„Hef alltaf átt erfitt með að treysta konum“

Það getur verið flókið að fóta sig í samböndum fyrir …
Það getur verið flókið að fóta sig í samböndum fyrir karlmenn þegar óunnin mál er varðar traust og nánd eru til staðar. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá manni sem er ósátt­ur við atriði sem gerðust í lok hjónabandsins. 

Sæl

Ég hef alltaf átt erfitt með að treysta konum eftir slæma reynslu og núna eftir sjö ára hjónaband erum við konan að skilja og meðal annars vegna þess að ég vantreysti og verð auðveldlega afbrýðisamur. Konan mín hefur aðgang að öllu hjá mér: tölvupóstum, samfélagsmiðlum, heimabanka, og síma. Hún þekkir öll lykilorð, enda hef ég ekkert að fela. Það var þannig með með mig líka, ég hafði aðgang að hennar en nokkrum mánuðum áður en við ákváðum að skilja, þá fór hún að haga sér einkennilega með þetta og klárlega að fela fyrir mér einhvað. Síðan hringir maður (sem hún hafði talað aðeins um) og hún fór öll í kerfi og svaraði ekki. Ég bað hana að hringja til baka við hliðina á mér, en hún fór einn hring um húsið og sendi skilaboð og kom svo til mín og hringdi, og hann sagði að hann hefði óvart hringt. Líklega af því að hún var búin að senda honum og segja hvað hann ætti að segja.

Fyrir nokkru þurfti hún að fara út í búð. Ég spurði hvort að ég mætti koma með, en hún vildi fá tíma með sjálfri sér, sem var gott og blessað. Hún hafði sig samt óvenjumikið til miðað við búðarferð og rauk af stað. Ég hringdi klukkutíma seinna og þá heyrði ég í henni og einhverjum manni, fljótlega fóru að heyrast kossahljóð og annað sem ég heyri enn í höfðinu. Og svo skelltist á. Hún svaraði ekki í símann í nokkra tíma eftir það og þegar ég spurði hver þetta hefði verið sagði hún að mér kæmi það ekki við og brást ílla við. Sagði svo að hún hefði verið hjá vinkonu sinni. Að hún hefði óvænt boðið sér í heimsókn. Ég trúði því auðvitað ekki og hún sagði að þessi maður sem að ég heyrði í hafi verið einn af þeim fimm sem voru þarna. En ég mátti ekki vita hver það var. En í símanum fór ekki á milli mála að þau þekktust.

Þegar ég spurði útí kossahljóð og annað, þá sagði hún að það hefði verið par í sófanum við hlið sér að kyssast. Þegar ég spurði út í önnur hljóð sem ég vil ekki lýsa þá sagði hún, að ef að einhver hefði verið að gera einhvað í sófanum við hliðina á henni, þá hefði hún ekki tekið eftir því? Konan mín er 34 ára og þetta hljómar vægast sagt ótrúlega.

Núna tveimur mánuðum seinna hefur hún loksins viðurkennt að þetta var sá sem ég hélt að þetta væri en stendur föst á því að þau hafi ekki gert neitt og að hún hafi verið hjá þessari vinkonu sinni og hann óvænt mætt þarna. Ok, kannski var það svoleiðis, en því þetta leynimakk og því vill hún ekki segja mér hver vinkona hennar er? Líklega af því að hún var ekki þar.

Hef ég ekki rétt á að vita hver þessi vinkona var?  Við vorum harðgift þegar þetta var.

Kveðja.

Elínrós Líndal starfar sem fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem fjölskylduráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæll.

Takk fyrir að senda inn bréfið. Ég kann að meta að þú gefir konu ráðgjafa traust til að svara þér. Sér í lagi í ljósi þess að þú átt erfitt með að treysta konum. Þú ert hins vegar ekki einn um þetta og alls ekki bara karlmenn sem eiga erfitt með að treysta. Margar konur eru einnig í þínum sporum. Ég ætla að lána þér dómgreind mína í þessu máli. 

Það sem ég tel að liggi að baki margra vandamála af þessum toga er tengslavandi við foreldri af gagnstæðu kyni. Dr. Patt Allen hefur rannsakað þessa hluti þegar kemur að ástarmálum fólks og segir að mæður þurfi að virða syni sína og feður að vernda dætur sínar. Ef sem dæmi móðir ofverndar son sinn eða vanrækir hann, þá myndast kjör-umhverfi fyrir meðvirkan einstakling að þróa með sér vanvirkni (eða ofvirkni) þegar kemur að samböndum. Eins ef faðir er mikið andlega fjarverandi frá dóttur sinni, getur myndast þörf fyrir slíka stúlku að finna „hina raunverulegu“ ást í faðmi prinsins á hvíta hestinum. Báðir aðilar eru þá að kljást við samskonar vanda, og veljast oft saman í sambönd af því tagi sem þú lýsir í bréfinu þínu hér að ofan. 

Mín reynsla er sú að það eru fleiri hlutir sem sameina okkur, konur og menn, heldur en eru ólíkir með okkur. Ef þú ert með slæma reynslu af konum þá vil ég hvetja þig í að skoða þessi mál áður en þú heldur í annað samband eða ákveður að vera einn eftir þessa reynslu. 

Það eru ekki allar konur slæmar. Konur eru bara allskonar, í raun og veru bara fullkomlega ófullkomnir einstaklingar, rétt eins og karlar. 

Það er algengt að þeir sem alast upp með fjarverandi foreldri af gagnstæðu kyni, reyni að finna ástina í örmum maka síns, og geri mjög miklar kröfur til ástarsambandsins. Upphefja einstaklinginn í byrjun og gera hann að einskonar guðlegri veru. Svo þegar raunveruleikinn blasir við þá leitast þessir aðilar með öllum ráðum við að ýmist ofhalda í búið samband eða hlaupast undan í annað samband sem er ekki endilega að fara að virka heldur.

Þegar kemur að því að svara spurningunni þinni hér að ofan þá finnst mér þú eiga rétt á að lifa lífinu, hamingjusamur, glaður og frjáls. Mér finnst að þú eigir að elska þig án skilyrða og þú ættir að forðast að láta konur (eða karla) meiða þig. Mér finnst þú eiga rétt á að fara í heilbrigt samband með konu sem þú kynnist vel áður en þú stofnar til sambands með henni. Konu sem elskar sjálfa sig án skilyrða og getur gert góðan sambandssamning við þig og staðið við hann. 

Hvað kona þín gerði eða gerði ekki áður en þið ákveðið að skilja hefur í raun og veru ekki svo mikið með þig að gera að mínu mati í dag. Ef þú hefur verið að meiða hana með því að vera afbrýðisamur og hún var að leita út fyrir sambandið, tel ég það vera af því hún hefur verið vanmáttug við að setja mörk inni í hjónabandinu. Kannski er hún að kljást við sambærilegan vanda tengdan karlmönnum sjálf, að treysta þeim ekki alveg og finnst óþægilegt að vera í stöðu þar sem mikið er fylgst með því hvað hún gerir eða gerir ekki. Á hún sem dæmi eðlilegt samband við sinn föður? Er hún prinsessan hans pabba? Eða var pabbi mikið í burtu?

Framhjáhald eða að „fantasera“ út fyrir samband er að mínu mati vanmáttur við að fylgja eftir löngunum og þrám inni í hjónabandinu. Þegar fólk er farið að fjarlægast sjálft sig svo mikið að það kann ekki betri eða heiðalegri leiðir til að fullnægja þörfum sínum.

Ég vil taka fram að ég er ekki siðfræðingur og legg því ekki siðferðilegt mat á hvort sé betra að „fixa“ sig út fyrir sambandið eða að koma illa fram við einhvern sem maður er með af því að maður er óöruggur/óörugg. Hvorttveggja hefur slæm áhrif á fólk og meiðir - þó að samfélagið okkar sé oftar en ekki til í að dæma þann sem leitar út fyrir sambandið. Að ástunda botnhegðun, hvernig sem hún lítur út, hefur slæm varanleg áhrif á lífsgæði fólks. Botnhegðun getur þá verið bæði að leita út fyrir sambandið, eða að neita sér um ást og kynlíf inni í sambandi.

Ástaranorexía er algengari en margir halda og getur verið undirliggjandi vandi þeirra sem eiga erfitt með að treysta. Ein tegund ástaranorexíu er að velja sér einstakling í samband, sem hefur enga getu til að tengjast öðru fólki tilfinningalega.  

Eins mæli ég með því að fólk geri góðan sambandssamning og fari í ráðgjöf í upphafi sambanda en ekki þegar þeim er að ljúka. 

Haltu áfram að leita að lausnum fyrir þig. Skrifaðu niður karlmanninn sem þú ert skapaður til að vera og skoðaðu hvað þessi maður gerir daglega. Hvað gerir hann ekki? Hvernig ástarsambandi vill þessi maður vera í? Hvernig ætlar hann að næra sig og koma vel fram við sig á hverjum degi?

Það er mjög auðvelt að finna fólk sem setur okkur niður, sem hafnar okkur við fyrsta tækifæri og kann ekki að meta okkur. En ef við teljum okkur hins vegar eiga allt það besta skilið, þá veljum við ekki að eyða tímanum í þannig fólk. Stanslaus þráhyggja þegar kemur að fortíðinni getur tekið frá okkur dýrmætan tíma með börnum, félögum og frá góðri vinnu.

Ef þú átt erfitt með að sleppa tökunum á konunni sem þú ert að skilja við, getur veröldin verið að kalla þig í sjálfsvinnu. Ég mæli með slíku fyrir alla sem eru fastir í þráhyggjuhugsunum tengdum fyrrverandi, núverandi eða einhverju sem þeir óska eftir að gerist í framtíðinni.

Við eigum öll rétt á að lifa dásamlegu lífi og ættum ekki að láta vanvirk (eða ofvirk) sambönd aftra okkur frá því.  

Valið er þitt. Lífið er núna! Og alls ekki dæma að ég sé að benda fingrinum á þig - málið er bara að þú ert sá eini sem getur borið ábyrgð á eigin hamingju í dag. Svo taktu af skarið og veldu það besta fyrir þig núna. Þig sjálfan!

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

 

mbl.is