Kærastan eyddi útborguninni sem átti að fara í íbúðina

Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjöl­skyldu­markþjálfi með sér­hæf­ingu í spilafíkn svarar spurningum lesenda Smartlands. 

Sæl Alma.

Ég hef núna aðeins verið að lesa mér til um spilafíkn og mig langar að spyrja þig varðandi kærustuna mína. Við höfum verið á leigumarkaði en ákváðum að festa kaup á íbúð sem við eigum að fá afhenta núna í byrjun október. Hún átti sparifé þegar við byrjuðum saman fyrir tveimur árum og lagði það í tryggingu á leiguíbúðinni. Ásamt þessari tryggingu á hún eða réttara sagt átti séreignasparnað. Núna þegar ég hef borgað minn hluta af útborguninni er komið að henni að ganga frá greiðslu. Hún átti að fara fram núna í byrjun september og þá kemur í ljós að hún fékk séreignasparnaðinn sinn greiddan og fór með allan þann pening í spilakassa. Til að toppa þetta allt saman kemur í ljós að hún er einnig búin að sleppa því að greiða húsaleigu síðustu þrjá mánuði og hefur líka spilað fyrir þann pening. Ég hafði ekki hugmynd um að hún væri að spila fyrir svona mikla pening.

Ég vissi óljóst af því að hún eyddi tíma í spilakössum en aldrei hvarflaði að mér að þetta væri orðið svona alvarlegt og hún hreinlega gæti eytt svona miklum peningum í spilakassa. Ég er algjörlega ráðþrota, ég elska hana og langar að eyða ævinni með henni, en get ekki með nokkru móti hugsað mér að vera með henni ef þetta verður framtíðin. Mér líður eins og hún hafi svikið mig og er mjög reiður, æstur og satt best að segja brjálaður. Staðan er núna sú að hún segist vera alveg miður sín og vill gera allt sem hún getur en málið er að það leysir ekki málin hvað varðar íbúðarkaupin og mig grunar að hún sé komin í verulegar skuldir sem ég veit ekki af. Hvernig getur manneskja sem ég bý með hagað sér svona? Er mögulegt að hún sé bara hreinlega siðblind eða bara alveg sama?
Kveðja, B

Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi leggur áherslu á spilafíkn.
Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi leggur áherslu á spilafíkn.

 

Sæll B.

Takk fyrir spurningu þína, hún er eðlileg í aðstæðum þínum. Ég vil byrja á að segja þér að ef kærasta þín er spilafíkill, þá er þetta ekki persónulegt gagnvart þér. Hún er hvorki siðblind né alveg sama. Því miður upplifa mjög margir aðstandendur einmitt þessar tilfinningar, að viðkomandi sé bara alveg sama. Á sama tíma og hún er að kljást við vanda sinn á hún sennilega mjög erfitt með að skilja sjálf hvað er í gangi. Flestir ef ekki allir spilafíklar spyrja sig hvað gangi eiginlega að þeim. Oft lýsir fólk fyrir mér að þegar það fer að sofa þá lofar það sjálfu sér að nú sé það hætt og það trúir því einlæglega og undir öllum eðlilegum kringumstæðum myndi það duga.

Oft erum við að tala um einstaklinga sem alla jafna eru mjög markmiðadrifnir, ákveðnir og staðfastir en þegar um spilafíkn er að ræða þá spyr sú fíkn hvorki um vilja né ákveðni. Spilafíkn er sjúkdómur og einstaklingur sem veikist af spilafíkn hefur ekkert um það að segja. Ég vil trúa því að enginn vakni einn sólbjartan mánudag og ákveði að nú séu kjöraðstæður til að spila nánast allt frá sér.

Einstaklingar sem eru mjög langt leiddir í spilafíkn eru yfirleitt búnir að reyna ýmsar aðferðir til að hætta eða minnka skaðann af spilafíkn sinni. Það sem ég ráðlegg ykkur er að setjast niður og skoða hvaða úrræði eru í boði, bæði hvað varðar spilafíkn hennar en einnig sameiginlegar fjárhagsskuldbindingar ykkar. Öllum aðstandendum ráðlegg ég að tryggja sína hagsmuni þegar kemur að fjárhagsskuldbindingum og er ástæða þess mjög einföld: ef þið lendið bæði í verulegum fjárhagsvandræðum getur þú lítið stutt við bakið á henni. Einnig ráðlegg ég þér að leita þér aðstoðar. Í boði eru t.d. fjölskyldunámskeið fyrir aðstandendur spilafíkla (https://www.spilavandi.is/adstandendur). Eins eru að fara af stað Gam Anon-fundir sem eru fyrir aðstandendur spilafíkla. Þau úrræði sem standa henni til boða eru samtalstímar, grúppur og GA-fundir. GA-fundir eru eins og AA-fundir nema fyrir spilafíkla. En fólk sem er tilbúið að gefast upp fyrir spilafíkn sinni, vera heiðarlegt og vinna í sjálfu sér og sínum málum getur lifað góðu lífi án þess að spila og verið í bata frá sjúkdómnum þó svo að hann sé alltaf til staðar, þ.e. haldið honum niðri.

Ég vona svo innilega að þið leitið ykkur aðstoðar og fáið upplýsingar og fræðslu um spilafíkn. Þó svo að þú upplifir ákveðið vonleysi og reiði núna þá líður það hjá og með því að vinna í ykkur báðum þá kemur nýr dagur og ný von. Ég vil minna þig á að það tekur heilmikið á einstaklinga og aðstandendur að glíma við spilafíkn; það er og verður lífsstíll. Eitt viðtal eða einn fundur mun ekki duga til að laga stöðuna. Þó svo þið náið að vinna úr fjármálunum og ganga frá íbúðarkaupunum þá er rótin spilafíkn og hana þarf að vinna með.

Gangi ykkur vel. 

Kveðja, Alma Hafsteins. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ölmu spurningu HÉR. 

mbl.is