10 lífsreglur Karamo Brown úr Queer Eye

Karamo Brown er vinsæll ráðgjafi sem þykir einstaklega góður í …
Karamo Brown er vinsæll ráðgjafi sem þykir einstaklega góður í því að fá fólkt til að opna sig.

Karamo Brown er félagsráðgjafi að mennt sem notar sálgreiningu þegar hann starfar með fólki. Hann er þekktur fyrir hlutverk sitt í Queer Eye þáttaröðinni á Netflix. Í þáttunum fær hann fjóra daga til að kynnast fólki og komast að kjarnanum í hverri persónu. Hann hefur starfað sem ráðgjafi í tíu ár og er í stöðugri vinnu með sjálfan sig.

Sagan hans er áhugaverð. Hann varð fíkinn í hugbreytandi efni þar með talið kókaín og klám 16 ára aldri. Hann var í daglegri neyslu í mörg ár, en snéri lífi sínu við og fékk aðstoð þegar hann fékk bréf frá vinkonu sinni um að hann ætti barn með henni.

Í dag er hann einstæður faðir tveggja drengja, börnin eru systkini en hann er líffræðilegur faðir annars þeirra. Hann er trúlofaður unnusta sínum og ætlar að gifta sig á næsta ári.

Markmið hans í lífinu er að vera góð fyrirmynd fyrir börnin sín og að aðstoða aðra við að lifa góðu lífi. Þegar kemur að menningu finnst honum innihaldslítið að fara á listasöfn ef maður getur ekki elskað sjálfan sig án skilyrða. Hann segir ást og tilfinningar hluti af menningu.  

Hér verður haldið áfram að skoða hvað þeir sem hafa breytt sam­tím­an­um hafa fram að færa. 

Menning

„Í mínum huga er menning svo mikið meira en einungis listasöfn og ballettsýningar. Mér finnst menning fólgin í því hvernig okkur líður með okkur og aðra. Ég hef þurft að vinna mig út úr rasisma, því að vera samkynhneigður og meðvirkur. Út úr andlegu- og líkamlegu ofbeldi og fíkn. Ég lifi innihaldsríku menningarlegu lífi í dag þar sem ég er tveggja barna faðir og starfa með fólki. Þar sem ég fæ það til að opna sig og útskýra af hverju það sinnir sér ekki og elskar sig án skilyrða.“

Um að ná til karlmanna

„Þegar ég er að vinna með konum þá horfi ég í augun á þeim til að tengja við þær. Karlmenn eru öðruvísi. Þeim er kennt að herða sig og loka á tilfinningar sínar. Besta ráðið sem ég kann til að opna karlmenn tilfinningalega er að fara með þá út að keyra. Þannig slaka þeir á og opna tilfinningar sínar. Ég mæli með þessari aðferð fyrir alla karla.“

Ábyrgð á eigin hamingju

„Ástæðan fyrir því að ég vakna hvern dag hamingjusamur er að ég geri ákveðna hluti áður en ég fer að sofa. Ég æfi mig í að segja á kvöldin: Ég er góður, ég á allt gott skilið.

Ég ólst upp við ofbeldi í æsku og upplifði höfnun í æsku. Ég þurfti að læra að hugsa öðruvísi til að eignast lífið sem ég vildi. Svo ég þurfti að læra að þakka fyrir reynsluna og vilja eitthvað meira. 

Ég segi þessa hluti upphátt svo synir mínir heyri. Þannig kenni ég þeim hvernig er gott að tala við sig og þeim finnst eðlilegt að hugsa fallega til sín eins og ég geri til mín.“ 

Um að vera samkynhneigður

„Frá því ég var ungur þá man ég eftir því að hafa fundið öðruvísi tilfinningar þegar strákar snertu sem dæmi höndina á mér en stelpur. 

Þegar ég prófaði mig áfram með konu þá gerði ég það með stelpu sem var besta vinkona mín. Ég treysti henni fullkomlega en fann um leið og ég svaf hjá henni að þetta var ekki það sem mig langaði að gera oftar. 

Við eignuðumst barn saman vegna þessa og það er ég þakklátur fyrir. Þarna ég fékk staðfestingu á að ég er meira fyrir karlmenn.“

Um fordóma

„Þeim sem er illa við homma, fólk af öðrum kynstofni en þeir sjálfir eða af öðru kyni eru hópur einstaklinga sem eru allir að kljást við það sama. Þetta fólk hefur verið bælt sjálft og hefur því þörf fyrir að bæla aðra. Með öðrum orðum, þeir sem hafa verið særðir særa aðra.“

Um að vera karlmaður

„Fötin sem við klæðumst er ekki eitthvað sem gerir okkur að karlmönnum eða hversu djúp röddin okkar er. Heldur persónuleikinn okkar og styrkur okkar til að standa andspænis veröldinni sama hvernig hún kemur fram við okkur og finna styrkinn til að elska og vera til staðar fyrir aðra.“

Um að þora að biðja um aðstoð

„Ég er alltaf að segja fólki að ég þoli ekki orðatiltækið; að „feika“ það þar til maður „meikar“ það. Þetta er einmitt það sem ég þoli ekki við samfélagið okkar. Við erum öll á samfélagsmiðlum í dag að varpa þessu fram. Við eigum ekki að þykjast vera eitthvað annað en við erum. Þetta er það sem er að búa til kvíða og stress hjá okkur. Hvað með að við biðjum um aðstoð þar til við meikum það?“

Dagurinn í dag

„Fólk er alltaf að taka frá okkur. Þú þarft að stoppa þessa aðila og segja: Ekki í dag. Í dag ætla ég ekki að gefa öðrum. Í dag ætla ég að gefa mér það sem ég á skilið. Við erum alltaf að gefa, börnunum okkar, vinnunni, maka okkar.  Prófaðu að nota daginn í dag til að gefa þér það sem þig langar í. Skóna sem þig hefur dreymt um, kökuna sem þig langar í, bara hvað sem er. Í dag áttu að gefa þér það sem þú átt skilið.“

Að fara aftur í lélegt samband

„Stundum vitum við betur þegar kemur að sambandi sem ekki gengur upp en stundum er erfitt að fara. Í enda dagsins þarftu samt alltaf að velja sjálfan þig. Svo ef sambandið sem þú ert í, eða varst í, gerir þig óhamingjusama/óhamingjusaman verður þú að gera áætlun um að fara. Þú getur beðið um aðstoð, við að velja þig frekar en einhvern annan. Finndu vin sem getur stutt þig í því.“

Að færa gleði inn í lífið

„Ein jákvæð manneskja getur breytt andrúmsloftinu í kringum okkur. Af hverju prófar þú ekki að vera sú/sá sem kemur þér og öðrum í gott skap í dag. Þannig getur þú upplifað æðislegan dag og fólkið í kringum þig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál