Beggi Ólafs: Plöntufæði bætir heilsuna

Knattspyrnumaðurinn Beggi Ólafs segir mikilvægt að finna tilgang með lífinu.
Knattspyrnumaðurinn Beggi Ólafs segir mikilvægt að finna tilgang með lífinu. Ljósmynd/Aðsend

Knattspyrnumaðurinn Bergsveinn Ólafsson, eða Beggi Ólafs eins og hann vill láta kalla sig, er vegan og segir eina mestu áskorunina við að breyta matarræðinu vera viðbrögð fólks við því hvað maður borðar. Hann segir tilgang með lífinu og fólk ætti að finna sinn tilgang og gefa eitthvað áfram til næsta manns.

Beggi er með það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á fólk og vil breyta því hvernig það horfir á sjálfan sig og heiminn allan. Hann er með leiðir til að aðstoða fólk í þessu samhengi og fær fólk reglulega til sín þar sem hann notast við þjálfunarsálfræði. Beggi starfar sem fyrirlesari, knattspyrnumaður og er í meistaranámi í sálfræði. 

„Ég fæ einstaklinga til mín í þjálfunarsálfræði þar sem þau vinna að fjölbreyttum verkefnum við sjálfan sig og lífið. Tímabilið í fótboltanum var að klárast svo ég er að njóta þess að fara á æfingar þegar ég vil og að gera eitthvað nýtt. Að mínu mati er alltaf gott að taka smá pásu frá fótboltanum þó svo hann sé frábær.“

Hvað getur þú sagt okkur frá náminu sem þú ert í? 

„Ég er í mastersnámi í hagnýtri jákvæðari sálfræði og þjálfunarsálfræði. Næst á dagskrá í náminu er að fara nota þjálfunarsálfræðina inn í fyrirtækjum og að gera rannsókn um tilgang í lífinu (meaning in life). Þess á milli sé ég um hlaðvarpið Milliveginn og er duglegur við að deila mínum pælingum um lífið á Instagram og sem bloggari á Trendnet. Sjálfur er ég duglegur að njóta lífsins og efla tengslin við þá sem eru mér nánastir.“

Viðbrögð og álit fólks áskorun

Það vita margir að Beggi er vegan og því forvitnilegt að vita hvernig matarræðið fer saman við íþróttirnar?

„Það kemur kannski fólki á óvart en plöntufæði fer mjög vel sama við íþróttir. Plöntufæði hefur t.d. góð áhrif á endurheimt sem er einn mikilvægasti þátturinn í íþróttum í dag. Ef þú ert hraðar að jafna þig eftir æfingar, þá geturðu æft að meiri krafti daginn eftir og færð meira út úr æfingum. Þú getur rétt ímyndað þér hversu mikil áhrif það getur haft á árangur í íþróttum til lengri tíma.“

Hvað var það flóknasta við að hætta að borða kjöt?

„Það er tvennt. Í fyrsta lagi eru það breytingar. Allar breytingar eru erfiðar. Það er smá vinna að átta sig á hvað maður þarf að borða, hvað manni finnst gott og hvað hentar manni að borða. Þetta er eins og með allar jákvæðar venjur sem maður temur sér. Þær eru erfiðar til að byrja með en verða svo að sjálfsögðum hlut.

Í öðru lagi, sem er miklu flóknara en að vita hvað maður á að borða eru viðbrögð og álit annarra. Fólki líður stundum eins og það sé persónuleg árás þegar maður hættir að borða kjöt því það stangast á við þeirra trú og viðhorf. Þau koma því með spurningaflóð og misgóð rök sem styðja við það að borða kjöt. Ég skil það samt vel þar sem ég var einu sinni þarna megin við borðið. Þegar ég hef verið spurður í gegnum tíðina reyni ég að svara samvisku-samlega og fræða í staðinn fyrir að blóta þeim fyrir að borða kjöt.“

Beggi er mikið fyrir knattspyrnu og hreyfingu almennt.
Beggi er mikið fyrir knattspyrnu og hreyfingu almennt. mbl.is/skjáskot Instagram

Borðar nánast engan viðbættan sykur

Af hverju tókstu þessa ákvörðun að breyta matarræðinu?

„Ég vildi gera allt til þess að ná meiri árangri í fótboltanum. Allstaðar þar sem ég las var sagt að plöntufæði gæti gert góða hluti fyrir frammistöðu í íþróttum. Ég ákvað því að prófa það í einn mánuð en hef ekki snúið til baka síðan.

Ég segi betur frá þessari ákvörðun á Vegan Heilsu ráðstefnunni þar sem ég verð með erindi sem ber yfirskriftina: Íþróttamaðurinn sem ætlaði aldrei að hætta borða kjöt. Ráðstefnan er næsta miðvikudag og allur ágóðinn af ráðstefnunni fer til Ljóssins, sem er endurhæfingarstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein. Ráðstefnan er fyrir alla þá sem vilja fræðast um áhrif plöntufæðis á heilsuna.“

Hvaða áhrif á líkamann hefur það að færa sig yfir í plöntufæði?

„Það eru margir góðir ávinningar en það fer algjörlega eftir hvaða plöntufæði þú borðar og hversu mikið af því. Ef þú borðar fjölbreytt og óunnið plöntufæði ertu í nokkuð góðum málum. Plöntufæði getur aukið blóðflæði í líkamanum, minnkað bólgur, hamlað frekar skemmd á vöðvum eftir æfingar, haft góð áhrif á blóðþrýstinginn, húðina, blóðsykurinn og líkamsþyngd. Ég þyngdist reyndar fyrst þegar ég byrjaði að borða plöntufæði en það var út af því að ég hélt ég þyrfti að borða svo mikið.“

Ertu í fráhaldi frá einhverju öðru, sem dæmi sykri?

„Já. Ég borða nánast engan unnin/viðbættan sykur. Þar að auki reyni ég að halda mig frá einföldum kolvetnum eins og brauði og pasta því mér finnst það fara illa í skrokkinn á mér.

Ég myndi segja að ég borði 90% óunna plöntufæðu. Óunnið þýðir að það sé ekki búið að taka neitt gott úr fæðunni og ekki bæta neinu sem þarf ekki að vera í henni við. Grænmeti, ávextir, hnetur, baunir og fræ er uppistaðan í minni fæðu.“

Fastar til hádegis

Getur þú gefið mér uppskrift að því hvað þú borðar yfir daginn?

„Ég fasta til hádegis. Þar tekur við líter af grænum hræring. Um tvö leitið bý ég mér annaðhvort til eitthvað að borða eins og baunir, tofu, chiagraut, hafragraut eða það sem er til heima eða ég fer eitthvert að fá mér að borða eins og Gló, Spíruna eða Local. Um kvöldið eldum við kærasta eitthvað gott eins og t.d. Curry, mexikó skál, tofu salat og margt annað fleira.“

Beggi borðar hollan mat og reynir að sneyða framhjá sykri …
Beggi borðar hollan mat og reynir að sneyða framhjá sykri og hveiti. mbl.is/skjáskot Instagram

Af hverju ætti fólk að skoða að verða vegan?

„Það eru þrjár ástæður af hverju fólk temur sér plöntufæði. Sú fyrsta er til að bæta heilsuna og að koma í veg fyrir lífstílssjúkdóma. Það má rekja 2/3 af öllum dauðsföllum til lífstílssjúkdóma og mataræði er einn mikilvægasti þátturinn til þess að koma í veg fyrir þá. Plöntufæði er talið geta komið í veg fyrir og snúið við ýmsum lífstílssjúkdómum eins og krabbameini, sykursýki og hjarta og æðasjúkómum. Önnur ástæða tengist umhverfissjónarmiðum. En ein bestu áhrif sem þú getur haft á umhverfið í dag er að hætta að borða kjöt. Það þarf 15000 lítra af vatni til þess að búa til 1 kíló af kjöti en einungis 287 lítrar í kartöflur og við gætum nánast bara lifað á kartöflum. Síðasta ástæðan er siðferðisleg. Það er til þess að koma í veg fyrir þjáningu dýra. Iðnaðurinn bakvið það að einstaklingar geti borðað kjöt er viðbjóðslegur og flest okkar lítum meðvitað blint framhjá honum. Það myndu fáir borða kjöt ef þeir þyrftu að slátra því sjálf.“

Hver eru skrítnustu ummæli sem þú hefur fengið tengt matarræði þínu?

„Það eru nokkur stórskemmtileg ummæli sem ég hef fengið í gegnum tíðina en ætli mitt uppáhalds sé ekki þegar ég var að rífast við einn vel valinn á fótboltavellinum og hann sagði: Farðu og éttu gras grænmetisætan þín.“

Matarræði er sameiginlegt vandamál mannkynsins

Erum við of mikið að spá í hvað aðrir borða?

 „Nei það held ég ekki. Við þurfum að spá í því. Mataræði er sameiginlegt vandamál mannkynsins. Vond heilsa kostar heilbrigðiskerfið og hvað þú borðar hefur mikil áhrif á umhverfið, sem er ein af helstu áskorunum okkar og komandi kynslóðar.

Við þurfum að borða og getum ekki komist af án matar. Matur er risastór þáttur í lífinu og eitthvað sem við gerum öll 2-6 sinnum á dag. Í dag deyja fleiri úr offitu en vannæringu. Það er ágætis vísbending um að það sé ekki allt með feldu hvað varðar mat og matarvenjur í heiminum. Það er augljóst mál að margir eiga í vandræðum með matarvenjur og borða alltof óholt. Að mínu mati erum við siðferðislega skyldug til að gera allt í okkar valdi til að gera heiminn að betri stað í dag heldur en hann var í gær. Hvernig gerir maður það? Maður byrjar á sjálfum sér að mínu mati. Það sem við gerum daglega hefur miklu meiri áhrif heldur en við höldum. Við erum öll tengd. Við eigum að vinna saman en ekki á móti hvoru öðru. Öll skref eru jákvæð. Lítil skref verða að stórum breytingum.“

Hvernig notarðu sálfræðina í daglegu lífi?

„Á ansi marga vegu. Ég vinn mikið við hana með fyrirlestrum og svo fæ ég fólk til mín í þjálfunarsálfræði. Ég nota hana í að hjálpa öðrum, þekkja sjálfan mig betur, að efla tengslin í kringum mig og að bæta sjálfan mig í lífinu.“ 

Beggi Ólafs er jákvæður og sífellt í þróun.
Beggi Ólafs er jákvæður og sífellt í þróun. mbl.is/skjáskot Instagram

Ef þú gætir breytt einhverju einu í veröldinni hverju væri það?

„Góð spurning. Ég held ég myndi vilja losna við helstu áskorun okkar og komandi kynslóða hvað varðar umhverfið. Ég myndi vilja finna lausn á umhverfismálum sem allir myndu stökkva beint á og þar með losna við það mikla og krefjandi vandamál.“

Hvaða merkingu hefur sálfræðin í þínum huga?

„Fyrsta sem kom upp í mínum huga er að sálfræði er fjölbreytt, vísindaleg verkfærakista sem hjálpar fólki að breyta sér til betri vegar í lífinu með því að hegða sér á annan máta, horfa öðruvísi á sjálfan sig og ná betri stjórn á tilfinningunum sínum.“

Lífið er fáránlega erfitt en líka frábært

Hvað er það erfiðasta sem þú hefur farið í gegnum í lífinu?

„Ég hef verið mjög heppinn, ef svo má segja,að ég hef ekki lent í miklum erfiðleikum í lífinu. Ég hef misst nána fjölskyldumeðlimi eins og flestir aðrir en ég hef ekki lent í neinu sem splundrar mér og minni sýn á lífið. Ég veit samt að ég á eftir að lenda í mörgum erfiðleikum í framtíðinni þar sem þeir eru óumflýjanlegur fylgifiskur lífsins.

Ég hef hinsvegar átt við erfiðar hugsanir og pælingar um lífið sjálft. Ein þeirra tengist tilgang í lífinu sem eflaust margir tengja við. Ég hef þurft að hugsa um hvort það sé eitthver tilgangur með lífinu mínu. Hvort þetta sé virkilega allt sem lífið hefur upp á að bjóða, hvort það sé þess virði að lifa því og af hverju ég ætti að vera verja því í það sem ég sé að gera.“

Hvað kenndi verkefnið þér um fólk almennt og umhverfið?

„Tilgangur í lífinu er eitthvað sem snertir okkur öll og er risastór þáttur í andlegri heilsu. Það þurfa mjög margir að fást við þá erfiðu spurningu hvaða tilgang lífið þeirra þjóni.

Það kenndi mér að það er mikill tilgangur með lífinu. Lífið er fáránlega erfitt en líka frábært. Lífið er ævintýri. Stundum þarf maður að opna augun og minna sig á góðu eiginleika tilverunnar. Það er fullt gott við hana en margt hunderfitt og ömurlegt.

Að hjálpa öðru fólki gefur mér mestan tilgang í lífinu og ég finn mikinn tilgang í að gera mig að betri einstakling í dag heldur en ég var í gær.

Við þurfum sérstaklega að hlúa að okkar yngra fólki og hjálpa þeim að átta sig á sínum tilgangi í lífinu. Það er algjört lykilatriði til að forvinna andlega erfiðleika. Við þurfum að hjálpa þeim að þekkja sjálfan sig og átta sig á hvað þau vilja gera í lífinu. Þau þurfa vera í umhverfi þar sem þau fá að prófa skapa það sem vekur upp hjá þeim áhuga. Þau þurfa að taka ábyrgð á sínu lífi og að sýna mikið hugrekki. Það er krefjandi að takast á við breytingar og að vera trúr sjálfum sér í samfélaginu í dag.“

Venjur í kringum mat brenglaðar hjá mörgum

Af hverju valdir þú þér sálfræði?

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fólki og vildi vinna við að hjálpa fólki í framtíðinni. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun í dag þar sem að hjálpa öðrum að eflast í lífinu gefur mér mikinn tilgang í lífinu.“

Í viðtali við sérfræðing sem rekur MFM miðstöðina kom fram að allt að 30% Íslendinga séu að kljást við matarfíkn og stór hluti landsmanna séu að berjast við yfirþyngt. Telur þú að vegan fæði gæti aðstoðað með þessa áskorun?

„Mér finnst þetta áhugavert en ég átta mig á að þetta er mjög flókinn vandi. Það þarf að taka margt annað inn í myndina líka. Hegðun, hugsun og venjur í kringum mat eru brenglaðar hjá mörgum og hafa virkilega slæm áhrif á líf margra. Það þarf að taka til í öðrum þáttum heldur en bara að temja sér plöntufæði.

Óunnið plöntufæði getur hinsvegar haft góð áhrif á líkamsþyngd einstaklinga og það eru margar magnaðar sögur af fólki þarna úti sem hefur náð rosalegum árangri við að temja sér plöntufæði.“

mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál