Móðirin segir að barnið sé slys

Lífið býður upp á marga möguleika til þess að vaxa …
Lífið býður upp á marga möguleika til þess að vaxa og dafna sem manneskja. Það að eldast er ekki það sama og að þroskast. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Elínrós Líndal fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem er ósáttur við samskipti sín við fyrri maka. 

Komdu sæl Elínrós.

Ég fór í gegnum mjög erfitt umgengnismál fyrir ekki svo löngu síðan. Því máli er nú lokið og ég og barnsmóðir náðum samkomulagi og allt hefur gengið mjög vel síðan. En þegar á umgengismálinu stóð reyndi barnsmóðir að gera allt sem í hennar valdi stóð til að mála eins ljóta og neikvæða mynd af mér og hugsanlegt væri til að fá sínum vilja framgengt í þessu máli, eins og að ég hefði átt að hafa beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi sem er ekki satt. Það sem særði mig mest var ekki allt það neikvæða og ljóta sem hún sagði um mig, heldur ljót og tilgangslaus lygi um dóttur okkar. 

Hún sagði að seinna barn okkar hefði verið „slys“. Sannleikurinn er sá að hún bað mig um annað barn. Og þegar ég var tvístígandi sagðist hún ætla að fara þá bara sína sérleið til að eignast það. Á endanum samþykkti ég að eignast annað barn og eignaðist þessa yndislegu dóttur sem ég elska af öllu mínu hjarta.

En í umgengnismálinu sagði hún þetta um dóttur okkar til að láta líta út hjá sýslumanni eins og hún hefði bara ákveðið að vera lengur í sambandinu af því hún hefði orðið ófrísk.

Spurning mín er þessi: 

Hvernig getur móðir logið um að barn hennar hafi verið slys? Mér finnst það svo ógeðslega ljótt og sárt að hún hafi sagt þetta án þess að blikka auga og vitandi betur. Siðferðilega séð; hvernig er þetta hægt?

Og hvað get ég gert til að fara ekki aftur í samband með manneskju með þessa dökku eiginleika í sér?

Kv, stoltur faðir.

Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæll. 

Takk fyrir að senda inn bréfið. Ég ætla að lána þér dómgreind mína á þetta mál.

Það er ákveðinn fúsleiki fólginn í skrifum þínum, sem segir mér að þú værir tilbúinn að gera ýmislegt til að upplifa eitthvað annað. Ef þú staldrar við það og áttar þig svo á því að þú getur aldrei breytt öðrum, getur þú haldið af stað í vegferð sem er falleg og þín.

Það er auðvelt að hvíla í fallegum tilfinningum þegar vel gengur í lífinu. En hver verðum við þegar á móti blæs? Getum við samþykkt það, talað um það, velt því upp og fundið betri leiðir? Sætt okkur við fortíðina og haldið áfram? Getum við elskað okkur þegar á móti blæs? Þegar við gerum mistök? Þegar við erum ekki besta útgáfan af okkur?

Ég er á því að það sé hægt svo framarlega sem við finnum okkur góðan fagaðila til að skoða hvaðan við erum að koma og hvert við viljum fara. Ef þú hefur hugrekki til þess að treysta einhverjum fyrir öllum þínum málum, prófaðu þá á að byrja að skoða sambandssöguna þína. Hvernig komstu þér í þessi sambönd? Hvað kom upp sem kalla mætti bresti þína í þessu samhengi? Hvað er það ljótasta sem þú hefur gert? En það fallegasta? Hverjir voru styrkleikar þínir í sambandinu? 

Ég held að viðbrögðin þín og barnsmóður þinnar séu eðlileg miðað við hvaðan þið eruð að koma.

Það deila margir þeirri reynslu í lífinu að segja hluti sem þeir vildu ekki hafa sagt, eða að gera hluti sem þeir vildu ekki hafa gert. Lífið er með alls konar verkefni og þótt þú náir að finna þér annan maka þá máttu alveg búast við verkefni með þeim aðila líka. 

Ef þú hins vegar nærð tökunum á því að elska sjálfan þig án skilyrða og að setja heilbrigð mörk í kringum þig og börnin þín, muntu að mínu mati laða til þín einstaklinga á sama stað. Þegar þú hefur fundið þér góðan félaga tel ég mikilvægt að þú haldir áfram að vinna í þér og skoða þína hlið málanna. Að gera sambandssamning er góð hugmynd og síðan ákveða hvaða viðbrögð þig langar að sýna fólki sem þú hefur ákveðið að elska. Alveg sama hvaða viðbrögð það sýnir þér. 

Það er veruleg sjálfsvirðing fólgin í því að geta vandað sig í framkomu sinni við aðra. 

Gangi þér sem best og gefðu þér góðan tíma og mikið sjálfsmildi í þetta ferðalag. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is