„Maðurinn minn hefur haldið framhjá mér í 5 ár!“

Það er alltaf áfall þegar upp kemst um framhjáhald í …
Það er alltaf áfall þegar upp kemst um framhjáhald í hjónaböndum. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er í áfalli yfir framhjáhaldi eiginmannsins. Sem hún komst að nýverið. Hún þekkir konuna sem hann hefur haldið við. En það er ekki það eina.

Sælar.

Ég var að komast að því að eiginmaðurinn minn til 17 ára hefur verið í framhjáhaldi við konu sem ég kannast við í fimm ár. Ég frétti af þessu um daginn og virðist vera að komast að fleiri hlutum sem hafa verið í gangi hjá honum sem ég er í sjokki yfir. Hann er með klám í tölvunni sinni, virðist daðra við konur á samfélagsmiðlum. Þegar ég komst að þessu þá brotnaði hann niður og sagði að þetta snérist í raun ekki um aðrar konur. Heldur hefði hann verið með tómleika frá því við eignuðumst fyrsta barnið okkar saman fyrir tæpum tíu árum og að hann ráði ekki við sig. Hann sé einmana og stjórnlaus á þessu sviði. Hann sé ekki ástfanginn af hinni konunni, né þeim sem hann er að tala við. Hann sé með sektarkennd og skömm yfir þessu ástandi sem hefur farið úr böndunum.

Hvað á ég að gera?

Allir vinir mínir segja mér að skilja en mig langar að skilja hvað er raunverulega í gangi hjá okkur. Ég hef hins vegar ekki séð í lit undanfarnar vikur, er með sömu hugsanir að spilast aftur og aftur í huganum. Er farin að líta á allar konur sem keppinauta. 

Mér líður hörmulega og er varla vinnufær. Mér finnst eins og ég sé að missa vitið. Var öll fortíðin mín á lygum byggð?

XOX

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar.

Takk fyrir að senda inn bréfið. Þú lýsir dæmigerðu ástandi aðstandanda ástar- og kynlífs fíkils.

Það sem er mikilvægt að þú áttir þig á er að allt sem þú ert að upplifa núna er eðlilegt, miðað við það sem þú hefur upplifað. Ég mæli með að þú skoðir að fara í ráðgjöf til sérfræðings með þekkingu á þessu sviði. Ekki hika við að velja þér konu að starfa með. 

Þegar kemur að eiginmanni þínum langar mig að segja eftirfarandi:

Það er mjög algengt að einstaklingur sem hefur upplifað tengslavanda við foreldra sína í æsku, finni aðila sem þeir verða ástfangnir af, stofni til fjölskyldu, eignist börn, festi ráð sitt og giftist. 

Þegar börn og allskonar verkefni koma upp á í lífinu, fá sumir þeirra tómleikatilfinningu og byrja að leita út fyrir sambandið. Stjórnleysi á þessu sviði er skilgreint sem hlutir sem einstaklingur gerir sem er á skjön við grunn gildin hans í lífinu. Þegar hann getur ekki stoppað sjálfur að gera hluti, sem særa hann, sambandið hans, eiginkonu/eiginmann og börn svo dæmi séu tekin. 

Einstaklingur með stjórnleysi á þessu sviði, getur verið að þróa með sér fíknihegðun í áraraðir. Hann er með einskonar fíknihring. Þar sem hann fer í botnhegðun, upplifir síðan skömm, þarnæst verður hann þungur þar til hann fer í spennu ástand og síðan losar hann um spennu í botnhegðun sinni aftur og hringurinn heldur vanalega áfram þar til einstalingurinn er tilbúinn í bata. Fólk fær vanalega fúsleika til að fara í bata þegar það á í hættu með að missa eitthvað sem skiptir máli. Margir missa maka sinn, atvinnu og mannorð svo dæmi séu tekin. 

Því sem þú lýsir er síðan dæmigert fyrir það sem sem maki upplifir í þessu samhengi. Þegar einstalingur fær upplýsingar hvað hefur raunverulega verið í gangi í hjónabandinu síðustu árin, þá koma upplýsingarnar vanalega til hans á nokkrum mínútum. Ég tel að þú þurfir góðan stuðning til að byggja þig upp aftur. Það er áfall fyrir alla að heyra um framhjáhald á þennan hátt. Þú upplifir líklegast röð áfalla að heyra um virka fíkn hans í langan tíma.

Þú þarft hins vegar ekki að örvænta, þú ert ekki fyrsti einstaklingurinn að lenda í svona og því miður ekki sá síðasti. 

Ég ráðlegg þér að gefa þér allt að níu mánuði til að ná sér á strik, raða og flokka og byggja upp sjálfsmyndina aftur. Að læra að treysta á eigið innsæi er mikilvægt, sem og að læra á fíknhringi makans hvort heldur sem er að fólk haldi sambandinu áfram eða ekki.

Hluti af batanum er að skilja ástandið sem myndaðist og læra að aðgreina sig frá vandanum. 

Ef þú vilt lesa þig meira til um þessa hluti getur þú skoðað meðvirkni þegar kemur að ástarfíkn, eða jafnvel ástandið að vera fíkinn í fíkla (co-addiction). Reyndu að dæma sjálfan þig ekki á þessu stigi málsins. Ég hef mikla samkennd með þeim sem upplifa svona áfall í lífinu. Að sjálfsögðu vissir þú ekki um þetta. Þetta er aðilinn sem þú hefur ákveðið að elska og treysta fyrir þér og börnum ykkar. 

Þegar ég heyri að makinn ætti að hafa vitað. Þá er ég algjörlega ósammála því og styðja fjölmargar rannsóknir þessa skoðun mína.

Ef maki þinn er tilbúinn að fara í bata á þessu sviði þá eru til fjölmargar leiðir til þess einnig. Eins er auðvelt að átta sig á því hvort hann sé virkur í fíkn og hver fíknihringurinn hans er. Ég gæti aldrei mælt með því við þig að vera með aðila í virkri fíkn áfram. Því ástandið er alvarlegt og allskonar hlutir geta komið upp. Kynsjúkdómar og andlegir þættir sem stigmagnast með árunum hjá m.a. aðstandandendum virkra fíkla.

Ég myndi forðast að fara djúpt í sjálfsvinnu sem miðar að því að þú takir ábyrgð á ástandinu í dag. Þú ert í engri aðstöðu til þess að mínu besta viti. Heilbrigð kærleiksrík mörk, að hlúa að þér og börnunum þínum ætti að vera í forgangi. Samfélagið er með allskonar skoðanir á því sem er í gangi hjá fólki í þinni stöðu. Það er hins vegar bara ein kona sem getur tekið ábyrgð á eigin líðan í þínu hjónabandi, og það ert þú. Ég hef hingað til ekki séð hefðbundin meðvirknismódel sem ætluð eru sem dæmi alkahólistum virka fyrir aðstandendur ástarfíkla. Það er mín persónulega skoðun og alls ekki alhæfing fyrir sviðið. 

Gangi þér sem best og farðu vel með þig.

Bestu kveðjur, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is