Ertu til í ást sem endist?

Ást sem endist ætti fyrst að koma frá okkur og …
Ást sem endist ætti fyrst að koma frá okkur og svo frá öðrum. mbl.is/Thinkstockphotos

Þegar sambönd ganga ekki upp er auðvelt að fara í ásökunargírinn og búa til teymi utan um hugmyndina að fyrrverandi kærasti eða eiginmaður sé ömurlegur. 

Slíkt getur viðhaldið sársauka úr sambandinu og verið jafn niðurdrepandi og skilnaðurinn sjálfur. 

Í staðinn fyrir að kenna öðrum um er gott að skoða hlutina út frá hvað við hefðum getað gert betur sjálf. 

Eftirfarandi leiðir virka vel til að laða til sín ást sem endist. Greinin er unnin upp úr efni sem birtist á vef Elephant Journal.

1. Samþykktin

Við getum aldrei stjórnað öðru fólki, einungis okkur sjálfum. Margir stofna til sambands með fólki sem það ætlar að breyta. Slíkt gengur aldrei upp. 

Til að samþykkja aðra verður maður að samþykkja sjálfan sig. Að samþykkja sig þegar maður er góður, en líka þegar maður er leiðinlegur er lykilatriði hér. Það eina sem við getum gert gagnvart öðrum er að taka ákvörðun um hvort maður vill þessa persónu eins og hún er. 

2. Fyrirgefningin

Fólk er alls konar. Sumir vilja vera með okkur og aðrir ekki. Þegar fólk fer frá okkur verðum við að sleppa og treysta að dagurinn sé eins og hann eigi að vera. Ef við höldum í þá sem ekki vilja okkur erum við að meiða okkur. Slíkt dregur úr sjálfsvirðingunni. 

Við erum öll tengd á andlega sviðinu. Þannig að þegar við dæmum eða ásökum aðra, erum við að dæma og ásaka okkur sjálf. Þetta er lögmálið um orsök og afleiðingu. 

Það er auðvelt að samþykkja þá sem vilja okkur, en áskorunin er að samþykkja þá sem vilja okkur ekki. Þegar kemur að ást ætti hún ekki að vera skilyrt við hvort fólk vilji okkur eða ekki. 

Ef við sleppum og treystum búum við til rými fyrir fólk sem vill okkur í lífinu. 

3. Ábyrgðin

Þegar við erum tilbúin að taka 100% ábyrgð á eigin hamingju verðum við tilfinningalega sterkari og þroskumst hraðar. Við þurfum stöðugt að vera að fyrirgefa, fortíðinni ef þar var fólk sem gat ekki elskað okkur án skilyrða, nútíðinni og framtíðinni. 

Ef við höldum í hatur og vonbrigði erum við að að halda í fólk sem hefur sagt skilið við okkur. Þá erum við að viðhalda þjáningu sem er aldrei gott fyrir okkur sjálf.

4. Nærveran

Í stað þess að spyrja hvort einhver annar sé nógu góður er hægt að spyrja hvort við séum nógu góð. Með því að gefa fólki kærleika gefur þú öðrum rými til að vaxa og dafna í lífinu. 

Ef maki þinn er tilbúinn að vinna í sér getur sambandið haldið áfram inn í framtíðina. Ef maki þinn hefur engan áhuga á að vaxa með sambandinu gæti verið áhugavert að halda áfram í lífinu. Það er aldrei hægt að þvinga fram breytingar hjá öðrum, fólk verður að velja það sjálft. 

Það er auðveldast að elska fólk þegar það gerir hluti sem mann langar að sjá og heyra. Áskorunin er að elska fólk þegar það er ekki að gera þessa hluti. 

5. Þroskinn

Það getur verið gott að spyrja sig reglulega: Ef manneskjan sem mig langar að vera með myndi birtast núna, myndi hún vilja mig?

Fullkomnun er ekki til. Við erum öll með okkar verkefni úr æsku, hjartasár úr öðrum samböndum og þar fram eftir götunum. En fúsleiki og viljinn til að breyta því hvernig við hugsum og hegðum okkur getur gert okkur tilbúin fyrir ást sem endist. 

6. Æðruleysið

Hvernig myndi þér líða ef þú sleppir því að vænta þess að maki þinn sé eitthvað annað en hann er? 

Að vita hvað maður vill fá út úr samböndum er mikilvægt, en það verður að fara saman með hvernig við sjáum okkur vera sem best í samskiptum við aðra. Í stað þess að bíða eftir að hitta hina/hinn einu/a réttu/a ættir þú að finna leiðir til að elska, heiðra og samþykkja þig og aðra algjörlega. 

Til að sjá þetta fyrir sér betur gætir þú skoðað hvernig þú getur undirbúið hjarta þitt, líkama, persónuleika, trú og heimili fyrir sanna ást, þá ást sem þú ert að leita að og þá ást sem framtíðarmaki þinn á skilið að fá. 

mbl.is