Maðurinn minn er alltaf að skoða konur á Instagram

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem veltir fyrir sér af hverju ástarsambandið sé svona vont og hvort hún væri betur sett ein en í sambandinu. 

Sæl Elínrós

Ég er búin að vera í sambandi í nokkur ár sem er mjög sársaukafullt. Ekki af því að manneskjan er vond, heldur af því að það koma upp hlutir í sambandinu sem meiða mig mikið. Sem dæmi horfir hann mikið á eftir öðrum konum. Hann daðrar við ókunnugar konur og er stöðugt að reyna að fá athygli frá þeim. Eins eyðir hann löngum stundum á samfélagsmiðlum og skoðar konur. 

Ég er ekki alveg að ná þessu. 

Áður en ég kynntist honum, var ég örugg með mig en núna er ég farin að halda að allar aðrar konur séu meira spennandi en ég. Ég virðist líka vera að meiða hann. Sem dæmi þá er ég mjög vinamörg og vinsæl, sem hann hefur sagt að geri hann óöruggan með mig.

Við höfum margoft talað um að hætta saman, en það er alltaf eitthvað sem fær okkur til að halda áfram. 

Hvað getum við gert? Ég velti fyrir mér hvort sambandið gæti verið gott, þótt það reyni á tilfinningarnar. Málið er að við erum frábærir félagar, en ég veit ekki með kærustuparahlutann. Er ég betur sett ein?

Kveðja, O

Elínrós Líndal starfar sem ráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar

Ákvörðunin um að vera ein eða í sambandi verður alltaf að vera tekin af þér og myndi ég forðast að fá svona ráð frá ráðgjafa. Hins vegar er ég á því að þið gætuð unnið töluvert í sambandinu og ykkur sjálfum, sem yrði þá alltaf bati sem þið bæði mynduð eignast — sitt í hvoru lagi.

Að sjálfsögðu er alltaf auðveldara að fixa sig á samfélagsmiðlum þar sem maður getur lifað í ævintýraheimi, með fyrrverandi kærustu eða sætum stelpum sem maður uppgötvar þar. Að mæta inn í eigið tilfinningalíf, berskjalda sig og vera með væntingar og langanir er töluverð vinna, sem er svo sannarlega þess virði að fara í.

Eins getur það kallast forðun í sambandi ef aðili kann ekki að setja heilbrigð mörk og tjá langanir sínar og þarfir í sambandinu. 

Viltu ekki bara setja heilbrigð mörk og skoða alla möguleika fyrir ykkur?

Sambandið verður áfram svona að mínu mati nema að annað ykkar eða bæði prófið að gera hlutina öðruvísi. Það sem ég myndi ráðleggja þér að gera er að taka kærastanum þínum ekki of persónulega. 

Hvernig sambandi langar þig að vera í og af hverju? Hvaða þrár ertu með í lífinu og á hverju byggja þær. 

Ef þú værir alveg ein, værir þú þá hamingjusöm? Ef ekki hvað gætir þú gert fyrir þig í dag sem myndi gera það að verkum að þú verðir hamingjusöm, sama hvað kærastinn þinn tekur sér fyrir hendur?

Léleg sambönd og lítil nánd getur brotið fólk niður andlega og líkamlega. Ég er á því að maður skyldi aldrei gefa samböndum svo mikla vigt að maður veikist á sál og líkama vegna þeirra. Það er þó alveg óþarfi að setja á sig hlaupaskóna og fara í nýtt samband. Ef kærastinn þinn er góður félagi myndu heilbrigð mörk og heiðarleiki alltaf vera fyrsta skrefið í átt að betra lífi fyrir ykkur bæði. 

Gangi ykkur báðum alltaf sem best.

Kveðja, Elínrós

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál