Kvíðir því að vera ein um jólin

Fyrstu jólin eftir skilnað eru oft erfið. Þá reynir á …
Fyrstu jólin eftir skilnað eru oft erfið. Þá reynir á að vera til staðar fyrir sjálfan sig á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt. mbl.is/Unsplash

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem skildi á árinu. Hún verður ein á aðfangadagskvöld og veit ekki hvernig hún á að komast í gegnum kvöldið. 

Sæl.

Ég er með hnút í maganum þar sem þetta eru fyrstu jólin mín og áramótin eftir skilnað. Ég verð með börnin mín í hádeginu á aðfangadag og síðan verð ég með þau á gamlársdag. Ég skildi fyrir átta mánuðum og hafði ekki undirbúið mig fyrir þennan tíma. 

Fjölskyldan mín er úti á landi. Ég bý fallega hér í borginni en er með stóran hnút í maganum yfir þessu.

Áttu gott ráð sem gæti aðstoðað mig með aðfangadagskvöld? Mig langar alls ekki að troða mér sem þriðja hjólið inn á fjölskyldur vina minna. Eiginmaður minn fyrrverandi er kominn í annað samband og því ekki mikið samtal okkar á milli.

Hvað mælir þú með að ung kona á besta aldri geri?

Með kveðju, jólakona sem verður ein um jólin!

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl og takk fyrir þessa spurningu. 

Ég held það sé mjög eðlilegt að þú sért vanmáttug fyrstu jólin þín eftir skilnað. Það er nokkuð sem flestir ef ekki allir ganga í gegnum í skilnaðarferlinu.

Það er ýmislegt sem ég mæli með að þú gerir. 

Til að byrja með mæli ég með því að þú búir til falleg og skemmtileg jól á aðfangadag með börnunum þótt um sé að ræða hádegi en ekki kvöldið. Ég veit um fjöldann allan af foreldrum sem verða í þínum sporum á aðfangadag og flestir sem hafa náð tökum á þessu reyna að gera bara það besta úr málunum þegar börnin eru hjá þeim.

Mundu að jólin koma einu sinni á ári og þú munt fá mörg tækifæri til að ná tökum á nýju lífi eftir skilnað. 

Af því að þú spyrð hverju ég mæli með þá langar mig að segja þér að ég mæli með því að þú gerir bara nákvæmlega það sem þig langar að gera. Ef þú ert með daginn vel skipulagðan og setur fókusinn á þig eftir að börnin eru farin eru minni líkur á vanlíðan á þessum tíma. 

Nú veit ég ekki hvernig þér líður almennt um jólin, en hluti af því sem ég geri með mínum skjólstæðingum sem eru í þínum sporum er að finna út með þeim hvernig draumajólin eru í þeirra huga. Hvað þau vilja gera og hvað þau vilja forðast. 

Ég veit um manneskju sem kveið einstaklega mikið fyrir jólunum og ákvað að undirbúa sig vel og gerði plan um að hvíla sig eftir hádegismat á aðfangadag með börnunum. Þessi manneskja var með nóg af bókum, kvikmyndum og öðru efni og sagði að kvöldið hefði verið fínt. Eftir þetta lagði hún sig fram um að gera aðeins minna um jólin og njóta frekar samverunnar með fólkinu sínu. Annar aðili ákvað að vera til staðar fyrir þá sem eru heimilislausir á jólunum og gleymdi sér í þjónustu við þá og sagðist hafa upplifað sannan jólaanda í fyrsta skipti í lífinu. 

Það er ótrúlega margt sem þú getur gert. Það sem ég myndi ekki gera er að reyna að flýja neikvæðar tilfinningar með óheilbrigðum leiðum. Ég er á því að fólk ætti að reyna að forðast áfengi á aðfangadag. Að fara í miðnæturmessu er einstakt sem og að vera með þeim sem maður elskar. Ef ekki er í boði annað en að vera með sjálfum sér, þá er eins gott að maður kunni að vera góður við sig og tala fallega til sín. 

Góð kvikmynd, ljúffengur matur, skemmtileg tónlist og fullt af jólaljósum er ekki endilega það versta sem hægt er að hugsa sér á aðfangadag. 

Ég bið æðri mátt að koma inn í líf þitt og þeirra sem eru einir um jólin. Ekki síst þeirra foreldra sem hafa misst börnin sín frá sér. Megi jólaandinn og kraftur jólanna fylla hjörtu landsmanna af ást og friði.

Guð gefi ykkur gleðileg jól!

Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál