„Klámið meiðir mig meira en áfengið“

Það er eðlilegt að finna til vanmáttar við að setja …
Það er eðlilegt að finna til vanmáttar við að setja kærleiksrík mörk. Sér í lagi þegar að hegðun makans er að meiða. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Kona sendir inn bréf til Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafa þar sem hún spyr hvernig er best að setja heilbrigð mörk. Eiginmaðurinn hennar er í virkri fíkn og hún leitar leiða við að vera hluta af bata hans en ekki vandamálinu.

Sæl.

Mig langaði að vita hvernig er best að snúa sér tengt því að setja heilbrigð mörk. Málið er að eiginmaðurinn minn drekkur áfengi án þess að hafa stjórn á því. Hann gerir það alls ekki oft á ári, en þegar hann gerir það, þá meiðir hann okkur öll í fjölskyldunni (andlega). Eins þá hef ég tekið eftir því að hann horfir á klám. Ég hef rætt það við hann en hann segir að það sé ekki vandamál. Mér finnst það hins vegar óþægilegt og langar að finna leiðir til að sjá hvort hann sé til í að skoða þetta mál betur.

Ég veit ekki hvað það er en þetta með klámið, meiðir mig meira en áfengið. Veit að samfélagið samþykkir seinni hegðunina betur en þá fyrri. En mér finnst það sem er í boði á þessum rásum sem hann er á þannig að ég er ekki róleg með hann í kringum börnin eða barnabörnin eftir slíkt áhorf.

Finnst erfitt að koma þessu frá mér en mig vantar stuðning og að vita hvað er best að gera.

Kveðja, O

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl.

Takk fyrir að senda inn þetta bréf. Það er margt í bréfinu sem snertir við mér og meiri sannleikur í því en þú heldur. 

Þegar einstaklingur er að gera hluti sem meiðir þá sem hann elskar mest, þá er líklegast stjórnleysi sem býr þar að baki. Hugmyndir samfélagsins um hvað er eðlilegt og hvað ekki, er eitthvað sem við getum aldrei yfirfært á okkar eigið tilfinningalíf. Það er misjafnt hvaðan fólk er að koma og hvernig það upplifir hlutina.

Ef þú sest niður með maka þínum og opnar á tilfinningar þínar. Ekki fyrir hann að samþykkja heldur meira til að segja honum hvernig þér líður, hvað það er sem meiðir þig og fjöskylduna og hvað ekki, þá ertu að stíga fyrsta skrefið í því að setja kærleiksrík mörk. 

Þegar við setjum kærleiksrík mörk, getum við einvörðungu gert það fyrir okkur og börnin okkar. Síðan er það eiginmanns þíns að ákveða hvað hann ætlar að gera í kjölfarið. 

Að gera sambandssamning er alltaf góð hugmynd að mínu mati og að halda í mýktina og kærleikann í þessu sambandi. Þú gætir hins vegar viljað fara til ráðgjafa að sjá fyrir þér mörkin þín, hvað þú ert tilbúin í og hvað ekki. Það er svo mikið auðveldara að bregðast við of fljótt en of seint í þessu sambandi.

Að mínu viti þarf sambandssamningur að vera lifandi samningur sem þarf að endurskoða reglulega. 

Það hversu oft eiginmaðurinn þinn drekkur skiptir ekki máli, heldur hvernig honum líður þegar hann er ekki að drekka. Það hvort klám eða áfengi meiðir þig meira, skiptir heldur ekki máli. Ekkert af því sem meiðir þig ætti að vera í gangi í hjónabandinu þínu. Ef aðilinn sem þú ert með hefur ekki stjórn á þessu, getur hann alltaf fundið leiðir til að fá aðstoð við slíkt. Það gerir hann þegar þú setur kærleiksrík mörk og heldur áfram að tala um hvernig þér líður. 

Að vera með maka í virkri fíkn er mikil áskorun. Það hefur vanalega mikil áhrif á aðstandendur sem margir hverja leita skjóls í mat, eða annarri óheilbrigðri hegðun án þess að vilja það. Þegar fólk er með tómleika sem það fyllir með sem dæmi áfengi eða klámi - hefur það áhrif á aðstandendur. Það þarf ekki sérfræðing að benda á slíkt. Dæmin eru til staðar hvert sem við lítum í samfélaginu. Enda fíkn í fjölmörgum fjölskyldum.

Ég er sammála þér þegar kemur að stjórnleysi tengt ástar- og kynlífsmálum. Samfélagið og í raun heimurinn allur er mörgum áratugum á eftir í þeim málum, heldur en málum er varða sem dæmi alkahólisma. 

Það ætlar án efa enginn að detta í klám, þannig að það hafi slæm áhrif á samböndin sem þeir eru í eða jafnvel taki athygli frá atvinnu eða áhugamálum. En það er til bati á þessu sviði eins og fleiri sviðum. Ég mæli hins vegar með því að eiginmaðurinn þinn finni sér góðan ráðgjafa eða sálfræðing sem hefur reynslu á þessu sviði, eða leiti í viðeigandi 12 spora samtök fyrir stuðning. Ég mæli með að hans ráðgjafi sé karlmaður með reynslu af stjórnleysi á þessu sviði, aðili sem er í góðum bata sjálfur og kann leiðina í bata. 

Fíkn er flókið fyrirbæri, en alls ekkert svarthol að mínu mati.

Ég vona að þið hjónin náið að elska hvort annað án skilyrða og finnið leið til að vinna í hjónabandinu. Ég held að það gæti verið stóra áskorunin í lífi ykkar beggja núna. Að elska er sögn sem lýsir hegðun. Kærleiksrík mörk er - eitt fallegasta framlag til ástar að mínu mati.

Gangi þér alltaf sem best. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál