Er kvenorkan meðvirk með karlorkunni?

Ef kona þráir að vera konan í sambandinu, en er …
Ef kona þráir að vera konan í sambandinu, en er hrædd við að fara úr orkunni sem ákveður hlutina og fær virðingu, gæti hún þurft að skoða hvað þessar orkur þýða og hverju þær ráða.

Elínrós Líndal fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem er að velta fyrir sér hvernig hún getur hætt að ástunda það sem meiðir hana og farið meira inn í hluti sem gera hana að þeirri konu sem hana dreymir um að vera. 

Kæra Elínrós,

Ég er mikill aðdáandi pistlanna þinna og les þá oft upp fyrir mig og vini mína sem mér finnst þurfa á ráðgjöf að halda. Einu velti ég þó fyrir mér og vona að þú getir útskýrt betur fyrir mér. Hvernig breyti ég allri minni botnhegðun í topphegðun og hvernig get ég vitað að það sé ekki í raun meðalhegðun? Einnig velti ég fyrir mér hvort kvenorkan mín sé of meðvirk með karlorkunni eða öfugt? Mér þætti gaman að heyra hvað þér finnst.

Þín, S

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir að lesa pistlana mína. 

Fyrir þá lesendur sem eru að lesa pistlana mína í fyrsta skiptið langar mig að útskýra aðeins betur spurninguna þína. 

Ég sé að þú ert að vísa í tvennskonar hegðun, annars vegar hegðunina sem gerir okkur að þeirri manneskju sem okkur dreymir um að vera (topphegðun) og hins vegar hegðun sem vinnur á móti þeirri manneskju sem við viljum vera (botnhegðun).

Síðan ertu að velta fyrir þér kvenorkunni og karlorkunni og hvort þú gætir verið með meðvirkni sem tengist því. 

Ef þú skrifar niður einstaklinginn sem þig dreymir um að vera í framtíðinni, þá er topphegðun allt sem þessi aðili gerir daglega. Ég mæli með að aðgerðabinda hegðunina og setja í forgang það sem fær þig til að virka vel daglega. Hjá mér er sem dæmi 8 tíma svefn, 3 máltíðir á dag sem ég skrifa niður áður en ég byrja að borða, hreyfing, að búa um rúmið, vera heiðarleg, vinna við það sem mér finnst skemmtilegt og þar fram eftir götunum. 

Af því við erum manneskjur og alltaf að læra og þroskast þá er eðlilegt að við gerum það sem við þurfum að læra af.  

Þetta geta verið hlutir eins og að þóknast öðrum, ofbjóða sér í vinnu, vera óheiðarlegur þegar kemur að stimpilklukku í vinnunni, en þetta geta líka verið atriði eins og að horfa á klám, vera með markalaust daður, að dreyma dagdrauma út fyrir hjónabandið, halda fram hjá og fleira. 

Ef þú gerir eitthvað yfir daginn sem þú vilt hafa fyrir þig eða skammast þín fyrir, þá mæli ég með að setja það í botnhegðun. Þessir listar eru smávegis föndur og stundum svissast hlutir á milli í listanum. Það er sem dæmi hægt að setja fólk, staði og hluti á botnhegðunarlista og síðan færa það í topphegðun. Sem dæmi ef þú ákveður að taka þér pásu frá því að drekka áfengi af því þér finnst það vont fyrir miðtaugakerfið þitt, gæti verið að þú myndir setja skemmtistaði, vissa vini og fleira í botnhegðun tímabundið. Síðan þegar þú hefur náð tökum á lífsstílnum þá getur þú fært þessi atriði upp aftur. 

Til að komast hjá því að ástunda botnhegðun, þá setur þú athyglina í topphegðunina þína. Síðan ef þú dettur í að ástunda botnhegðun er gott að skoða hvað leiddi til þess. Það getur verið lítill svefn, einhver sem þú elskar gagnrýnir þig og svo framvegis. Af því þú vilt örugglega taka ábyrgð á þínu lífi þá er gott að hugsa: hvernig get ég sett mörk um þessi atriði svo þau felli mig ekki aftur. 

Saklausir hlutir geta átt heima í botnhegðun, ef þeir fá okkur til að líða illa eftir á. Þú ert með dómgreind og visku til að finna þessa hluti innra með þér ef þú gefur þessu athygli. 

Topphegðun, verður meðalhegðun (virk hegðun) í framtíðinni, en ég notast einungis við þessa tvo lista. 

Þegar kemur að kven- og karlorkunni, þá finnst mér það atriði vera meira ákvörðun en eitthvað annað. 

Spurðu þig hvort þú viljir fyrst aðdáun og síðan virðingu í sambandinu sem þú ert í eða öfugt. Ef þú vilt fyrst aðdáun, þá viltu vera konan í sambandinu. Ef þú vilt fyrst virðingu þá viltu vera karlinn í sambandinu. 

Þú getur ekki beðið um hvortveggja því þá verður þú 100% sambandið og maki þinn 0%. Þá ertu komin á róf þar sem þú gætir verið að sýna einkenni sem minna á „narsasisma“ sem ég held að sé ekki eftirsóknavert fyrir neinn sem hefur áhuga á að vaxa og læra í lífinu. 

Þú getur verið í karlorkunni í vinnunni og svissað svo yfir í kvenorkuna heima. Ef þér finnst þú ekki hafa stjórn á þessum tegundum orku, væri áhugavert að skoða hugmyndir þínar um konur og karla. 

Konur eru dásamlegar og karlmenn líka, en stundum virðist hugmyndakerfið okkar skakkt þegar kemur að þessu. 

Báðar tegundir orku eru öflugar og þær virka best saman. Eins og mér finnst lífið í kjarnann. Það er ekkert mál að lifa lífinu, einn og ánægður. En ef einstaklingur finnur sér annan áhugaverðan félaga að elska, þá getur orðið til frábær sviðsmynd fyrir meiri þroska og lærdóm. Það finnst mér persónulega eftirsóknavert og heilbrigt. 

Þegar kemur að meðvirkni og kven- og karlorku finnst mér flestir sem ég tala við halda að karlorkan sé sterkari og því sé hún ríkjandi. Þetta sé ég mikið hjá konum sem hafa upplifað áföll í æsku. Konur sem hafa sem dæmi verið aldar upp hjá mæðrum í neyslu, eru oft í karlorkunni. Eins eru karlmenn sem hafa verið aldir upp af konum í neyslu oft í kvenorkunni. Dr Pat Allen greinir vel frá þessu í sínum bókum. 

Ef þú kaupir þér eina bók um málið og skoðar sem dæmi hvað kvenorkan er sterk, þá muntu án efa geta staðið við ákvarðanir þínar betur í þessum málum. Er ekki undirliggjandi ótti oftast ástæðan fyrir því að við verðum meðvirk?

Vona að þetta svari spurningunni þinni. 

Gangi þér sem best, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is