„Ein þeirra sem á ótrúan mann“

Þegar fólk afneitar sér um líkamlega snertingu og nánd í …
Þegar fólk afneitar sér um líkamlega snertingu og nánd í sambandi getur það upplifað mikla vanlíðan. mbl.is/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem frétti af framhjáhaldi eiginmanns síns fyrir ellefu mánuðum. 

Komdu sæl. 

Ég er ein þeirra kvenna sem eiga ótrúan mann. Ég komst að því fyrir 11 mánuðum, enn í dag hefur hann ekki sýnt mér hvernig hann hefur hugsað sér að sýna mér hvernig hann vilji laga og bæta hjónabandið. Ég hef oft spurt hann hvað hann ætli að gera en fæ engin svör. 

Hann segist ekki vilja skilnað en sýnir mér sama tómlætið og hann hefur gert í 15 ár. En í þau ár hefur hann aldrei snert mig. 

XX 

Elínrós Líndal starfar sem ráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl. 

Takk fyrir að senda inn bréfið. Ég átta mig ekki alveg á við hverju þú leitar svara. En þar sem þú sendir inn þetta bréf langar mig að segja þér nokkra hluti sem mér finnst áhugavert að skoða með þér. 

Ég vona að ég fari ekki yfir mörkin þín og það getur vel verið að þú tengir ekki við það sem ég mun skrifa, en þá lætur þú bara svörin mín fram hjá þér fara. 

Karlmenn (og konur) í virkri fíkn fara vanalega ekki í bata nema þeir séu stoppaðir af í sinni hegðun. Ýmist er það makinn sem setur falleg heilbrigð mörk eða samfélagið kemst að því hvernig hlutirnir eru, sem veldur því að þeir leita sér aðstoðar og gangast við því að þeir eigi allt hið besta skilið; að vera elskaðir án skilyrða (af sjálfum sér fyrst og síðan öðrum) og elska þannig maka sinn á móti. 

Ástandið sem þú lýsir er dæmigerð ástar-anorexía. Þar sem báðir aðilar afneita sér um ást, kynlíf og heilbrigða nánd og síðan virðist annar aðilinn missa sig í stjórnleysi út fyrir sambandið með því að fixa sig á öðru fólki. 

Nú er ég ekki viss um hvort þú finnir sjálf til stjórnleysis á þessu sviði, eða hvort þú eigir einungis erfitt með að setja eiginmanni þínum mörk þessu tengd. Dæmi um ástand í anorexíu er að dagdreyma um hvernig lífið ætti að vera, tala illa um maka við annað fólk en eiga svo erfitt með að mæta honum af heiðarleika inni í sambandinu. Fylgja fyrrverandi kærasta eða eiginmanni eftir á samfélagsmiðlum, og/eða fara reglulega út og daðra eða halda fram hjá.  

Við þurfum ekki að greina þig í gegnum eitt bréf tengt þessum hlutum. 

Það sem væri gott fyrir þig að gera er að ímynda þér hvað mun gerast í hjónabandinu ef maki þinn heldur fram hjá aftur. Muntu þá vilja skilnað? Ef það verður raunin, þá er heilbrigt og gott fyrir hann að vita það. 

Þú getur þá sest niður með honum og sagt að ef hann (og þú) haldið áfram að vera í virkri ástarfíkn og hann heldur fram hjá aftur muni hann missa hjónabandið. Þú gætir þá bent honum á að lesa þetta svar og sýnt honum faglegt mat mitt á ástandi eins og ykkar. 

Leiðin út úr ástandinu sem þið eruð í er margfalt einfaldari en staðurinn sem þið eruð á. Því get ég lofað. Ég hef séð fólk verða mjög veikt á líkama og sál, ef það sveltir sig á heilbrigðum samskiptum við annað fólk í áraraðir. 

Eins meiðir það maka okkar óheyrilega mikið ef við erum að standa í framhjáhaldi, án þess að við vinnum úr því og byggjum sambandið upp aftur. 

Ég tel að það taki allt að þremur árum að byggja hjónabandið ykkar upp aftur. En sá tími getur verið yndislega ánægjuaukandi fyrir ykkur bæði. Þú munt kannski aldrei treysta annarri manneskju aftur, sem er allt í lagi. Það eina sem þú þarft að treysta í framtíðinni er sjálfri þér fyrir eigin hamingju. Svo viltu kannski gera sambandssamning sem þú munt reyna eftir fremsta megni að standa við sjálf. 

Að lokum langar mig að segja eitt við þig persónulega. Ef þig langar í samband við maka þinn sem er fallegt og heilbrigt og þér finnst eins og þig langi að byggja það upp með eiginmanni þínum finnst mér það flott og jafnvel mjög heilbrigt í þeirri stöðu sem þú ert í núna. Líttu á alla þá vinnu sem þú munt fara í sem þinn persónulega bata. Ef þú stefnir að því að verða hamingjusöm í framtíðinni mun enginn geta tekið sjálfsvinnuna þína frá þér. Þú verður betur í stakk búin að fara í gott langtímasamband þegar þú hefur eytt tíma í að skoða hvaðan þú kemur, hvernig ástandið er og hvernig framtíð þú þráir.  

Ef þú sest niður með eiginmanni þínum og segir honum að þig langi ekki að vera áfram í þessu ástandi, að þú þráir nánd og ást og að hann snerti þig eins og eðlilegt er í ástarsambandi þá get ég trúað að hann verði tilbúinn að koma með þér í ráðgjöf.

Hins vegar skaltu ekki taka því persónulega þótt hann velji að vera á staðnum sem hann er á lengur. Það hefur ekkert með þig að gera og því ekkert sem heldur aftur af þér að fara af stað í þína fallegu vegferð. 

Vertu dugleg að byggja sjálfa þig upp, að vökva þig og næra. Reyndu að setja heilbrigð mörk og mundu að framhjáhald eiginmannsins skilgreinir hvorki hann né þig persónulega. Það eru allir með eitthvað að vinna úr í þessu lífi og ef fólk er ekki að kljást við þennan vanda þá er það bara að kljást við eitthvað annað. 

Leiðin heim er svo alltaf að ná að standa undir okkur sjálfum. Að læra að elska okkur án skilyrða og hætta að spegla okkur í fólki sem hefur ekkert að gefa okkur tilfinningalega. 

Það er hægt að bjarga öllum hjónaböndum að mínu mati ef viljinn er fyrir hendi og við sleppum fordómum og því að hugsa um hvað öðrum finnst um verkefnin okkar. 

Það er til mikils að vinna fyrir þig, enda held ég að það sé erfitt að upplifa gott líf, ef ástarmálin eru í molum.

Gangi þér og öllum öðrum í þínum sporum sem best með þetta verkefni. Þið þurfið ekki leyfi frá öðrum að finna hamingjuna. Hún býr innra með ykkur og er ekki fundin í öðru fólki. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál