Missti vinnuna og er algjörlega í molum

Það er alltaf áfall að lenda í uppsögn í vinnu. …
Það er alltaf áfall að lenda í uppsögn í vinnu. Margir deila þessari reynslu og geta verið til staðar ef þú ert að upplifa áfall þessu tengt. mbl.is/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá karlmanni á besta aldri sem missti nýverið vinnuna sína. Hann er hræddur um að eiga ekki afturkvæmt út á vinnumarkaðinn. 

Sæl.

Ég er einn af þeim um þessar mundir sem hef orðið fyrir atvinnuskerðingu vegna niðurskurðar í fyrirtækinu sem ég var að vinna í.

Ég hef aldrei lent í uppsögn áður og hafði unnið lengi á þessum stað. Í raun hélt ég að einungis letingjar myndu lenda í uppsögn. 

Ég á erfitt með að fara á fætur og eyði löngum stundum að velta fyrir mér hvernig aðrir tilheyra í samfélaginu og ekki ég. Þessi atburður í lífinu mínu er að hafa veruleg áhrif á hvernig mér líður, sjálfsvirðinguna mína og andlegt og líkamlegt ástand mitt. 

Ég er rúmlega fertugur að aldri og líður eins og ég eigi ekki afturkvæmt inn á vinnumarkaðinn. Það virðist vera fjöldinn allur af fólki í minni grein sem situr um þau fáeinu störf sem verið er að auglýsa í dag hjá fyrirtækjum. Ég er háskólamenntaður með góða menntun. 

Hvað ráðleggur þú mér að gera á þeim stað sem ég er?

Með vinarkveðju, I

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæll I og takk fyrir að senda inn þessa spurningu.

Þú ert svo sannarlega ekki einn á þessum stað enda margir mjög hæfir einstaklingar búnir að missa atvinnu sína að undanförnu.

Það sem virðist koma fólki á óvart í þinni stöðu er hversu almennt það er að fólk hafi lent í uppsögnum. Þetta er það sem mig langar að segja við þig í upphafi. Bara að þú munir að langflest okkar deila sömu reynslu og þú einhvern tímann á lífsleiðinni. Þau okkar sem hafa getað notað áskorun sem þessa til að breyta til í lífinu og fundið jákvæða útkomu út úr því, við þökkum uppsögninni fyrir tækifærið og erum dugleg að deila af þessari reynslu okkar. 

Ég mæli með því fyrir alla í þinni stöðu að vera duglegir að tala við fólk um upplifun sína. Að sjálfsögðu er alltaf best að tala við þá sem maður treystir og fjöldinn allur af fagfólki er þjálfað í að grípa fólk á staðnum sem þú ert á. 

Ég mæli með fyrir alla þá sem hafa unnið lengi í sama starfinu og hafa sérfræðiþekkingu á ákveðnum sviðum sem nýtist samfélaginu að skoða þann valmöguleika að fara að starfa fyrir sjálfan sig. Jafnvel að finna sér gott húsnæði þar sem það getur haldið í þær hefðir sem það hefur þróað með sér, að mæta ákveðið margar klukkustundir á dag til vinnu og að vera í kringum annað fólk. 

Eins mæli ég með því að fólk geri upp atvinnutímabilið sem það var að fara í gegnum. Geri eins konar uppgjör á tímanum. Hvað var gott? Hvað hefði betur mátt fara? Hvar hefði verið hollt að setja heilbrigðari mörk og þar fram eftir götunum. 

Að setja inn í daginn heilsurækt, hollan mat og að huga að svefni er lykilatriði í því tímabili sem þú ert á núna. Ekki dæma þig og aðra sem eru í þinni stöðu, það kæmi þér á óvart hversu margir deila þinni reynslu. Í raun vil ég halda því fram að enginn fari í gegnum það að starfa á vinnumarkaðnum, sem ekki hefur lent í einhverjum hremmingum svipuðum þeim sem þú ert að lenda í núna. 

Ég myndi hvetja þig til að finna þér áhugaverð verkefni þar sem þú getur gefið þjónustu þína, hluta af vikunni. Það hefur sýnt sig að við verðum hamingjusöm af því að gera hluti fyrir aðra — ekki síst þegar okkur líður illa sjálfum. 

Síðan langar mig að spyrja þig: Er starfið sem þú varst í starfið sem þú myndir vinna ef þú ættir alla peninga sem þú þyrftir út ævina? Ef ekki, hvað værir þú að gera?

Ef draumastarfið er í annarri grein langar mig að hvetja þig til að skoða að bæta við þig þekkingu á því sviði. Ég held það sé hollt fyrir bæði þig og hagkerfið okkar að fólk bæti við sig þekkingu hvenær sem er um ævina. Hvort heldur sem er með því að fara á námskeið, í frekara nám og þar fram eftir götunum. 

Mínar fyrirmyndir sem dæmi eru allar komnar yfir áttrætt, tóku doktorsprófin sín seint á ævinni og bjuggu til feril sem hélt í þeim lífi og ánægju í mörg ár eftir að jafnaldrar þeirra hættu að vinna. Ég hvet þig til að skoða þann valmöguleika vel og vandlega.  

Ertu í forminu sem þig langar að vera í? Borðarðu matinn sem þig langar að borða? Umgengst þú fólkið sem þig langar að umgangast? Ertu að tileinka þér deilihagkerfið eins vel og þú gætir? Þetta eru allt spurningar sem ég fór í gegnum á þeim tíma sem ég sjálf missti vinnu og gerðu mér mikið gagn.

Bókin The Power of Positive Thinking eftir Norman Vincent Peale …
Bókin The Power of Positive Thinking eftir Norman Vincent Peale fæst m.a. á Amazon. com.

Eins langar mig að benda þér á eina góða bók sem kemur upp í hugann að væri gott fyrir þig að lesa á þeim tíma sem þú ert að fara í gegnum núna. Hún heitir The Power of Positive Thinking eftir Norman Vincent Peale. Algjörlega mögnuð bók sem hittir mann í hjartastað.

Að lokum langar mig að segja að ég hef heyrt í fjölmörgum stjórnendum fyrirtækja í dag sem hafa þurft að segja upp fólki. Þessir aðilar eru sammála um að hafa þurft að segja upp hæfu starfsfólki sem eiga allt hið besta skilið í lífinu. Hugur þeirra er mikið hjá þeim. 

Ég vona svo sannarlega að þú haldir áfram einn dag í einu og haldir þínu striki. Ekki láta neinn utanaðkomandi segja þér raunverulegt virði þitt og ef þú ferð mikið niður andlega þá er engin skömm fólgin í því að heimsækja sem dæmi heimilislæknirinn eða fara í góða samtalsmeðferð hjá sálfræðingi. 

Það eru ekki verkefnin sem við lendum í sem skilgreina okkur. Heldur það hvernig við tökumst á við þau. 

Með virðingu og vinsemd, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is