„Vinurinn tvívegis lamið barnið“

Það er réttur allra barna að fá að alast upp …
Það er réttur allra barna að fá að alast upp við heilbrigð samskipti. mbl.is/Thinkstockphotos

Móðir sjö ára drengs sendir inn erindi þar sem hún er að velta fyrir sér hvernig sé best að snúa sér í máli er varðar vin sonarins. Vinurinn er að meiða barnið og önnur börn í skólanum. 

Sæl.

Sjö ára barnið mitt á vin til margra ára, vinskapurinn er náinn og góður.  En hitt barnið er skapstórt og á erfitt með að hemja sig, það hefur verið undir einhverskonar eftirliti í skólanum. Ég var að vona að með aldrinum myndi þetta minka. Nú koma mæður annarra barna til mín og segja mér að þeirra börn þori ekki að leika við mitt barn vegna skapofsa vinarins.

Barnið mitt kom heim og sagði vin sinn hafa hrint sér tvisvar sinnum þann daginn - annars vegar því það reiddist þegar það heyrði ekki svar við spurningu og hélt sig hundsað. Hitt skiptið því barnið mitt klukkaði það í eltingaleik. Áður hefur vinurinn amk. tvívegis lamið barnið mitt. Barninu mínu líður illa með að segja frá þessu og vill ekki að vinurinn sé skammaður. Barnið mitt segir, „x er gott barn, hann er besti vinur minn. Það kemur enginn milli mín og x.“ Hvernig er best að snúa sér í þessu? Hvað á ég að segja við barnið mitt og hvernig er best að vinna með svona í skólanum og með foreldrum hins barnsins?

Með kveðju, ráðalausa mamman.

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl. 

Takk fyrir að senda inn bréfið. Svona mál reyna á meðvirkni og fara vanalega inn í hjartað á foreldrum sem vilja það besta fyrir börnin sín en vita ekki leiðina áfram. 

Það sem ég mæli með að gera í svona aðstæðum er að byrja að raða og flokka. Svona mál leysast aldrei á viku, en geta gefið þér innsýn inn í hvar þið foreldrarnir standið sterk og hvar væri hægt að styðja ykkur við að standa betur með ykkur. 

Ég tel heilbrigt og eðlilegt í þessari aðstöðu að skoða það sem er að gerast sem raunverulegt verkefni sem þarf að leysa. Þú og faðir barnsins þíns, hafið tækifæri á að skoða, hversu góðar fyrirmyndir þið eruð í að setja kærleiksrík mörk og vernda ykkur. Það sama má segja um börnin ykkar. Mér finnst börn þeirra sem ég vinn með vanalega nokkrum dögum á eftir í að tileinka sér allt það sem foreldrarnir læra um meðvirkni og heilbrigð samskipti hjá mér. Ef foreldrarnir elska sjálfan sig án skilyrða fá börnin leyfi til að gera hið sama. Ef foreldrarnir eiga allt hið besta skilið, eiga börnin það líka. Ef foreldrarnir stíga út úr samskiptum sem meiða, gera börnin hið sama. 

Ef þið eruð dugleg í að elska hvort annað án skilyrða, þá er ólíklegt að börnin ykkar velji að vera í nánum samskiptum við önnur börn sem meiða. Skilyrtu vinskapur (eða ást) er einmitt þegar manni er refsað fyrir að gera „ranga“ hluti og hrósað fyrir að gera „rétta“ hluti. 

Ef þú skoðar hvað heilbrigt og eðlilegt vinasamband gengur út á - þá er það vanalega að fá að vera manneskja með annarri manneskju (með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir). Hver tekur ábyrgð á sér og sinni hegðun. Ef vinur okkar er fúll, þá verður það að vera á hans ábyrgð. Ef við erum fúl, þá er það á okkar ábyrgð. Meðvirk samskipti ganga svo út á óskýr mörk, óheiðarleika, þegar annar aðilinn er settur á stall og hinn setur undir. Í meðvirkum samskiptum er ábyrgð óskýr og samheldni óeðlilega mikil eða lítil. 

Að láta sem þetta mál sé í lagi, að breiða yfir og þora ekki að ræða og komast að samkomulagi er meðvirkni að mínu mati. Að leysa þetta í kærleik og með skilningi án þess að dæma finnst mér heilbrigt. 

Það er eðli barna að gera mistök, fá að prófa sig áfram, læra og leiðrétta. Ég hef aldrei séð hegðunarvanda læknast að sjálfum sér eða slæm samskipti verða betri, nema unnið sé markvisst í því. 

Veruleiki íslenskra barna er allskonar. Börn eru dásamleg, dýrmæt og viðkvæm. Það er okkar fullorðna fólksins að vernda börnin okkar og annarra þegar við sjáum að um augljósan vanda er að ræða. 

Ef þú heldur áfram í þessari vegferð og skoðar viðbrögðin sem þú færð með það að leiðarljósi að leysa málin. Muntu fljótt sjá, að þar sem þú mætir skilningi, þar er þekking. Þar sem þú mætir skapofsa, þar er vanmáttur. 

Það er mikil ást fólgin í því að setja heilbrigð mörk. Að stoppa það sem meiðir er sjálfsagður réttur allra lifandi vera.

Gangi þér sem allra best í þessari vegferð. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál