sinni langar dr. Jekyll að drepa hr. Hyde,“ segir hann í bókinni.

Hversu oft þarf ég að halda framhjá til að teljast fíkill?

Þar sem ástar- og kynlífsfíkn virðist algengari en margur heldur er áhugavert að velta fyrir sér hvað þarf að vera í gangi í lífi persónunnar svo hún getir skilgreint sig sem ástar- og kynlífsfíkil. Hversu oft þarf ég að halda fram hjá til að geta skilgreint sig sem fíkil?

Að sögn Carnes er þetta eins og að spyrja: Hvað þarf ég að drekka oft og hversu mörg glös til að flokkast sem alkóhólisti?

Það er ekki eitt atriði heldur mörg sem koma saman og gera fólk að fíklum. Í raun talar Carnes um ákveðið mynstur þar sem hegðunin felur í sér að gildi manneskjunnar hliðrast, hún einangrar sig og hegðunin skaðar persónuna sjálfa, fjölskyldu hennar og aðra sem hún tengist.

Það er margt í menningunni sem gerir lítið úr fíkn á þessu sviði og talar Carnes um að hafa heyrt það margoft sagt að ef manneskja ætti við fíkn að stríða væri þetta án efa besta fíknin að hafa.

Því er hann algjörlega ósammála:

„Alnæmi, misnotkun á börnum, óvelkomin þungun, þungunarrof, nauðganir, manndráp og fleira geta verið fylgifiskar langt leiddra fíkla á þessu sviði. Svo fólk ætti að forðast að gera lítið úr þessari fíkn.“

Andleg líðan þeirra sem upplifa stjórnleysi í ástum er samkvæmt rannsókn Carnes eftirfarandi:

97% ástar- og kynlífsfíkla segjast vera með lágt sjálfsmat.

96% ástar- og kynlífsfíkla upplifa skömm.

94% ástar- og kynlífsfíkla eru einangruð.

90% ástar- og kynlífsfíkla ganga gegn sínum eigin gildum.

82% ástar- og kynlífsfíkla óttast um framtíð sína.

Þar sem margir þeirra sem flokkast sem fíklar á þessu sviði eru úr fjölskyldum þar sem vanræksla var viðhöfð, skilyrt ást og gagnrýni, geta góður stuðningur og samkennd gert mikið til að koma viðkomandi í bata.

Besta meðalið fyrir fólk með fíkn á þessu sviði er að finna virðingu og fá aðstoð við að ástunda daglega eitthvað sem byggir það upp.

Ef fólk fer í sprungur eða fall – sem virðist algengt á meðal fólks í bata þar sem erfitt er að fara í algjört fráhald frá fólki – er meðalið vanalega að halda áfram þar sem frá var horfið. Sjálfsmildi og sjálfskærleikur gera mikið, að tala í hóp og finna að einstaklingurinn er ekki einn þykir einnig nauðsynlegt með vinnu hjá sálfræðingi eða ráðgjafa á þessu sviði að mati Carnes.

Þegar fólk gerir sér betur grein fyrir því að fíknin tengist ekkert ást eða kynlífi, heldur í raun tilfinningalegum einmanaleika og að fólki finnist það óverðugt, getur orðið mikil breyting á fólki skömmum tíma þegar sjálfsvirðing þess fer að vaxa og dafna.

Íslenskur karlmaður á fertugsaldri lýsir ástarfíkn sinni svona:

„Ég hafði verið í nokkrum samböndum við konur í gegnum árin en aldrei fundið hina einu réttu. Þótt ég ætti góðan séns í konur, sé talinn myndarlegur af vinum mínum, var ég í mörg ár einn. Ég einblíndi alltaf á vinnu og að rækta líkamann en hafði aldrei getu eða áhuga á að rækta mig andlega.

Mynstrið sem ég var í var þannig að ég var einn í marga mánuði, þar sem ég var í eins konar ástar-anorexíu. Þetta gat verið allt að átta mánaða tímabil. Síðan fór ég út með vinunum nokkrar helgar í röð þar sem ég drakk áfengi, fór á skemmtistaði og síðan heim með stelpum sem ég ekki þekkti vel.

Þetta var eins og kvikmyndin „Groundhog Day“ og spilaðist kvikmyndin vikulega í þrjá til fjóra mánuði. Í lok þessa tímabils var þetta farið yfir mín mörk og ég tók mér pásur inn á milli.

Ég hafði ekki hugmynd um að ég væri að nota áfengi til að nálgast kvenfólk á þennan hátt. Mér fannst bara allir vera í þessu mynstri og svona væru hlutirnir vanalega gerðir. Ég notaði sem dæmi klám til að fá útrás, enda fannst mér á þessum tíma konur eins og einhver önnur tegund sem ég var vanmáttugur að nálgast. Þegar ég notaði klám vissi ég að tölvan myndi ekki hafna mér. Klámið hafði hins vegar þau áhrif að það gaf mér ennþá bjagaðri mynd af konum. Mér leið ekki vel með sjálfan mig á þessum tíma enda var þetta nokkuð sem ég hélt einungis fyrir mig. Að nota klám er „normalíserað“ af samfélaginu í dag. Það tala margir um að nota klám en minna er rætt hvaða áhrif það hefur á fólk. Klám er vanalega flótti og gerir ekkert uppbyggilegt fyrir mann nema síður sé. Batinn sem ég öðlaðist í gegnum 12 spora samtök sem takast á við þráhyggjuhugsun og hegðun á þessu sviði er þannig að maður lærir að elska sig sjálfan án skilyrða. Að standa með sér og vera ekki meðvirkur í aðstæðum. Að skilgreina veikleika sína og reyna að fara í gegnum hvern dag sáttur við sjálfan sig og aðra er fallegt og gott líf að mínu mati í staðinn fyrir að fá sér stutt fix hér og hvar og lifa lífinu í blekkingu.“

Íslensk kona á fertugsaldri lýsir ástarfíkn sinni svona:

„Ég held að á ákveðnu tímabili hafi ég verið stjórnlaus gagnvart háskólagráðum. Ég veit ekki hversu mörg námskeið og hvað margar gráður ég hafði öðlast. Ég var samt alltaf með þetta tómarúm og þessa litlu sjálfsvirðingu sem ég reyndi að bæta úr með menntun. Bara ef ég yrði sálfræðingur þá yrði ég sátt og svona hélt þetta áfram í marga áratugi. Sjálf ástarfíkn mín var samfélaginu dulin. Ég hafði að sjálfsögðu verið í nokkrum samböndum en stjórnleysið var aðallega í höfðinu á mér.

Sumir reyna að bæta úr með flottum fötum og bílum en aðrir safna peningum eða háskólagráðum. Ég fixaði mig aðallega á áliti samfélagsins á mér. Fólk og álit þess skiptir mig meira máli en fjárhagslegt öryggi. Ég sé margar stúlkur á staðnum sem ég var á á samfélagsmiðlum; ungar stúlkur sem eru margar stundir á dag fyrir framan myndavélina fáklæddar að reyna að fá sem flest like á myndirnar sínar.“

Íslensk kona á fimmtugsaldri lýsir ástarfíkninni svona:

,,Ég skilgreini mig sem sambandsfíkil og var lengi vel algjörlega ómeðvituð um að ég væri að kljást við fíkn á þessu sviði. Ég hafði verið í þremur löngum samböndum sem öll enduðu á svipaðan hátt. Ég fór úr einu sambandi í annað. Samböndin voru stormasöm og enduðu vanalega þannig að ég var sú sem fór. Sökin var vanalega hjá mönnunum sem ég var með þótt ég væri með mikla þráhyggju út fyrir samböndin, ætti erfitt með að setja mörk og sinna mér eins vel og ég vildi.

Ég kem úr fjölskyldu þar sem foreldrar mínir höfðu skilið. Ég ólst ekki upp við skilyrðislausa ást og í raun og veru var ég alin upp við ótta við karlmenn.

Í dag, eftir margra ára sjálfsvinnu, fann ég lykilinn að lífshamingjunni innra með mér. Ég lærði að vera ein og taka ábyrgð á mér. Seinna fór ég í samband, þar sem ég kynntist maka mínum áður en við ákváðum að vera saman. Hann er ekki uppspretta fjárhagslegs öryggis eða hamingju minnar í dag en við erum ástfangin af því við veljum að gefa hvort öðru ást og umhyggju. Hann hefur unnið töluvert í sér líka.

Að viðhalda batanum er lífsnauðsynlegt fyrir mig. Ég má aldrei sofna á vaktinni eða gleyma því sem mestu máli skiptir. Ég þarf að minna mig á að ég er góð og þess virði að elska og vera elskuð. Málið er nefnilega það, að ef einstaklingur elst ekki upp við skilyrðislausa ást, hvernig á hann þá að geta gefið hana áfram?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál