Íslensk kona vill gera dóttur sína arflausa

Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður/​MBA svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hann spurn­ingu frá konu sem veit ekki hvernig hún á að snúa sér.

Sæll 

Ég á eitt barn sem ekki vill vera í sambandi við mig. Ég hef verið að hugsa um erfðamál undanfarið og finnst skrýtið að ég geti ekki ráðstafað eigum mínum að vild nema að litlu leiti. Þetta barn mitt er uppkomið og hefur það gott fjárhagslega og ég hef mikinn áhuga á að eigur mínar renni til þeirra sem hafa það ekki nándar nærri jafn gott. Hvað er til ráða ef ég vil að góðgerðarstofnanir erfi mig að öllu leiti eftir minn dag?

Kveðja, 

S

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA.
Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA.

Sæl

Samkvæmt 35. gr. erfðalaga er einstaklingi sem á börn eða maka óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 eigna sinna með erfðaskrá. Þessi regla bindur alfarið fyrir það að foreldri geti gert barn sitt arflaust. Barn getur þó tapað erfðarétti sínum, skv. 23. gr. erfðalaga, ef það fremur tiltekin brot af ásetningi á hendur foreldri, s.s. beitir foreldrið ofbeldi, heitist við það eða hótar því óförum, meiði æru þess eða gerist sekt um aðra stórfelldar mótgerðir svo refsivert sé. Einnig getur barn afsalað sér erfðarétti skv. 28. gr. erfðalaga. Vilji einstaklingur aftur á móti ráðstafa eigum sínum sem tilteknum hætti er ekkert sem hindrar að viðkomandi geri það í lifanda lífi sem lífsgjöf svokallaða.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is