Varð fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi í hjónabandinu

Með góðri faglegri aðstoð má öðlast æðruleysi fyrir fortíðinni og …
Með góðri faglegri aðstoð má öðlast æðruleysi fyrir fortíðinni og ákveðið frelsi í lífinu. Ljósmynd/Unsplash

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá karlmanni sem er særður á sálinni eftir hjónaband með fyrrverandi eiginkonu. Hann á erfitt með að vinna úr skilnaðinum. 

Komdu sæl Elínrós.

Ég á erfitt með að vinna úr skilnaði. Það er liðinn þó nokkur tími síðan ég skildi. Sambandið var bæði gott og vont. Við hefðum bæði getað betur á mismunandi sviðum. Ég varð fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi í sambandinu og ef ég á að vera heiðarlegur varð fyrrverandi maki einnig fyrir andlegu ofbeldi af minni hálfu.

Ég held að við bæði ætluðum ekki að meiða hvort annað. Við fórum bara í hringi þar sem vantaði upp á heilbrigð samskipti og heiðarleika og gremja og reiði festi sig í sambandinu. Hluti af mér vill kenna fyrrverandi maka um meirihlutann af hinu neikvæða í sambandinu en ég veit samt að ég átti minn þátt í því neikvæða. Eftir sambandsslitinn hef ég orðið fyrir andlegu og félagslegu ofbeldi af hálfu fyrrverandi maka míns þar sem hún hefur verið með ósannar ásakanir gegn mér og einnig talað um mig á niðrandi hátt. Ég er mjög særður á sálinni vegna þessa. En þrátt fyrir það að þá hugsa ég stundum um „EF“, ef ég hefði reynt áfram, ef ég hefði gert hitt en ekki þetta. Við eigum börn saman og ég er svo hræddur um að þessi sambandsslit munu hafa neikvæð áhrif á börnin okkar þegar fram í sækir. Ég hugsa stundum um þegar ég kynntist henni og varð ástfanginn, góðu tímana saman, gleðistundirnar okkar og tenginguna okkar. Ég er svo reiður við sjálfan mig, ég er svo sár við sjálfan mig. Ég vildi ég hefði gert betur.

Ég er með lokað á fyrrverandi á öllum samfélagsmiðlum því ég get ekki hugsað mér að sjá mynd af henni. Ég er með engar myndir af henni á heimili mínu. Og ég hef engar myndir af henni í tölvunni hjá mér. Hún hefur verið hræðileg við mig eftir sambandsslitin, bara mjög vond í orðum og hvernig hún talar um mig út í samfélagið. Og ég er sár við hana, mjög sár. En samt hugsa ég alltaf um manneskjuna sem ég varð ástfanginn af og reyni að fyrirgefa. Ég fæ glansmyndir af sambandinu okkar. Við getum ekki byrjað saman aftur. Það er allt of mikið neikvætt og ljótt búið að fara á milli okkar. Mér langar bara að ná jafnvægi, tilfinningalegu jafnvægi og vinna mig frá þessum líðan og eftirsjá.

Kær kveðja, X

Elínrós Líndal starfar sem ráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæll X

Ég get lesið á bréfinu þínu að þú hefur unnið töluvert í þér. Þú notar orð á borð við gremju, tekur ábyrgð í sambandinu og ert að reyna að horfa á það á hlutlægan hátt. Eins talarðu um glansmynd sem gefur mér vísbendingu um að þú vitir hvað er að dagdreyma og muninn á því að lifa í raunveruleikanum og síðan að lifa í eigin huga. Þú hefur hins vegar ekki náð þessari ró á tilfinningasviðinu sem þú veist að þú getur öðlast með réttri vinnu. Þessu frelsi að geta setið í þér, sáttur við fortíðina og spenntur fyrir framtíðinni.

Það sem mér finnst vanta í bréfið þitt og mig langar að segja það beint út af því ég held þú þolir sannleikann er fúsleiki til að gera aðra hluti þegar kemur að því að sækja þér hjálp. Ég hef aldrei séð fólk ná bata á þessu sviði með aðstoð sjálfshjálparbóka, líkt og ég hef aldrei séð fólk verða edrú í lengri tíma með því að lesa AA-bókina einvörðungu.

Þú þyrftir að finna þér karlmann að vinna með sem er ráðgjafi eða „sponsor“ í 12 spora samtökum sem takast á við stjórnleysi á þessu sviði. Einhvern sem þú getur borið virðingu fyrir og getur lánað þér dómgreind.  

Andlegt og líkamlegt ofbeldi er eitthvað sem enginn ætti að sætta sig við. Að læra að setja sér og öðrum heilbrigð mörk er alltaf fyrsta skrefið til að koma sér út úr þannig aðstæðum að mínu mati. 

Þar sem þú ert ekki með neina beina spurningu til mín í textanum þínum þá læt ég þetta duga í bili. En vil ítreka að þú getur öðlast bata á þessu sviði og orðið frjáls frá öðru fólki, óheilbrigðum hugmyndum, gremju og ótta þegar kemur að fyrrverandi eða atburðum í fortíðinni. Að öllu óbreyttu tel ég óþarfi að velta fyrir sér hvað ef þegar kemur að gömlum samböndum. Hingað til hef ég einungis séð fólk vera að gera sitt besta, þótt margir séu illa nestaðir í heilbrigð hjónabönd. Hver veit nema að þú munir öðlast nýja sýn á það sem gerðist í þessu sambandi og þið náið saman aftur, sem vinir fyrir börnin ykkar eða eitthvað annað.

Gangi þér vel.

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál