Reglur fyrir stefnumót eftir skilnað

Hvenær má fara á stefnumót eftir skilnað?
Hvenær má fara á stefnumót eftir skilnað? Ljósmynd/Thinkstockphotos

Það er ýmislegt sem nýfráskilið fólk þarf að takast á við. Nýr raunveruleiki blasir við og það getur verið erfitt að fóta sig í nýrri veröld eftir skilnað. Oft á tíðum hvetur fólk nýfráskilið fólk til þess að drífa sig aftur út á „markaðinn“ til þess að finna sér nýjan maka. 

Það getur verið skelfilegt, sérstaklega fyrir fólk sem er nýkomið út úr erfiðum skilnaði eða löngu hjónabandi. Reglurnar geta verið óskýrar, til dæmis hvenær sé við hæfi að byrja leitina. Pistlahöfundur Washington Post tók saman nokkur ráð frá sérfræðingum í skilnuðum og dró saman fimm reglur sem gott er að hafa í huga áður en farið er á stefnumót eftir skilnað. 

Vertu búinn að vinna úr skilnaðinum áður en þú ferð aftur út á „markaðinn“

Fyrsta reglan er ein sú mikilvægasta. Það er algjör óþarfi að burðast með stóra ferðatösku af tilfinningum úr fyrra sambandi inn í nýtt samband. Vertu búinn að vinna úr flestum þeim tilfinningum sem fylgja skilnaðinum, sérstaklega þeim slæmu.

Það er einnig góð hugmynd að leita á náðir ráðgjafa eða sálfræðings til þess að klára að vinna úr tilfinningunum og setja þær í samhengi. 

Hver og einn þarf sinn tíma

Það er engin algild regla um hvenær það er í lagi að fara heim með annarri manneskju eftir skilnað eða fara á stefnumót. Þú verður að finna hvernig þér líður hverju sinni og ákveða fyrir þig hvort þú sér tilbúinn að fara á stefnumót með annarri manneskju. Ef tilhugsunin um að vera náin/nn með einhverjum hryllir þig, þá ertu ekki tilbúin/nn. 

Þú á margt eftir ólært

Flestir þeir sem dúndra sér út á markaðinn eftir langt hjónaband komast að því fyrr eða síðar að ýmislegt hefur breyst í makaleitinni. Sérstaklega þeir sem náðu sér í fyrrverandi maka sinn fyrir 10 árum eða meira. Tæknin hefur tekið yfir og nú fara samskiptin fram á stefnumótaforritum eins og Tinder. 

Það er í lagi að hugsa á praktískari nótunum

Rómantíkin þarf ekki að svífa yfir vötnum í hvert skipti sem þú smellir „læki“ á einhvern á Tinder. Það er í lagi að hugsa á praktískari nótunum eftir skilnað, sérstaklega ef þið fyrrverandi maki þinn eigið börn saman. Ekki eyða tíma þínum í einhvern sem hefur engan áhuga á langtímasambandi. 

Langtímasamband gæti hentað fráskildu fólki betur en „skot“

Þeir sem hafa gengið í gegnum skilnað eru líklegir til að læra af mistökum sínum og skilja betur hvað í fari manneskju er gott fyrir það og hvað er slæmt. 

Margt hefur breyst í stefnumótamenningunni síðustu ár.
Margt hefur breyst í stefnumótamenningunni síðustu ár. Ljósmynd/Getty Images
mbl.is