Er í sjokki yfir drykkju Íslendinga

Það getur verið áhugavert að koma sér upp lífstíl í …
Það getur verið áhugavert að koma sér upp lífstíl í nýju landi. Ljósmynd/Thinkstock

Karlmaður sendir inn bréf til Elínrósar Líndal ráðgjafa og spyr hvort menningin á Íslandi sé þannig að ávallt þurfi að hafa vín um hönd? Hann er nýfluttur til landsins og var í barnaafmæli á dögunum þar sem boðið var upp á vín. 

Sæl!

Mig langar að spyrja þig einnar spurningar tengt áfengisneyslu Íslendinga. Ég er nýfluttur heim frá Bandaríkjunum þar sem ég bjó í borg þar sem samkeppnin var mikil. Þar tíðkaðist að fara út í drykk eftir vinnu, en flestir sem vildu ná árangri fóru heim snemma og margir drukku ekki neitt. 

Mér fannst í tísku að vera á hollu og góðu mataræði og að sýna aga þegar kom að rútínum, vinnu, mat og víni.

Ég er í hálfgerðu sjokki eftir að hafa flutt til Íslands. Mér finnst vín í öllum veislum (var í barnaafmæli um daginn þar sem var vín), mér finnst mikið drukkið og fólk vera lengi að.

Konan mín hefur fundið sig í gamla vinkvennahópnum sínum og hittast þær að jafnaði vikulega þar sem vín er haft um hönd. Þær fara flestar út að skemmta sér nokkrum sinnum í mánuði og mér finnst drykkjan vera að hafa áhrif á fjölskyldulífið. Ekki svo að skilja að hún sé alltaf úti með vinkonunum, en ég tek eftir að hún er að lenda harðar í félagslegum þrýstingi en ég geri. 

Því spyr ég: Þarf alltaf að vera vín um hönd og hvað gerir maður eins og ég sem hef áhuga á öðruvísi menningu en vil búa í landinu?

Kveðja, X

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæll X.

Af fenginni reynslu get ég sagt þér að það eru til fjölmargir áhugaverðir einstaklingar sem þú getur kynnst í landinu sem drekka lítið eða eru alveg edrú. Stór hluti landsmanna lifir heilsusamlegu lífi. 

Þegar ég vinn með fólki tímabundið eða til lengri tíma fæ ég vanalega fólk til að hætta að drekka tímabundið eða alveg. Því mér finnst erfitt að vinna í djúpum tilfinningamálum með skjólstæðingum mínum þegar þeir eru að drekka. Jafnvel þótt það séu einungis fáein glös á mánuði. Það veikir miðtaugakerfið og fer ekki vel saman við tíma þar sem unnið er í tilfinningum. 

Mér finnst félagslegi hlutinn af þessu ferli vanalega flækjast fyrir fólki meira heldur en þörfin fyrir að drekka. Þar reynir mest á að setja mörk, velja sér réttu vinahópana fyrir lífstílinn sem mann langar að lifa og þar fram eftir götunum.

Ég myndi gefa mér góðan tíma til að aðlagast íslensku samfélagi og gera það að markmiði mínu að færa eitthvað gott inn í umhverfið mitt. Þegar maður er á góðum stað andlega þá sér maður auðveldlega heilbrigðu fallegu hlutina hjá fólki. Þegar maður hins vegar er á stað þar sem maður getur farið í vinnu með sig, þá tekur maður meira eftir veikleikum fólks og hinu veika. 

Ég á frænda sem ég tók með mér á Þorrablót Stjörnunnar rétt eftir að hann flutti til landsins frá New York. Hann er flottur maður á besta aldri sem leggur sig fram um að lifa heilbrigðu lífi. Hann borðar hollan mat og er allra manna skemmtilegastur. Á meðan ég skemmti mér ágætlega fékk hann algjört menningarsjokk. Það er eðlilegt. Ég er vön þessari menningu á meðan hann er vanari öðruvísi umhverfi. Bæði erum við án áfengis. 

Ég mæli með tónleikum Sinfóníunnar, að fara í sund, að tilheyra gönguhópum sem eru heilbrigðir, að finna annað fullorðið fólk á sömu línu og þú ert á. Eins mæli ég með að þú hlustir á innsæið þitt og farir út úr aðstæðum sem þér finnst óheilbrigðar. Sem dæmi barnaafmæli þar sem vín er haft um hönd.

Varðandi konuna þína þá myndi ég gefa aðlögun ykkar inn í landið tíma. Þú getur treyst því að ef hún hefur ekki átt við áfengisvanda áður en hún flutti til landsins, er harla ólíklegt að hún muni þróa hann með sér hér einungis vegna félagslegs þrýstings. En sestu niður með henni og vertu heiðarlegur án þess að dæma. Þá fer hún síður í vörn og þið getið fundið ykkur leiðir saman í þessu.

En aftur, ef vandi kemur upp í fjölskyldunni tengt drykkju eru fjölmargir frábærir ráðgjafar sem hægt er að leita til. 12 spora samtökin í landinu eru til fyrirmyndar og fólk er vanalega lausnamiðað og skemmtilegt hér. 

Gangi þér sem allra best og velkominn heim aftur!

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál