Gæti ég erft fyrirtæki pabba míns?

Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem veltir fyrir sér hver hennar réttur sé varðandi fyrirtæki fjölskyldunnar. 

Hæ hæ.

Las greinina um að kona var gerð arflaus og að það megi ekki ráðstafa meira en 1/3 eigna sinna. Hvernig er þetta þá með fyrirtæki sem skuldar, s.s. engin eign heldur bara rekið áfram til að borga upp skuldir? Gæti ég, 1 af 3 systkinum „erft“ fyrirtækið? Eða þyrfti pabbi minn að selja mér það? Hvað gerist með fyrirtækið ef hann fellur frá? Húsið sem við búum í er hluti af fyrirtækinu, ehf.

Kv, H

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA.
Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA.

Sæll

Við gerð erfðaskrár þarf ávallt að huga að réttindum skylduerfingja séu þeir til staðar, en í þeim tilvikum er arfleiðanda óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá.

Ef sá látni (faðir þinn) hefur verið í hjúskap og lætur að auki eftir sig börn eða aðra afkomendur getur eftirlifandi maki yfirleitt leitað eftir leyfi til að sitja í óskiptu búi, en með slíku leyfi ræður eftirlifandi maki einn yfir eignum sínum og þess látna.

Ef máli verður ekki lokið með framangreindum hætti verður yfirleitt farin sú leið að erfingjar framkvæmi svokölluð einkaskipti. Eftir andlát er erfingjum því heimilt, ef allir eru sammála, að skipta dánarbúi með einkaskiptum og skiptast eignir og skuldir hins látna, þ. á m. umrætt fyrirtæki og skuldir milli erfingja með ákveðnum hætti. Bera erfingjar þá einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldum hins látna.

Ef ekki næst samkomulag milli erfingja um að sækja um leyfi til einkaskipta þurfa að fara fram opinber skipti á dánarbúinu og geta ástæður þess verið margar. Má þar nefna að eignir búsins hrökkvi ekki fyrir skuldum, erfingjar teysta sér ekki til að taka ábyrgð á skuldum eða erfingjar eru ekki sammála um skiptin. Hver erfingi fyrir sig á rétt á því að krefjast þess að opinber skipti fari fram og nægir að einn þeirra biðji um það.

Ég vona að þetta svari fyrirspurn þinni.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál