Kann að meta konur sem sigra karlaveldið

Linda segir verkefni lífsins mæta öllum í lífinu en við …
Linda segir verkefni lífsins mæta öllum í lífinu en við séum að sjálfsögðu misgóðir leikarar. mbl.is/Árni Sæberg

Linda Baldvinsdóttir pistlahöfundur sérhæfir sig sem lífsráðgjafi (e life coach), hún er einnig markþjálfi og samskiptaráðgjafi og hefur starfað um árabil með fjölbreyttum hópi fólks. 

Hún lýsir samskiptaráðgjöf sem ferðlagi þar sem einstaklingurinn byrjar á því að vinna í samskiptum við sjálfan sig og æfir sig svo í samskiptum við aðra.

„Þegar kemur að samskiptum við aðra þurfum við að byrja á því að skoða heimsmynd okkar sjálfra. Ég legg áherslu á að efla fólk og styrkja það, þannig að það verði færara í að standa með sjálfu sér, geti sett sér og öðrum mörk og sæki fram. En til þess að geta það tel ég mikilvægt að vita hver maður er. Að mæta sér þannig að maður geti staðið uppréttur, fundið jafnvægi í lífinu og staðið með gildum sínum,“ segir Linda.

Hún hefur áhuga á málefnum er varða kulnum, bæði í einkalífi en ekki síður í vinnu, og býður upp á fyrirlestur ásamt gátlista um málefnið fyrir fyrirtæki og stofnanir.

Þegar sjálfsmyndin er í molum

„Hluti af nútímasamfélagi er allt of mikill hraði, streita og áreiti. Það er ýtt undir fullkomnunaráráttu þar sem við verðum að gera ákveðna hluti og eignast alla skapaða hluti, í stað þess að ýtt sé undir að við veljum inn í líf okkar það sem skiptir máli fyrir vellíðan okkar í lífinu og að við sýnum okkur sjálfum kærleika og virðingu sem við getum síðan miðlað öðrum á lífsveginum.“

Það sem sameinar þá er leita til hennar vegna kulnunar er sjálfsmynd í molum, að hennar sögn. Ástæðan telur Linda að sé hversu erfitt er að uppfylla allar þær kröfur sem til einstaklingsins séu gerðar. 

„Ég fæ einnig til mín fólk þar sem verkefnið er sorg, atvinnumissir, skilnaðir, dauðsföll, veikindi og fleira. Ég er á því að við séum ennþá með umhverfi og aðstæður sem skapaðar voru í kringum iðnbyltinguna. Að við séum ennþá á því hamsturshjóli.

Sem dæmi get ég nefnt konu sem vinnur fullan vinnudag og reynir síðan að vera fullkomin húsmóðir, móðir, dóttir og eiginkona ásamt því að standa sig einnig á félagslega sviðinu. Svona konur brenna út því enginn einstaklingur er fær um að sinna 100% framlagi á öllum sviðum lífsins samtímis.“

Linda telur tól markþjálfunar nýtast vel til að aðstoða fólk við að taka ábyrgð á eigin hamingju og framtíð. Hún hefur 12 ára reynslu af því að starfa sem markþjálfi og hefur unnið að því að auka vitund almennings um gildi markþjálfunar.

„Ég hef mikla trú á markþjálfun og sem dæmi er Markþjálfunardagurinn barnið mitt og hugarfóstur og varð að veruleika með aðstoð frábærra frumherja. Með þeirri vitundarvakningu sem hefur skapast í kringum daginn hefur orðið aukin meðvitund hjá almenningi og fúsleiki til að leita sér aðstoðar þegar verkefni lífsins dynja á. Hér á árum áður mátti helst ekki tala um þessi hluti. Verkefnum lífsins var haldið frá og sópað undir teppi. Í dag er meiri einlægni og fólk er opnara. Að sjálfsögðu erum við misgóðir leikarar og sumir virðast vera með allt á hreinu og með allt í toppstandi en ég tel að ekkert okkar sé nú alveg með þetta.“

Það eru verkefni í öllum húsum

Linda segir að þegar hún byrjaði að starfa sem ráðgjafi hafi hún talið að í tíunda hverju húsi í bænum væru einhver verkefni að koma upp á. Í dag er hún á annarri skoðun.

„Ég tel að öll hús geymi einhver miserfið verkefni, í það minnsta væri það mikil heppni ef eitthvert hús slyppi.“

Linda Baldvinsdóttir segir erfitt að uppfylla allar þær kröfur sem …
Linda Baldvinsdóttir segir erfitt að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til einstaklingsins í samfélaginu. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar kemur að ástríðunni fyrir að aðstoða fólk við verkefni lífsins segir hún það mikið tilkomið vegna þeirra verkefna sem hún hefur haft og fengið í lífinu.

„Ég hef gengið í gegnum margt í lífinu og man þegar ég hugsaði: Af hverju er ég, þessi góða stelpa, að fá svona mörg áföll og verkefni í lífinu? Þessi verkefni hafa þó kennt mér svo margt gott og gefið mér þrautseigju, að standa upp, aftur og aftur, og vinna mig í gegnum það sem lífið færir mér og vita að allt samverkar okkur til góðs með einhverjum hætti að lokum.“

Linda lýsir því hvernig hún starfar á þann hátt að hún hittir fólk í einkatíma þar sem línurnar eru lagðar.

„Í þessum tíma fæ ég að kynnast manneskjunni, hver hún er, hver verkefni hennar eru og síðan gerum við áætlun um verkefnavinnu, förum í sjálfsskoðun og finnum leiðina til að lifa í lausninni.“

Ættmóðir sem býr við strendur Ítalíu

Linda er sjálf komin yfir miðjan aldur, þótt hún sé frekar tímalaus að sjá og ung í anda. 

„Ég er 58 ára gömul og lýsi sjálfri mér sem mikilli fjölskyldukonu. Ég er í nýju hlutverki núna. Ég á þrjú börn sem öll eignuðust barn á einu ári. Ég átti fimm barnabörn fyrir þannig að fjölskyldan er orðin skemmtilega stór. Lífið snýst um fjölskylduna og starfið mitt í dag. Ég held að ég muni aldrei hætta að vinna; verð að störfum eins lengi og ég get. Þegar ég kemst á eftirlaunin langar mig að skrifa bækur og búa í litlu húsi niðri við strönd á Ítalíu eða Portúgal. Börnin mín og barnabörn gætu svo komið í heimsókn á sumrin til ættmóðurinnar.“

Um fyrirmyndir í lífinu horfir Linda sér nær og nefnir ömmu sína Sigurborgu.

„Amma heitin var ung að aldri þegar hún var greind með parkisonssjúkdóminn. Hún lét það hins vegar ekki stoppa sig og gerði ýmislegt sem hún hefði líklega ekki átt að vera fær um. Hún var jákvæður viskubrunnur og heimspekingur sem hafði húmorinn í lagi og passaði upp á að hafa félagslega þætti lífsins í lagi. Hún var þrautseig og mikil fyrirmynd.“

Konur sem hafa sigrað karlaveldið heillandi

Eins heilla Lindu konur sem hafa þurft að upplifa ýmislegt í lífinu.

„Konur á borð við Mayu Angelou, Oprah Winfrey og Ellen. Konur sem hafa sigrað mýtur í heiminum og tekið sér stöðu á eigin forsendum. Konur sem hafa sigrað karlaveldið og staðið með sér alla leið.“

Um að breyta til í lífinu segir Linda að sín upplifun sé sú að það sé lítil fyrirstaða í veröldinni ef vilji og þrautseigja séu fyrir hendi. Fyrirstaðan sé meira innra með okkur sjálfum.

„Við sjálf erum það sem þvælist fyrir. Stígum ekki nóg fram og teljum okkur ekki eiga skilið það besta, erum ekki nóg eða of mikið af einhverju. Síðan þorum við ekki að vera berskjölduð. Ef við erum bara við eins og við erum, einstök pg alltaf nægjanlega góð til að eiga skilið það góða, þá erum við örugg í okkur sjálfum og þá falla þessir múrar um það hvað náunganum finnst um okkur. Að leyfa sér að standa og falla með sjálfum sér og stíga inn í okkar lífsfarveg en ekki annarra er vel þess virði og færir okkur hamingjuna. Enda lífið alltof stutt til að verja því í að hafa áhyggjur af áliti annarra.“

Linda segist geta lært eitthvað nýtt af öllum sem hún hittir. 

„Það er mikil ungdómsdýrkun í dag. Allur aldur hefur þó sinn sjarma að mínu mati, ég tel þó að unga fólkið og hinir eldri þurfi að vinna saman svo að jafnvægi geti orðið. Kjarkurinn, nýjungarnar og viskan eða reynslan ættu semsagt að mætast. Það hafa allir eitthvað gagnlegt til málanna að leggja og mikilvægt er að við sem höfum reynsluna af lífinu séum til staðar fyrir þá sem yngri eru í stað þess að setja alla ábyrgð þjóðfélagsins og upphafningu á þá.“

Þegar hjónabandið verður dans á stilkum rósa

Linda segir hjónabandið áhugaverða stofnun. Hún þekki hvernig það er að tilheyra slíkri einingu en einnig þekkir hún að hafa sagt skilið við hjónabandið og standa á eigin fótum líkt og hún gerir nú sem sjálfstæð þriggja barna móðir og amma.

„Við lifum í svolítið einnota samfélagi og upplifum mörg hver verkefni inni í hjónabandinu sem okkur finnst betra að sleppa við og fá bara nýtt í staðinn og hugsum lítt um það sem tekur við að skilnaði loknum. Að sjálfsögðu er stundum ástæða til að ganga frá hjónabandi og enginn á að vera á stað sem honum líður ekki vel á. Stundum verður hjónabandið svolítið eins og dans á stilkum rósa frekar en blöðum hennar og þá er um tvennt að ræða; laga eða fara. Mér finnst ótrúlega gaman að hjálpa fólki að yfirvinna erfiðleika í hjónabandi, að sjá það vaxa og dafna innan sambands með þeim sem þeir ákveða að elska, virða og annast.“

Linda segir að lífið sé þróun þar sem maður er alltaf að vaxa að visku og reynslu og stöðnun er ekki inni í myndinni.

„Það sem er vinsælt og þykir vera það besta núna er kannski eitthvað allt annað en það sem var vinsælt fyrir tíu árum. Við getum eins gert ráð fyrir allt öðruvísi heimsmynd þegar fram í tímann verður litið; bæði hjá okkur sjálfum og veröldinni allri.

Það er út frá þessari hugmynd sem ég lifi og reyni að læra eitthvað nýtt reglulega sem færir mig nær því að skila mínu til samfélagsins í heild sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál