Logandi hrædd við ástarsambönd

Að vera stöðugt á flótta á tilfinningasviðinu er mikil vinna.
Að vera stöðugt á flótta á tilfinningasviðinu er mikil vinna. Ljósmynd/Unsplash

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá einstaklingi sem er logandi hrædd við samband og hleyptur í burtu ef einhver hefur áhuga. 

Sæl Elínrós

Eftir að hafa verið í sambandi í nokkur ár endaði það með að einstaklingurinn fór út af annarri manneskju, hef ég verið að taka mig á í nokkur ár. En er enn logandi hrædd við að fara í samband og hleyp í burtu ef einstaklingur hefur einhvern áhuga.

Er hægt að treysta aftur? Eftir svona lífsreynslu eða á ég bara að gleyma þessu og gleyma sambandi út ævina.

Kv: ein hrædd

Elínrós Líndal starfar sem ráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Hæ hæ.

Ég er alls ekki tilbúin að skrifa undir það að þú sért brotin, þrátt fyrir að þú hafir upplifað vonbrigði á ástarsviðinu. Ég hef fylgst með of mörgum rísa aftur upp eftir slíka reynslu og dusta af sér rykið. Þú ert í mesta lagi föst/fastur í mynstri og þarft einhvern til að aðstoða þig við að raða og flokka á þessu sviði.

Viltu ekki bara taka af þér hlaupaskóna, setjast niður og slappa af? Veröldin er með plan og þú á réttum tíma að byrja að skoða þessa hluti. 

Þú spyrð í lok bréfsins: „Er hægt að treysta aftur? Eftir svona lífsreynslu eða á ég bara að gleyma þessu og gleyma sambandi út ævina.“

Mig langar að vita hvar þú lærðir svona lítið umburðalyndi fyrir mennskunni og mistökum? Yfirfærirðu þessa hugsun á fleiri svið í lífinu? Ef ekki, af hverju á þetta þá bara við um ástina?

Bati á tilfinningasviðinu kemur vanalega þegar við náum að taka ábyrgð á hvernig við gerðum hlutina áður og sjáum þá í nýju ljósi. Þegar við náum að vera algjörlega hamingjusöm (óháð sambandsstöðu okkar) og verðum þannig fær um að gefa eitthvað til annarra.

Ást getur verið hugbreytandi, rétt eins og alls konar önnur efni. Bati á tilfinningasviðinu er hins vegar aldrei að halda sig algjörlega frá fólki, heldur að halda sér frá fyrirframskilgreindri botnhegðun. Samböndum eða athöfnum sem hafa meitt mann í fortíðinni. 

Það er erfitt fyrir mig að skilja af hverju maki þinn fór frá þér, en oftar en ekki hefur það ekkert með makann sem eftir situr, nema ef um mjög óheilbrigt samband var um að ræða. Það þarf oftast tvo í slík sambönd.

Til að komast áfram af staðnum sem þú ert á myndi ég telja að þú þyrftir handleiðslu í ákveðinn tíma. Ég myndi skoða úr hvernig umhverfi þú kemur, gömul sambönd og síðan myndi ég velta fyrir mér grunnhugmyndum þínum um ást og hamingju. En þar sem þú ert ekki hjá mér í ráðgjöf myndi ég setja athyglina á að þú komir þér á góðan stað andlega og líkamlega og síðan farir rólega í að kynnast fólki sem kemur til greina að stofna til sambands með. 

Það er til fullt af frábæru fólki þarna úti sem er að leita að góðum lífsförunaut. Aðilar sem eru heiðarlegir, ástunda vinnu og standa við það sem þeir ætla að standa við í lífinu. Ég vona að þú hafir smekk fyrir þannig fólki í dag.

Ég held að sambandssamningur sé eitthvað sem myndi hjálpa þér í framtíðinni. Enda tel ég óráðlegt að fara í samband án þess að það sé mjög skýrt hvað sambandið á að fela í sér.

Þú þarft ekki að treysta öðru fólki til að fara í samband, enda gerast alls konar hlutir í sambandi. Þú þarft fyrst og síðast að treysta sjálfum þér, gera góðan samning og síðan endurskoða samninginn reglulega.

Þú getur alltaf ákveðið að hætta þér ekki inn á þetta svið, en ég tel það jafn óskynsamlegt eins og að ætla að hætta að hreyfa sig í lífinu. Hluti af því að vera manneskja er að eiga skilið að elska einhvern og vera elskaður til baka. 

Finndu þér góðan félaga að æfa þig með og gerðu hlutina að vel hugsuðu máli. Öll skref sem þú tekur á þessu sviði, verða þín. Sama hvað maki þinn gerir eða gerir ekki, þá getur þú í enda dagsins alltaf sagt: Ég reyndi mitt besta. Sem er dásamlega heilbrigt og eðlilegt að við leyfum okkur að gera. 

Gangi þér alltaf sem best.

Kveðja, Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is