Svona dílar Linda við sorgina á þessum árstíma

Linda Baldvinsdóttir markþjálfi og samskiptaráðgjafi.
Linda Baldvinsdóttir markþjálfi og samskiptaráðgjafi. mbl.is/Árni Sæberg

„Á þessum tíma árs fer hugur minn aftur í tímann og ég ylja mér við minningar frá jólum barnsæskunnar og eins þegar ég var sjálf með fjölskyldu sem ég útbjó jólin fyrir.

Aldrei hafa þó kviknað jafn margar minningar hjá mér og fyrir þessi jól og bernskan stendur mér ljóslifandi fyrir augum með öllum þeim jóladásemdum sem barnshugurinn upplifði enda eru þetta fyrstu jólin þar sem ég hef hvorki mömmu eða pabba með mér þar. Ljúfsár sorgin og söknuðurinn færir mér minningar sem ég hafði ekki hugsað um árum saman og mér þykir afar vænt um þær allar,“ segir Linda Baldvinsdóttir markþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Baksturinn fyrir jólin er mér hugstæður því að hann gaf okkur mömmu svo mikinn tíma saman þó að mér fyndist ekki alltaf gaman að þurfa að smyrja kreminu á mömmukökurnar og draumadísirnar, merkilegt hvað þær minningar gefa mér þó mikið í dag.

Lyktin af rauðkálinu sem mamma sauð alltaf á Þorláksmessu og ég gerði síðan einnig sjálf eftir að ég stofnaði heimili, skötulyktin sem mér fannst svo hræðileg en þeim foreldrum mínum þótti nauðsynlegur þáttur jólanna. Silfurpússning, skápaþrif og önnur stærri þrif voru einnig partur af jólaundirbúningnum og í dag minnist ég þeirra með væntumþykju þó að ég hafi nú ekki alltaf verið hrifin af stússinu í mömmu fyrir þessi blessuðu jól, hélt þó síðan sjálf í þessar hefðir á mínu heimili börnunum mínum til jafnvel enn meiri ama en mér forðum. 

Ég man líka eftir þessum örfáu ljósaseríum sem til voru, svolítið örðuvísi þá en í dag þar sem allt flóir í jólaljósum,og ég minnist sérlega forláta seríu sem var blómum skreytt og dugði í marga áratugi með reglulegum peruskiptingum. Eins man ég þegar ég fékk að kaupa mér mína eigin ljósaseríu í herbergið mitt, seríu sem ég átti alveg ein þegar ég var líklega tíu eða ellefu ára! - það voru ótrúleg verðmætt fyrir stelpuskottið.

Jólaskreytingarnar voru aldrei settar upp fyrr en 22 eða 23 desember og jólatréð var ekki skreytt fyrr en að öllu stússi var lokið á Þorlákinum og ég man hvað ég naut þess að skreyta það og eins alla þá pakka sem gefnir voru. Stjarnan sett síðust á toppinn á trénu og þá gátu jólin komið. Dásamlegir tímar að minnast.

Sama rútína var hjá mér þegar börnin mín ólust upp og þá var líklega enn meira stúss og enn meira um að vera, fleiri smákökusortir bakaðar og þrifin enn umfangsmeiri. þessi aðventutími og þær fallegu tilfinningar sem hann skapaði í hjarta mér eru mér þó svo ómetanlegar.Að geta sótt í þær á þessum tíma aðventunnar er svo gott, því að eins og við vitum mörg þá er þessi tími líka svo óskaplega erfiður fyrir svo allt of marga.

Þeir sem hafa misst ástvini, heilsu, atvinnu eða hafa skilið við maka sinn á árinu eða eru einir án fjölskyldu vita að þessi tími getur verið svo sársaukafullur og angurvær. 

Fyrir þá sem hafa gengið í gegnum missi af öllu tagi á árinu eru jólin oft ákaflega erfið og fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna er þessi tími einnig oft mjjög fyrirkvíðanlegur.

Við höfum farið svo yfir strikið sem ríkmannleg þjóð og kaupæðið hefur gert það að verkum að þeir sem lítið hafa finna sig svo vanmáttuga gagnvart öllum krásunum sem ætlast er til að hægt sé að veita í mat og gjöfum. Þeir vita að þeir geta með engum hætti boðið börnum sínum allar þær rándýru gjafir sem auglýstar eru af kappi á þessum árstíma og sporin eru þung að sækja sér þá hjálp sem er í boði til að hægt sé að veita þó eitthvað. 

Þeir sem búa einir og hafa fáa eða enga í kringum sig eiga einnig oft erfitt á þessum tíma því að einmannaleikinn verður aldrei eins raunverulegur og á þessum dimma tíma gleðinnar og samverunnar hér á landi. 

Ég hef sjálf fundið fyrir einmannaleika og sorg á þessum árstíma og finn mig stundum vanmáttuga fjárhagslega, langar svo oft að gefa meira en ég get, og í ár finn ég einnig fyrir sorg vegna missis á árinu.

Mig langar í lokin að fá deila með ykkur hvað hefur reynst mér sjálfri best á þessum árstíma þegar einmannaleikinn og aðrar ekki svo góðar tilfinningar herja á hvað mest, og langar að fá að deila þeim ráðum með ykkur ef þau gætu gagnast einhverjum á erfiðri aðventu.

Hér koma þessi ráð mín svo:

  1. Að fara í minningabankann og þakka fyrir það fallega sem þar má finna er svo dýrmætt, því að það er ekki sjálfsagt að eiga góðar og fallegar minningar.
  2. Að gera skemmtilega hluti með þeim sem okkur þykir vænt um, hluti sem kosta ekki hálfan  handlegginn.
  3. Jólatréð á Austurvelli er alltaf þess virði að skoða og baða sig í birtu þess, að ganga niður Laugaveginn með öllum þeim asa sem þar má finna, baka smákökur og fylla húsið af kökuilmi, skreyta piparkökur og hlusta á jólalögin, fara á skauta eða baka vöfflur og búa til kakó með fjölskyldu og vinum.
  4. Bjóða í jólapálínuboð er alltaf gaman og gefur okkur ómetanlega samveru.
  5. Að föndra eitthvað skemmtilegt fyrir jólin.
  6. Að fara á kaffihús með vinum, tónleika og rápa í messur sem fullar eru af söng á þessum árstíma og fara svo heim og pakka inn jólagjöfum.
  7. Að hlusta á jólatónlist og kveikja á kertum ásamt því að hugleiða á það góða sem er í lífi okkar og heiminum öllum.
  8. Að húsvitja og skoða jólin hjá þeim sem í kringum okkur eru og smakka smákökurnar þeirra.
  9. Að senda kærleiksríkar kveðjur til fólks - jafnvel fólks sem þú þekkir lítið, við vitum aldrei hversu mikið það getur gefið þeim sem þiggur.
  10. Að leyfa okkur að finna í hjartanu þær fallegu tilfinningar sem fylgja jólunum og gleðjast með þeim sem glaðir eru, syrgja með syrgjendum og styðja þá sem þurfa stuðning á svo margan hátt er partur af þessum tíma og aldrei er of mikið gefið af sjálfum sér. Og svo að lokum -
  11. Að minnast látinna ástvina með því að eiga stund með þeim í kirkjugarðinum, helst með öllum þeim sem þeim tilheyrðu bara til að þakka fyrir þann tíma sem við fengum með þessum dýrmætu englum sem nú vaka yfir okkur.

Þetta eru örfá ráð sem gætu mögulega gert aðventuna ánægjulega þrátt fyrir erfiðar aðstæður en ekki vegna þess að aðstæðurnar séu svo glimrandi góðar.

Þau hafa gagnast mér í gegnum árin - en stundum þarf ég að hafa fyrir því að fara eftir þeim sjálf og það tekur mig smá tíma að koma mér í þennan gír, en þegar ég kemst þangað virkar þetta nægjanlega vel fyrir mig til að ég finni fyrir anda jólanna og ég vona að þessi litlu ráð geti hjálpað þér að finna jólandann þrátt fyrir en ekki vegna.

Ykkur sem eruð ein án fjölskyldu og vina hvet ég til að taka þátt í starfi stofnana sem gefa gleði og styrk þeim sem þurfa á að halda. Stofnanir eins og t.d Samhjálp, Rauði Krossinn og kirkjustarfið í hverfinu þínu þurfa liðsinnis þíns við á þessum tíma til að gleðja þá sem minna mega sín, og það er fátt sem gefur okkur meira af góðum tilfinningum en það að gefa af okkur.

Og til ykkar sem hafið misst part af ykkar lífi eða kæra ástvini á árinu sendi ég mína samkennd og hugheilar samúðarkveðjur,og bið ykkur blessunar og styrks á göngu ykkar með sorginni og öðrum þeim erfiðu tilfinningum sem þið eruð að upplifa.

Minningarnar lifa og gleðja okkur í sorginni og ef ég tala nú bara fyrir mig þá er ljúfsárt að horfa á þær góðu sem safnast hafa saman í gegnum árin og þakka fyrir þær - með því móti finn ég kærleiksríkan anda hátíðarinnar og friðinn sem sá andi gefur.

Að endingu óska ég ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og bið að hátíð ljóssins færi okkur frið sinn, gleði og kærleiksríka einingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál