Af hverju stundar fólk minna kynlíf í sambúð?

Sameiginlegt heimili þýðir ekki endilega meira kynlíf.
Sameiginlegt heimili þýðir ekki endilega meira kynlíf. mbl.is/Thinkstockphotos

Það er oft talað um að fólk sem hefur verið lengi saman stundi minna kynlíf. Þetta er ekki alrangt að mati kynlífssérfræðingsins Tracey Cox sem fór yfir það á vef Daily Mail hvað býr að baki. 

Cox er þekkt fyrir að vera hreinskilin og er hún með þrjár kenningar um fólk sem segir að það stundi ekki minna kynlíf en áður eftir áratugalangt samband. Segir hún það vera að ljúga, það hafi aldrei stundað gott kynlíf eða kynlíf sé það eina sem það eigi sameiginlegt þar sem það hafi ekki náð saman á tilfinningasviðinu. 

Skuldbinding heillar ekki

Maðurinn er sjaldan ánægður með það sem hann hefur og vill eitthvað annað. Þetta á vel við í samböndum að mati Cox. Segir hún það ekki beint kveikja í pörum þegar kynlíf er í boði allan sólarhringinn. Segir hún að það sem drífur kynlíf áfram áður en fólk skuldbindur sig hverfi þegar fólk flytur inn saman. 

Hveitibrauðshormónin minnka

Cox bendir á rannsókn sem gerð var á löngum tíma af taugalæknum. Kom þar í ljós að hormónin breytast eftir níu mánuði í sambandi eða svokallaða hveitibrauðsdaga. Ástin er þó ekki að dvína eins og einhverjir kunna að halda heldur er fólk að undirbúa sig fyrir að taka sambandið á næsta stig. Heilinn þarf ráðrúm til þess að vega og meta mögulegan lífsförunaut. 

Ástarvíman myndi gera út af við fólk

Ekki er hægt að viðhalda tímabilinu sem tekur fólk að verða ástfangið mjög lengi að mati Cox. Allt annað situr á hakanum enda grípur sterk löngun til þess að eyða hverri einustu sekúndu af sólahringnum með nýja elskhuganum. Það myndi gera út af við fólk að vera í þessari ástarvímu lengi. 

Fólk hættir að skipuleggja kynlíf

Cox segir algengt að fólk tali neikvætt um stefnumótakvöld þar sem það vill ekki skipuleggja kynlíf. Fólk er með einhverja hugmynd um að kynlíf gerist ósjálfrátt. Cox spyr þá gjarnan hvort fólk hafi notið þess að stunda kynlíf í upphafi sambands. Hvað er það annað en að skipuleggja kynlíf þegar fólk ákveður að fara á stefnumót í byrjun sambands?

Minnkar kynlífslöngunin þegar fólk flytur inn saman?
Minnkar kynlífslöngunin þegar fólk flytur inn saman? mbl.is/Thinkstockphotos
mbl.is