Ræður ekkert við sig og fer í sund daglega

Sólin getur verið yndisleg en ef fólk er of mikið …
Sólin getur verið yndisleg en ef fólk er of mikið í sól, getur það verið hættulegt heilsunni. Ljósmynd/Colourbox

Kona sendir inn bréf til Elínrósar Líndal ráðgjafa út af vanda sem hún telur sig vera með. Hún á ekki að vera í sól samkvæmt læknisráði en ræður ekki við sig og fer daglega í sund. 

Sæl.

Ég hef tvívegis verið greind með sortuæxli en næ ekki alveg að stjórna hegðun minni tengdri sól. Málið er að ég var hér á árum áður mikið í ljósum og varð alltaf að vera brún. 

Síðan núna fer ég á hverjum degi í sund og syndi en ligg síðan stundum í lauginni sem ég á ekki að vera að gera. 

Ég hef verið að fara til tveggja húðlækna í eftirlit, en innst inni finnst mér þetta jaðra við fíkn frekar en eitthvað annað. 

Þetta hefur aðeins lagast með árunum en ég hef áhyggjur af þessu og get ekki alveg verið heiðarleg við læknana mína. 

Kveðja, L

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir að senda inn spurninguna. 

Ég hef unnið með skjólstæðingum með þessa áskorun þá aðallega þegar hegðunin snýst um útlit og samþykki frá fólki þessu tengt. Þetta er hliðarfíkn við ástarfíkn að mínu mati, rétt eins og ofuráhersla á vöðva, þyngd og fleira getur orðið vandamál af svipuðum meiði. 

Ef þú ert í sólinni af því þig langar að vera brún en veist að það getur verið þér skaðlegt, þá ertu að lýsa ástandi sem er í anda stjórnleysis. 

Það er áhugaverð vinna að komast á þann stað að verða edrú frá áliti annarra og ég get lofað þér að þú með hvíta og fallega húð er mun huggulegra en þau öldrunaráhrif sem sólin getur haft á húðina. En þetta veistu sjálf og leiðin út úr þessu er að fara í fráhald í 3-4 vikur frá sól og síðan taka samningsbundna tíma og vinna í tilfinningunum sem koma upp á meðan. 

Ef þú hefur kjark til að tala um þetta á heiðarlegan hátt við húðlækninn þinn gæti hann veitt þér stuðning. Þú finnur strax hvort læknirinn hefur skilning á þessu sviði eða ekki. Þú getur einnig leitað til ráðgjafa eins og mín með þessi mál. Ég veit að þegar maður framkvæmir einhverja hegðun gegn sinni eigin bestu vitund, þá liggur vandinn ekki í vanþekkingu heldur frekar á tilfinningasviðinu. 

Undirliggjandi tilfinningar með svona vanda er stundum tilfinningin um að vera ekki nóg, skilyrt ást og fleira sem á rætur að rekja í æsku fólks meira en margt annað. 

Að vinna í meðvirkni getur líka aðstoðað á svona sviði. En takk fyrir að senda inn þessa fyrirspurn. Þú ert ekki eina manneskjan með þennan vanda. 

Gangi þér sem allra best. 

Kveðja, Elínrós Líndal

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is