„Barnsmóðir mín notar hörð efni“

Fíknivandi sem kemur upp í fjölskyldum er flókinn að leysa. …
Fíknivandi sem kemur upp í fjölskyldum er flókinn að leysa. Sér í lagi fyrir þann aðila sem er aðstandandi. Þeir þurfa stuðning og aðstoð. mbl.is/Thinkstockphotos

Karlmaður sendir inn bréf til Elínrósar Líndal ráðgjafa og biður um ráð þar sem barnsmóðir hans er að nota hörð efni þegar hún er ekki með börnin. 

Komdu sæl.

Barnsmóðir mín er að nota hörð efni, ólögleg vímuefni, þar á meðal amfetamín þegar börnin okkar eru hjá mér. Ég er búinn að tilkynna þetta til barnaverndar í bæjarfélagi okkar en þeir virðast ekki geta gert neitt. Mér finnst eins og mæður fái betra viðmót með svona upplýsingar til féló heldur en feður. Alla vega er eitthvað gert strax í málunum þegar mæður tilkynna svona. Barnsmóðir virðist passa sig þegar hún er með börnin. Hvað á ég að gera? 

Kv, AA

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Hæ AA og takk fyrir að senda inn bréfið. 

Bara það að þú sendir bréfið á mig og að það er komið í birtingu ætti að ýta við á ákveðnum stöðum. Svo ég vil þakka þér fyrir að varpa ljósi á þennan reynsluheim þinn. 

Ég starfa sjálf aðallega við handleiðslu og eru flestir viðskiptavinir mínir fagaðilar sem eru að borga bata sinn hjá mér margfalt út í samfélagið. Það er magnað að sjá hvað fólk sem er vel menntað innan sem dæmi heilbrigðiskerfisins nýtir þekkingu sína tengda fíkn og meðvirkni áfram í vinnunni. Svo ekki gefast alveg upp við að finna réttan fagaðila til að aðstoða þig með þessi mál. 

En af því þú baðst um mína dómgreind á málin, þá kemur hún að láni hér til þín:

Börn alkóhólista

Ég þekki af eigin reynslu að vera aðstandandi móður í neyslu. Ég ólst upp hjá henni lungann úr æsku minni en átti annan samanstað sem ég gat sótt í líka (amma og afi og vinkonur). Ég elskaði mömmu meira en alla sem ég þekkti. Ég þráði ekkert meira en að hún fengi aðstoð og kæmist í bata. Ósk mín rættist á fullorðinsárum og eigum við nú mjög sérstakt og gott samband saman. 

Ég hef hins vegar þurft að vinna mjög mikið úr áföllum tengdum æsku minni, sem er án efa ástæðan fyrir því að ég starfa við það sem ég geri í dag. Að gefa batann minn áfram.

Ég er hins vegar á því að ef ég hefði verið tekin af henni hefðu áföllin mín og tengslaröskunin orðið meiri. Sér í lagi hefði ég endað á stað sem var verri en aðbúnaðurinn minn var hjá henni. Hún byrjaði í áfengi og endaði á heróín-skyldum lyfjum. Hún er heil í dag, eitt mesta kraftaverk sem ég þekki. Frábær mamma og stórkostlegur kennari svo ekki sé meira sagt.

Stór hluti af minni æsku var frábær. Það er mikilvægt að muna í svona samhengi.

Kerfið

Ég sé mikinn vanmátt og vanþekkingu í samfélaginu okkar tengt fíknisjúkdómum. Það sama má segja um heilbrigðiskerfið okkar. Að mínu mati þurfa helstu sérfræðingar landsins í fíknisjúkdómum að mæta helstu sérfræðingum okkar í öðrum greinum og samþætta eina heildstæða stefnu sem vinnur saman í að aðstoða fólk með fíknivanda. Eins þurfa allir fagaðilar sem taka á móti erindi eins og þínu að mínu mati að hafa þekkingu til að vita hvernig sé best að styðja við fjölskyldur í svona vanda.

Fíkn er flókið fyrirbæri og gott er að hafa í huga í þessu samhengi að hægt er að nota alls konar efni til að komast í breytt hugarástand. 

Konur versus karlar

Af eigin reynslu sé ég engan mun á konum eða körlum þegar kemur að fíkn. Mér finnst konur ekki með minni áfengisfíkn en karlar, þótt það gæti verið að við séum að koma seinna í bata og erum þá veikari fyrir vikið. Mér finnst konur ekki með minni ástarfíkn, vera minni matarfíklar, minna meðvirkar og þar fram eftir götunum. Ég sé ekki þennan kynbundna mun í minni vinnu.

Ég er á línu við dr. Pat Allen og dr. Patrick Carnes sem horfa algjörlega fram hjá kyni fólks og horfa meira á vandann, fíknina, áföllin og leiðina út úr því. Ég held að von sé á fleiri rannsóknum sem munu styðja þetta viðhorf og þennan skóla innan fíknifræða og sálfræði.

Þau fjalla mikið um yfir-fíknir og hliðar-fíknir. Þau eru bæði sérfræðingar í fíknifræðum. Leggja megináherslu á ástarfíkn sem mér finnst persónulega vangreind hér á landi. Þau tala einnig mikið um hugbreytandi efni, hvernig sem dæmi kynlíf getur komið fólk í hugbreytt ástand, sykur og fleira. 

Það sem sameinar alla með fíkn í annað fólk út frá kenningum dr. Carnes er skilyrt ást í æsku og áföll. Hann á því að alkóhólismi sé sjúkdómur en vill ganga lengra og skilgreina ástarfíkn sem sjúkdóm líka. Kenningar hans eru vinsælar víða þótt margir séu á því að enn þá séu nokkur ár í að hans hugmyndir verði hugmyndir fjöldans.

Dr. Pat Allen talar um tvær orkur, kven- og karlorkuna. Hún segir mikilvægt að fólk velji sér eina orku og segir að konur í neyslu séu í karlorkunni og karlar sem eru aðstandendur séu í kvenorkunni. 

Hvað getur þú gert?

Þú getur tekið ábyrgð á eigin neyslu. Ég veit ekki hvort þú skrifar undir bréfið AA einmitt til að vísa í að þú hafir gert það eða hvort þetta sé bara tilviljun. Það að barn sem er aðstandandi vegna móður, eigi föður sem er heilbrigður að vinna í sér, skiptir öllu máli að mínu mati.

Eins getur þú skoðað 12 spora samtök sem hjálpa fólki tengt meðvirkni. Ég mæli með því og að þú gefir þér góðan tíma í að vinna í því að vera ekki meðvirkur og að verða besta útgáfan af þér. 

Manneskja sem er ekki meðvirk í aðstæðunum sem þú ert í, í dag. Hún myndi mæta kerfinu út frá þessari hugsun að það gæti verið að aðilarnir sem starfa innan þess séu vanmáttugir en ekki vondir. Þessi persóna færi þá á alla staðina sem hann hefur verið á að leita að aðila með þekkingu, einhverjum sem er tilbúinn að vera hluti af úrslausninni en ekki vandanum.

Manneskja sem er ekki meðvirk myndi setjast niður með barnsmóður sinni og taka inngrip (samtal). Þar sem heilbrigð og eðlileg mörk eru sett og manneskjan er hvött til að þess að skoða sín mál. Þetta væri gott að gera með fagaðila og alltaf með hagsmuni barnanna í huga. Gunnar Hrafnsson sálfræðingur er einstakur svo dæmi séu tekin. Eins mæli ég með Önnu Sigríði presti sem starfar hjá Lausninni. 

Eins get ég bent á sálfræðiþjónustu fyrir börn hjá SÁÁ. Niðri í Von starfa einnig frábærir karlráðgjafar sem þú getur hitt vikulega og fengið handleiðslu hjá. 

Gangi þér sem allra best og ekki gefast upp. 

Það er til leið og svo sannarlega til falleg lausn. 

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál