Sonurinn aftur kominn á fullt í smálánin

Íslensk móðir hefur áhyggjur af spilafíkn sonar síns.
Íslensk móðir hefur áhyggjur af spilafíkn sonar síns. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Alma Haf­steins­dótt­ir, fíkni- og fjöl­skyldu­markþjálfi, sér­hæf­ir sig í spilafíkn. Hún svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. 

Sæl Alma

Sonur okkar er spilafíkill og stundum nær hann að hætta og stundum spilar hann allt frá sér, þetta kemur í svona tímabilum. Ástæða þess að ég skrifa þér er að við foreldrar hans erum búin að borga fyrir hann smálán og núna er hann kominn aftur í skuld. Ég var alveg viss um þegar við borguðum fyrir hann síðast að hann myndi ekki taka þessi lán aftur en svo virðist sem hann hafi fengið aftur heimild og er núna kominn með allt í botn og skuldar meira en síðast. Við vitum ekki hvernig við eigum að snúa okkur með þetta þar sem fólk er að segja okkur að borga ekki og aðrir segja að við eigum að borga hluta eða bara höfuðstól. Ég er alveg ringluð og veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga. Við getum borgað þetta fyrir hann en við getum að sjálfsögðu ekki borgað svona skuldir reglulega. Spurning mín til þín er hvað eigum við að gera og hvernig getum við fengið hann til sjá hversu alvarleg spilafíkn hans er orðin?

Kveðja, D

Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á …
Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á spilafíkn.

Sæl D

Vandinn við að borga upp skuldir fyrir spilafíkla er að það lagar ekki spilafíknina. Fjárhagsvandræði, skuldir, eru aðeins ein afleiðing spilafíknar. Ef ekki er unnið með spilafíknina og einstaklingurinn hættir algjörlega öllum fjárhættuspilum er í raun aðeins verið að viðhalda ástandinu. Jafnvel er verið að gera spilafíklinum kleift að halda áfram, þó svo það hafi ekki verið tilgangur hjálparinnar. Það er svo ótrúlegur fjöldi foreldra og ástvina í nákvæmlega sömu stöðu, langar að hjálpa, fólk gerir sér grein fyrir afleiðingum þess að vera í vanskilum og hversu mikið það getur skert einstaklinginn fjárhagslega. Það fyrsta sem ég ráðlegg ykkur er að aðstoða son ykkur við að leita sér aðstoðar þar sem hann fær fræðslu, upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig hann getur byrjað að vinna í bata sínum frá spilafíkn. Samhliða því þarf að leysa úr fjármálum spilafíkla. Það tekur verulega á að ætla að hætta fjárhættuspilum og mikilvægur hluti af því er að fjármálin séu tekin föstum tökum og komið í farveg. Varðandi smálánin þá getur þú sent tölvupóst á smalan@nt.is og þá færðu sjálfkrafa svar með helstu upplýsingum um hvað sé hægt að gera. Neytendasamtökin ásamt VR hafa lagt allt kapp í að koma böndum yfir þessa lánastarfsemi og beitt sér fyrir að tryggja rétt neytenda. Því miður er mjög hátt hlutfall virkra spilafíkla með slík lán og því mikill hagur fyrir spilafíkla og aðstandendur þeirra að koma böndum á þessa starfsemi þar sem sumir hafa lýst þessari lánastarfsemi og innheimtu sem handrukkun í skjóli yfirvalda.

Einnig ráðlegg ég ykkur að afla ykkur fræðslu um meðvirkni því spilafíkn er fjölskyldusjúkdómur. Þú getur lesið nánar um fjölskyldunámskeið fyrir aðstandendur spilafíkla hér: https://www.spilavandi.is/namskeid

Það getur verið mjög erfitt að setja mörk, sjálfum sér og fíklinum. Það hljómar mjög auðvelt að ætla að setja sjálfan sig í forgang en þegar vandi steðjar að þá reyndist mörgum það mjög erfitt.  

mbl.is