Reyndi að heilla með pastagerð á Tinder

Vonbiðillinn gerði tortellini fyrir Tilly.
Vonbiðillinn gerði tortellini fyrir Tilly. Samsett mynd

Piparsveinn á stefnumótaforritinu Tinder lagði sig í líma við að heilla konu sem hann hafði spjallað við með því að sýna henni hversu liðtækur hann væri í eldhúsinu. Þar sem ekki er hægt að senda myndir á spjallinu á Tinder ákvað hinn ónefndi piparsveinn að stofna Twitter-aðgang. 

Tilly, konan sem hann gerði hosur sínar grænar fyrir, deildi sögunni á samfélagsmiðlum. Vonbiðill hennar vildi endilega sýna henni hvað hann væri góður í að gera pasta, nánar tiltekið tortellini, og því ber Twitter-reikningurinn nafnið Tortellinis for Tilly. Hann sýndi svo skref fyrir skref hvernig hann gerði pastað og sjötta og síðasta skrefið var „að vinna hjarta hennar“.

Tilly hefur ekki enn greint frá því hvort pastagerðarmanninum hafi tekist ætlunarverk sitt, að heilla hana upp úr skónum. Aðrir netverjar hafa hins vegar sagst vera heillaðir af pastagerðinni hjá Tinder-vonbiðlinum. 

mbl.is