„Grunar að hún sé siðblind“

Það getur verið erfitt að vera í sambandi með aðila …
Það getur verið erfitt að vera í sambandi með aðila sem er í virkri fíkn. mbl.is/Thinkstockphotos

Karlmaður spyr Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafa um siðblindu. Hann hefur átt í sambandi við manneskju í nokkur ár sem hann grunar að sé siðblind. 

Sæl. 

Er möguleiki á að þú getir frætt mig um siðblindu og/eða borderline persónuleikaröskun? Ég hef átt í sambandi við manneskju í þó nokkur ár og mig grunar að hún sé siðblind eða jafnvel með alvarlega persónuleikaröskun.

Manneskjan beitir andlegu ofbeldi, hótunum, lygum, ósönnum fullyrðingum og kúgun til að fá sínu framgengt í samböndum. Hún er alltaf fórnarlamb alls og allra og á langa sögu um það frá æsku. Það er einfaldlega hlutverk sem hún annaðhvort velur sér eða getur ekki að gert vegna veikinda. Hún einfaldlega „ER BARA SVONA“. Það vantar í hana alla rökhyggju, samtalshæfni, samúð eða hæfileikann að setja sig í spor annarra. Það er ekki hægt að rökræða við hana því hún hefur alltaf rétt fyrir sér. Hún ásakar margt fólk um alvarlega hluti eins og líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi í gegnum líf sitt frá unglingsaldri.

Manneskjan notar áfengi, vímuefni og er þekkt fyrir að vera lauslát. Hún hefur svona óábyrga kynlífshegðun. Þrátt fyrir að stunda mikið kynlíf með mörgum aðilum segist hún hafa lent í fjölmörgum nauðgunum yfir ævina. Samt virðist óábyrg kynlífshegðun ekki vera vandamál hjá henni. Það er eins og hún leiki fórnarlamb en er í raun gerandi. Það er eins og hún fái eitthvað út úr því að fá vorkunn eða samúð. Hún lýgur um ofbeldi til að fá samúð. Hún er fórnarlamb alheimsins. Er þetta siðblind hegðun? Eða er þetta eitthvað annað? Hún virðist ekki gera sér grein fyrir afleiðingum orða sinna og gjörða, eða vera bara alveg sama um það.

Kv, M

Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæll M

Ég gæti frætt þig um siðblindu og/eða jaðarpersónuleikaröskun, þegar þú hefur sagt mér af hverju þú velur að vera í sambandi við svona manneskju.

Ég hef oft fengið til mín fólk í ráðgjöf sem hefur farið á milli sálfræðinga með einmitt svona sögur af ástvini sínum. Þeir segja fagfólk búið að greina persónuna jaðarpersónuleika (þrátt fyrir að hún hafi allan tímann verið fjarverandi). Ég veit um einn mann sem hitti sálfræðing reglulega í 8 mánuði að ræða fyrrverandi maka sinn. Þessi aðili gaf sérfræðingnum aldrei færi á að skoða hvað amaði að hjá honum sjálfum. 

Sumir festast á þessu stigi gremjunnar og halda þannig þeim sem þeir elska nálægt sér. 

Að því sögðu langar mig að segja að saga hennar er ykkar saga. Tjáning þess sem þú sérð út frá þinni hugsun og upplifun. 

Mig langar að beina sjónum að þér og útskýra hvað ég tel vera áhugavert fyrir þig að skoða. 

Ástar- og kynlífsfíkn er málefni sem samfélagið hefur litla þekkingu á almennt. Nú veit ég ekki hvort samband þitt við þennan einstakling sé ástarsamband, vinarsamband eða fjölskyldusamband. En ef þú ert í sambandi við einstakling sem er haldinn ástar- og kynlífsfíkn eru miklar líkur á að þú sért sjálfur í stjórnleysi á því sviði. Eins er hægt að vera meðvirkur ástarfíklum eða fíkinn í ástarfíkla svo eitthvað fleira sé nefnt (e. co-dependent, co-addict).

Grunneinkenni ástar- og kynlífsfíknar er að kunna ekki að setja heilbrigð mörk þegar einstaklingurinn tengist öðru fólki kynferðislega eða tilfinningalega. Þegar einstaklingur fer í ástarsamband án þess að kynnast hinum aðilanum fyrst. Fólk leitar aftur í sársaukafull og mannskemmandi sambönd vegna þess að það er hrætt við að vera eitt og yfirgefið. Þá er oft skortur á þekkingu á hvað ást er og þörf fyrir að bjarga einhverjum eða að einhver bjargi þeim einnig hluti skýringar.

Manneskju sem er haldin ástar- og kynlífsfíkn finnst hún innantóm og ófullkomin þegar hún er ein. Síðan er eitt einkenni þessarar fíknar að nota kynlíf og tilfinningalega meðvirkni í staðinn fyrir umhyggju og stuðning. Fólk leysir stundum eftirfarandi tilfinningavandamál með kynlífi: Streitu, sektarkennd, einmanaleika, reiði, skömm, ótta og öfund. 

Fólk með ástar- og kynlífsfíkn er vanmáttugt við raunverulega nánd og elskar sjálfa sig og aðra með skilyrðum. Orsökin er vanalega í æsku einstaklinganna, skilyrt ást og/eða fjarvera foreldra. Þessir einstaklingar upplifa þá skort á ást í æsku og halda síðan áfram að viðhalda kvölinni. 

Ég hvet þig til að skoða hvað þú ert að flýja, með því að vera í sambandi við svona einstakling.  Ást er ákvörðun. Að velja að elska sjálfan sig án skilyrða er sjálfsagt að mínu mati og væri alltaf fyrsta verkefnið sem ég myndi byrja að vinna með í þínum sporum. 

Eftir að þú hefur náð tökum á því raðast allt annað í lífinu fallega saman. Það getur verið erfitt að fara í sjálfsvinnu þegar okkur finnst hinn aðilinn vera vandamálið. En þegar við erum komin á góðan stað sjálf höfum við ekki val um að umgangast fólk sem er að hafna sér og öðrum.

Þú átt allt hið besta skilið. 

Gangi þér vel. 

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is