Hætt að sofa saman eftir 15 ára samband

Það er verðugt verkefni að vinna í að gera hjónabandið …
Það er verðugt verkefni að vinna í að gera hjónabandið betra. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Kona spyr Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafa hvort hjónabandið hennar til 15 ára eigi einhverja von. Þau eru nánast hætt að sofa saman. 

Sæl

Undanfarið hefur mér liðið eins og það sé ansi stutt í endalokin á 15 ára hjónaband mínu. Við hjónin höfum ekki stundað kynlíf í mjög langan tíma en vegna daglega anna í kringum börnin og vinnu þá er lítill tími og orka eftir fyrir okkur. Þessi kynlífsþurrð hefur síðan undið upp á sig og eyðum við nú kvöldunum í sitthvoru rýminu í húsinu, ég í sjónvarpsherberginu og hann í tölvuleikjaherberginu að spila við vini. 

Ef ég gagnrýni hann fyrir það (eða bara hreinlega eitthvað annað) verður hann stuttur í skapi og pirraður út í mig.  Þessi pirringur kemur líka fram þegar börnin haga sér ekki vel með tilheyrandi tuð uppeldi. Tuðið skilar sér síðan í lélegri hegðun barnanna og þá sérstaklega við pabba sinn.

Þar sem ég veit oft hvað getur stuðað hann þá finnst mér ég þurfa að umorða hlutina til að koma ī veg fyrir að hann verði önugur þar sem ég nenni hreinlega ekki að hafa hann með neikvæða orku í kringum mig. 
Mín spurning er hvort það er einhver von fyrir okkur að bjarga því sem bjargað verður, eða hvort betra sé að halda áfram í sitthvoru áttina?

Kveðja, XX

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir að senda inn þetta bréf. 

Ég held að það sé alltaf hægt að gera hjónabönd betri og að sjálfsögðu á það við í þínu tilviki líka. Bréfið gefur mér vísbendingu um að þið séuð ekki með sambands samning. Það gefur til kynna að hægt er að aðstoða ykkur þegar kemur að nánd, trausti, heiðarlegum samskiptum og að setja mörk. Þið getið að sjálfsögðu snúið þessu með kynlífið við líka. 

Sambandssamningur getur verið mjög ýtarlegur og verið annars vegar hver gerir hvað á heimilinu. Samningur um uppeldisaðferðir og hvernig þið viljið koma fram við hvort annað og aðra. 

Eins finnst mér mjög áhugavert að aðstoða pör í að gera samning þegar kemur að nánd og kynlífi. Hversu oft viljið þið fara á stefnumót saman? Hversu oft viljið þið eiga nánar stundir bara þið tvö. Hvað finnst ykkur gaman að gera saman og fleira í þeim dúrnum. 

Þegar kemur að kynlífi þarf fólk að hafa virkilega mikla sjálfsvirðingu og ást í sinn garð til að eiga skilið að upplifa fallegar og góðar stundir með þeim sem þeir ákveða að elska. 

Ef þið hjónin náið að snúa hjónabandinu við getur það einnig orðið áhugaverð lífsreynsla fyrir börnin ykkar. 

Við erum öll með bresti, þó okkur finnist oft auðveldara að sjá þá í öðrum en okkur sjálfum. 

Það er nóg að þú ákveðir að standa með þér og hjónabandinu þínu og leitir þér aðstoðar sjálf. Ef eiginmaðurinn þinn er til í þetta verkefni með þér líka þá er það bónus. 

Þið getið sem dæmi gert samning um að vinna í ykkur í sitthvoru lagi í þrjá mánuði, að í þann tíma takið þið ekki neinar ákvarðanir um framtíðina og út frá því getið þið komið saman og gert góðan samning sem getur gert alla í fjölskyldunni ánægðari. 

Þú og þið eigið það svo sannarlega skilið. Að gera garðinn og grasið grænt hjá ykkur. 

Það finnst mér heilbrigt og fallegt. 

Gangi ykkur vel.

Kveðja,Elínrós. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál