Var arfur minn rýrður þegar faðir minn lést?

Íslensk kona er ósátt við hvernig eigum var skipt þegar …
Íslensk kona er ósátt við hvernig eigum var skipt þegar faðir hennar lést. Ljósmynd/Unsplash

Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður/​​MBA svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hann rekur lögfræðistofuna Sævar Þór & Partners. Hér fær hann spurn­ingu frá manneskju sem veltir fyrir sér rétti sínum í erfðamálum. 

Sæll Sævar

Faðir minn lést fyrir 25 árum. Við erfingjar skrifuðum undir að mamma gæti setið í óskiptu búi. Stuttu síðar tók hún upp samband við annan mann og var þá húsið selt. Þetta var sirka 1990. Er þá ekki nauðsynlegt að gera upp dánarbúið? Annað, þau giftu sig nokkru síðar og enn var dánarbúið ekki gert upp. Hverjir eru ekki að standa sig í reglunni (sýslumaður eða prestur)? Nú var dánarbúið gert upp fyrir um 5-8 árum en þá var það gert miðað við upphæðina sem fékkst fyrir húsið þegar það var selt.
       

Mér finnst arfur minn hafa verið rýrður til muna. Hver er réttur okkar systkinanna þegar mamma fellur frá? Hún á líka fósturbörn í hina áttina. 

Kveðja, G

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands.
Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands.

Sæl,


Óskipt bú felur það í sér að eiginlegum arfskiptum eftir skammlífari maka er slegið á frest. Reglurnar um heimild til setu í óskiptu búi og um nánari réttaráhrif og takmörk þeirrar heimildar fjalla ákvæði II. kafla erfðalaga nr. 8/1962. Frumskilyrði heimildar til setu í óskiptu búi er vitaskuld að hið langlífara sé maki hins látna. Óvígð sambúð stofnar því ekki rétt í þessu sambandi og með sömu rökum felur óvígð sambúð eða annars konar samband sem þú vísar í ekki í sér brottfall leyfis til setu í óskiptu búi.

Meginreglan um ráðstöfunarheimild maka sem nýtur leyfis til setu í óskiptu búi er sú að hann hefur fulla heimild til að ráðstafa eignum búsins til annarra aðila með hverjum þeim hætti sem hann kýs, hvort heldur sem er með sölu eða gjöfum eða með öðrum löggerningum. Þess skal þó getið að samerfingi getur krafist skipta sér til handa ef maki hefur rýrt efni bús með óhæfilegri fjárstjórn eftir því sem nánar segir í 15. gr. erfðalaga.

Hafi móðir þín síðar gengið í hjúskap að nýju er svo skýrlega mælt í 2. mgr. 13. gr. erfðalaga að heimild til setu í óskiptu búi falli niður. Enn fremur segir í 12. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 að hafi hjónaefni verið í hjúskap sé óheimilt að vígja það nema opinber skipti séu hafin eða einkaskiptum lokið vegna fjárskipta hjónaefnis og fyrri maka. Löggildir hjónavígslumenn annast könnun hjónavígsluskilyrða. Það eru sýslumenn, prestar eða forstöðumenn skráðra trúfélaga. Einungis sýslumenn sjá þó um könnun hjónavígsluskilyrða, ef hjónaefni, annað eða bæði, eiga ekki lögheimili hér á landi. Þetta gildir þó að prestur eða forstöðumaður skráðs trúfélags annist hjónavígsluna sjálfa.

Miðað við gefnar forsendur í fyrirspurn þinni virðist sem svo að ráðstöfunin er laut að sölu fasteignarinnar hafi verið innan þeirrar heimildar er móðir þín naut með leyfi til setu í óskiptu búi.

Kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál