Íslensk kona skilur ekkert í Tinder

Stétt eða staða hefur ekkert með heiðarleika á ástar- og …
Stétt eða staða hefur ekkert með heiðarleika á ástar- og kynlífssviðinu að gera. Ljósmynd/Unsplash

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem langar að kynnast lífsförunaut en er stöðugt að lenda í því sama. Karlmönnum sem eiga sér eina opinbera persónu og aðra sem þeir fela. Sumir þeirra eru í góðum stöðum en virðast í stjórnleysi á ástar- og kynlífssviðinu.   

Sælar.

Mig langaði að forvitnast með eitt sem viðkemur stefnumótaforritum. Ég hef hitt nokkra karlmenn í gegnum Tinder, sem eru í flottum stöðum og sumir að vinna innan heilbrigðisstéttarinnar svo dæmi séu tekin. 

Samskiptin byrja öll á svipum nótum þar sem karlarnir sækja svolítið stíft í hitting. Síðan er farið á nokkur stefnumót en síðan heyri ég ekki meira frá viðkomandi aðilum. Nema eftir einhverjar vikur þegar hringurinn endurtekur sig. 

Ef ég ætla að reyna að ræða við þessa menn um tilfinningar, skuldbindingar eða að fara í samband, þá fara þeir á flótta og virðast reyna að finna sér undankomuleið.

Margir af þeim virðast vera með eina opinbera persónu og síðan aðra stefnumóta týpu. Sumir þeirra virðast jafnvel vera að hitta fleiri en eina konu á sama tíma. Þess vegna langar mig að spyrja - er hægt að vera sérfræðingur í tilfinningum annarra verandi sjálfur með allt sitt í rugli?

Hvað er ég að gera rangt og hvernig gæti ég hugsað þessa hluti aðeins öðruvísi?

Bestu kveðjur, XOX

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar.

Mér finnst þetta góð spurning og velti fyrir mér hvort við meinið sem þú lýsir í bréfinu sé ekki bara samfélagslegt mein sem ekki er búið að taka á.

En hvað getur þú gert varðandi þitt einkalíf?

Til að byrja með held ég að það sé hollt af setja fólk ekki í box eða kassa eftir starfstitli. Það er eins og að halda því fram að læknar geti ekki verið með stjórnleysi þegar kemur að mat og drykk. Eða að segja að lögreglumenn horfi ekki á klám. Sem er náttúrulega langt frá sannleikanum eins og margir vita. 

Það sem ég myndi segja að væri áhugavert fyrir þig að skoða er þínar langanir og væntingar. Hvernig velur þú þér maka og á hverju byggir þú hugmyndir þínar um karlmenn?

Ef þú gefur þér allt að átta skipti á stefnumót með þeim sem þig langar í samband með og ferð hægt í sakirnar verður alltaf auðveldara fyrir þig að átta þig á hvernig mann þú ert með í höndunum. Eins sýna rannsóknir að þeir detta fljótt úr hefðbundnu samskiptaformi, þeir sem eru með stjórnleysi á sviði ást og kynlífs.

Eftir því sem þú verður heilbrigðari sjálf á þessu sviði, þá eykurðu líkurnar á því að hitta heilbrigðan mann á sama stað og þú ert á.

Ekki hika við að nefna samband og framtíðina á þessum stefnumótum. Þú munt fljótt sjá undir hælana á þeim sem eru að nota samskiptaforritin til að svala stundarþörfum sínum. Þeim sem verðskulda ekki náin samskipti, virðingu og heilbrigði á þessu sviði.

Gangi þér vel,

Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is