Sonurinn vill að foreldrarnir skeri hann úr snörunni

Ljósmynd/Thinkstockphotos.

Alma Hafsteinsdóttir, fíkni- og fjöl­skyldu­markþjálfi, sérhæfir sig í spilafíkn. Hún svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá móður sem veltir fyrir sér hvernig hún eigi að snúa sér. 

Sæl Alma

Sonur minn var að setjast niður með okkur fjölskyldunni og viðurkenna að hann sé haldinn spilafíkn. Jafnframt óskaði hann eftir að við hjálpuðum honum að borga niður skuldir sem hann er búinn að koma sér í. Ég veit ekki mikið um spilafíkn en ég vildi kynna mér hlutina áður en við ákveðum hvað skal gera. Ég er ekki tilbúin að borga allar þessar skuldir og þó svo að hann lofi að hann sé hættur þá hefur það litla sem ég hef lesið upplýst mig um að það er mjög erfitt að taka hann á orðinu. Auk þess getum við hjónin ekki staðið undir umræddum skuldbindingum. Við þyrftum þá að taka lán með veði í íbúðinni okkar og þar með væri ævisparnaður okkar farinn. Ég vil aðstoða hann því það er ömurlegt að horfa upp á hann og hvað þetta er að gera honum. Ég verð hins vegar að vera viss um að ég sé raunverulega að hjálpa honum og að hann hætti þá fyrir fullt og allt. Getur þú eitthvað leiðbeint mér um hvað sé best að gera?
Kveðja,
M

Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi leggur áherslu á spilafíkn.
Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi leggur áherslu á spilafíkn.

Sæl M

Því miður fer ekki saman að aðstoða hann og að borga upp skuldirnar. Spilafíkn er ekki fjárhagsvandi heldur erfiður og alvarlegur sjúkdómur. Með því að borga upp skuldirnar en aðhafast ekki varðandi spilafíknina er næsta víst að hann byrjar aftur að spila, því miður. Hann verður að átta sig á hvers vegna hann er kominn í þessa stöðu, bæði með sjálfan sig og fjárhag sinn. Ef hann horfist í augu við það er hægt að vinna með spilafíknina.

Fyrst og fremst myndi ég ráðleggja þér að einblína á að hjálpa honum að sjá það. Oftar en ekki byrja einstaklingar sem eru að kljást við spilafíkn á að ráðast í fjármálin og raunverulega trúa þeir því að þar liggi vandinn. Þegar spilafíklar leita sér svo raunverulega aðstoðar eru þeir búnir að gera nokkrar slíkar tilraunir, þ.e. að borga upp skuldir eða koma skuldunum í langtímaáætlun með hæfilegum afborgunum.

Vandinn er bara sá að þegar fjárhagurinn er kominn á nokkuð lygnan sjó, þá finnur fíkillinn svigrúm til að halda áfram að spila. Á meðan ekkert er tekist á við spilafíknina byrjar viðkomandi að spila aftur og þetta getur endurtekið sig nokkuð oft.

Því ráðlegg ég fólki að hinkra aðeins í t.d. 30-90 daga og sjá hvað viðkomandi ætlar að gera í sínum málum. Ef ekkert breytist og viðkomandi leitar sér engrar aðstoðar eru allar líkur á að hann geri sér ekki grein fyrir orsök fjárhagsvandans. Einnig ráðlegg ég ykkur að leita ykkur aðstoðar þar sem um fjölskyldusjúkdóm er að ræða og oftar en ekki eru allir af vilja gerðir að hjálpa, sérstaklega þegar börnin okkar eiga í hlut. Við sem foreldrar viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að hjálpa og viljum svo innilega auðvelda og einfalda veruleika barnanna okkar. En þegar um fíkniástand er að ræða gerum við oft meiri skaða en við gerum okkur grein fyrir og það er því mjög heilbrigt skref af þinni hálfu að leita upplýsinga og fá fræðslu áður en afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar.

Vertu alveg viss þegar þú og fjölskylda þín ákveða hvað gera skuli, að þú hafir réttar upplýsingar og sért meðvituð um spilafíkn, áhrif hennar og afleiðingar. Einnig ráðlegg ég fólki að lána ekki hærri upphæðir en viðkomandi ræður við að tapa. Þú getur aflað þér frekari upplýsinga um spilafíkn á netinu, spilavandi.is og gasamtokin.is. Einnig getur verið mjög gagnlegt fyrir ykkur fjölskylduna að fara á fjölskyldunámskeið fyrir aðstandendur spilafíkla (https://www.spilavandi.is/adstandendur)

Gangi ykkur vel. 

Kær kveðja,
Alma Hafsteins. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ölmu spurningu HÉR. 

mbl.is