Kærastinn er hættur að mæta í vinnuna

mbl.is/Thinkstock

Alma Haf­steins­dótt­ir, fíkni- og fjöl­skyldu­markþjálfi, sér­hæf­ir sig í spilafíkn. Hún svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá unnustu manns sem spilar póker allan sólarhringinn. 

Sæl Alma

Kærastinn minn er spilar póker orðið allan sólarhringinn og tilkynnti mér um daginn að hann ætlaði sér að verða atvinnumaður. Það sem ég hef aftur á móti horft upp á er að hann er orðinn nánast óvinnufær og ég skil ekki að hann skuli enn hafa vinnu. Hann mætir illa og er núna í veikindaleyfi frá vinnu, þó svo að hann sé ekki veikur. Hann tekur engan þátt í því sem ég geri og ég spyr sjálfa mig oft hvort ekki væri betra fyrir mig að búa ein, vera ein. Með því vissi ég þó hverju ég gengi að. Ég er stöðugt með væntingar og kröfur til hans sem kærasta en er í raun alein. Hann byrjaði í póker með félögunum og hittust þeir 2-4 sinnum í mánuði; þetta voru svona strákakvöld. Hann var kannski að eyða 5-10 þúsundum og ég vissi ekki betur en þeir væru bara að gera þetta sér til skemmtunar. Svo fór hann að spila póker á netinu og það hefur bara aukist og staðan er nú orðin sú að ég sé hann ekki öðruvísi en í símanum að spila póker. Ég er búin að reyna að tala við hann, öskra á hann og hóta honum öllu illu. Hann segir að ég verði að gefa honum tíma, þetta sé allt að koma og hann sé að vinna eftir ákveðnu kerfi. Hann segist stunda þetta með vini sínum og að þeir viti alveg hvað þeir séu að gera. Hvað á ég að gera? Á ég að gefa honum tíma og treysta því að þegar þetta fer að ganga hjá honum þá fari hann að taka þátt í heimilislífinu og lífinu bara almennt?
Kveðja,
G

Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi leggur áherslu á spilafíkn.
Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi leggur áherslu á spilafíkn.

Sæl G

Vandinn við spilafíkn er að flestir spilafíklar trúa að þeir séu með kerfi. Sértaklega á þetta við um fjárhættuspil þar sem fólk trúir að kunnátta og færni eigi við til dæmis í póker og íþróttaveðmálum. Reynslan sýnir að um það bil 10 vinir hittast og spila til dæmis póker sér til skemmtunar og ánægju en 2-4 af þessum hópi ánetjast og halda áfram. Mögulega missa þeir alla stjórn á fjárhættuspilum sínum, því miður. Það er himinn og haf milli þess að vera spilafíkill og atvinnumaður í póker og vandinn við spilafíkn er að viðkomandi getur ekki hætt þegar hann þarf eða á að hætta.

Menn missa algjörlega stjórnina og öll rökhugsun týnist. Fólk sem stundar pókerspil í atvinnuskyni á sér yfirleitt ekki sögu um slíkt stjórnleysi. Því finnst mér líklegt að hann sé nú þegar búinn að missa tökin og þar fyrir utan ef menn stunda fjárhættuspil eftir kerfum ætti varla að taka svo langan tíma fyrir kerfið að virka. Það er alls ekki óeðlilegt að hann telji sjálfum sér trú um að hann geti mögulega orðið atvinnupókerspilari en mér heyrist það vera algjörlega úr takt við það sem er raunverulega að gerast í lífi hans.

Hann virðist orðinn stjórnlaus, draumórar einkenna hugarástand hans og orðinn einangraður; farinn að missa úr vinnu og jafnvel kominn í veikindaleyfi frá vinnu og ekki í ástandi til að taka þátt í eðlilegu heimilislífi. Allt bendir þetta til að hann sé sokkinn ansi djúpt inn í spilafíknihegðun en menn skapa sér þá oft þennan draumaheim sem á ekkert skylt við raunveruleikann.

Þú talar einnig um að ef hann skyldi nú mögulega ná tökum á þessu og verða atvinnumaður í póker, hvort hann verði þá betur í stakk búinn til að taka þátt í lífinu. Fólk sem stundar fjárhættuspil í atvinnuskyni er almennt í eðlilegum samskiptum við umhverfi sitt og stundar póker eins og hverja aðra atvinnu. Menn verða ekki helteknir eins og raunin er með spilafíkla. Því finnst mér ólíklegt að hann nái tökum á þessu og allt lagist. Ég ráðlegg þér að leita aðstoðar fyrir sjálfa þig og þótt hann vilji ekki aðstoð eða finnist ekkert athugavert við hegðun sína eða pókerspil sitt, þá er gott fyrir þig að vita við hvaða sjúkdóm þú ert að kljást,;hver áhrif hans á líf þitt eru. Einnig er mjög gott fyrir þig að læra hvernig best er að bregðast við skaðsemi og langtímaáhrifum fíknarinnar en einnig hvernig þú getur sett þér og honum mörk. Eins og þú segir ertu mögulega í eins manns sambandi og þá er spurningin bara hvað þú vilt gera í því.

Gangi þér vel

Kær kveðja,
Alma Hafsteinsdóttir ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ölmu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál